Hjalti Skeggjason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hjalti Skeggjason var íslenskur höfðingi á 9. og 10. öld og var einn af helstu leiðtogum kristinna manna við kristnitökuna. Hann bjó í Þjórsárdal.

Hjalti var sonur Skeggja Þorgeirssonar, Eilífssonar, Ketilssonar einhenda Auðunarsonar, landnámsmanns á Á á Rangárvöllum. Hann giftist Vilborgu, dóttur Gissurar hvíta Teitssonar og voru þeir tengdafeðgar kristnaðir og skírðir af Þangbrandi biskupi. Á Alþingi árið 999 var að því er segir í Kristni sögu mikið deilt um trúmál og kristniboð Þangbrandar og „guðlöstuðu þá sumir menn mjök, en þeir er skírðir voru ámæltu goðunum, og var at því sveitardráttur mikill“. Hjalti orti þá kviðlinginn „Vilk eigi goð geyja, grey þykir mér Freyja“ og var dæmdur sekur skóggangsmaður fyrir goðgá (guðlast)

Þeir Gissur fóru svo til Noregs og segir í Kristni sögu að þeir hafi siglt á skipi sem Hjalti hafi látið smíða í Þjórsárdal og draga niður eftir Rangá til sjávar. Þeir voru hjá Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi einn vetur en konungur sendi þá svo til Íslands til að kristna landsmenn. Þeir komu til Íslands rétt fyrir Alþingi. Á þinginu höfðu þeir fjölda fylgismanna því margir Íslendingar höfðu þá tekið kristna trú. Gissur og Hjalti gengu til Lögbergs og báru upp erindi konungs. Þótti þeim mælast vel en en svá mikil ógn fylgði orðum þeira, at engir óvinir þeira þorðu at tala móti þeim. Þingheimur skiptist í tvo flokka en á endanum urðu sættir og úrskurðaði Þorgeir Ljósvetningagoði að Íslendingar skyldu taka kristni.

Árið 1016 sigldi Hjalti til Noregs og var með Ólafi konungi digra, sem sendi hann ásamt Birni stallara sínum til Svíþjóðar að leita friðarsamninga við Ólaf skautkonung og sömdu þeir um trúlofun Ingigerðar dóttur hans og Ólafs helga, sem ekkert varð þó úr. Frá þessu ferðalagi segir ítarlega í Ólafs sögu helga. Hjalti sneri aftur til Íslands 1018.

Dótir Hjalta og Vilborgar var Jórunn, sem giftist Járnskeggja, syni Einars Þveræings. Börn þeirra voru Einar, afi Björns Gilssonar Hólabiskups og Björns Gilssonar ábóta, og Guðrún, amma Magnúsar Einarssonar Skálholtsbiskups.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Kristni saga“. Á www.heimskringla.no.