Hítardalsklaustur
Hítardalsklaustur var munkaklaustur af Benediktsreglu, talið hafa verið stofnað árið 1166 í Hítardal á Mýrum, en mjög litlar heimildir eru þó til um klaustrið og jafnvel hefur verið dregið í efa að þar hafi nokkurn tíma komist á eiginlegur klausturlifnaður en ef svo var hefur klaustrið lagst af eftir fáeina áratugi.
Talið er að klaustrið hafi verið stofnað að einhverju leyti til minningar um brunann mikla í Hítardal 30. september 1148, þegar Magnús biskup Einarsson brann inni ásamt yfir áttatíu öðrum, og er það mannskæðasti eldsvoði á Íslandi. Bóndinn í Hítardal, Þorleifur beiskaldi Þorláksson, bjargaðist úr brunanum og átti langt líf fyrir höndum (d. 1200). Hann var stórauðugur og fékk Klængur biskup hann til að gefa jörðina til klausturstofnunar.
Um klaustrið er nær ekkert vitað en víst er að Þorleifur beiskaldi bjó áfram í Hítardal þrátt fyrir klausturstofnunina og sonur hans eftir hann. Síðar bjó Loftur biskupssonur þar, en Þorleifur var langafi hans, og þá Ketill sonur hans, en hann deildi við Staða-Árna um forræði yfir jörðinni um 1270 - þá er sagt um Hítardal „þar hafði klaustur áður verið“ og bendir það til þess að það sé þá löngu aflagt - og missti það að lokum í hendur kirkjunnar. Enginn ábóti virðist hafa haft forræði jarðarinnar.
Tveir Hítardalsábótar eru þó nefndir í annálum, Hreinn Styrmisson, sem sagður er hafa verið vígður ábóti 1166 og dáið 1171 en er að vísu einnig sagður hafa verið ábóti í Þingeyraklaustri á sama tíma; og Hafliði nokkur, sem dó 1201 en er líka talinn hafa verið ábóti í Flatey, sem varla fær þó staðist.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]„Hítardalsklaustur. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.