Fara í innihald

Farsími

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Farsími
Maður talar í farsíma.

Farsími er lítill þráðlaus handsími. Farsímar notast við farsímakerfi sem er ein tegund þráðlauss og langdrægs símkerfis. Orðið farsími á yfirleitt við símtæki notenda, en þau er ekki mögulegt að nota án farsímakerfis á borð við GSM. Orðið þráðlaus sími á oftast við þráðlausan heimasíma ásamt móðurstöð, sem er skammdrægt símtæki.

Helsti tilgangur farsíma er að hringja og senda smáskilaboð (SMS). Auk þessarar grunnvirkni gera nútímafarsímar manni kleift að gera margt fleira, til dæmis vafra á netinu, taka myndir, taka upp myndbönd, hlusta á tónlist, horfa á sjónvarpsefni og kvikmyndir, spila tölvuleiki og greiða fyrir vörur. Farsímar sem bjóða upp á slíka möguleika eru oft kallaðir snjallsímar. Slíkir símar eru oft með snertiskjá og/eða lyklaborð, hraðari örgjörva og meira geymluspláss fyrir margmiðlunarefni og smáforrit eða öpp.

Þróun farsíma frá 1989 til 2004

Farsímar voru um langt skeið einn af draumum fjarskiptaverkfræðinga. Árið 1959 skrifaði Arthur C. Clarke ritgerð sem innihélt líflegan og að mörgu leyti nákvæman spádóm um farsíma, þar sem hann sá fyrir sér „persónulegt senditæki, svo lítið og þétt að hver maður gengur með það.“ Hann skrifaði „sá tími mun koma að við getum hringt í einstakling hvar sem er á jörðinni með því einu að velja símanúmer.“ Samkvæmt draumórum Clarkes myndi slíkt tæki líka geta fundið staðsetningu einstaklings þannig að „enginn myndi týnast að óþörfu“. Seinna spáði hann í ritgerðinni Profiles of the Future að tilkoma þessa tækis væri á miðjum níunda áratugnum.[1]

Meðal forvera farsímans voru hliðræn útvarpstæki notuð í skipum og járnbrautarlestum. Kapphlaup til að kynna til sögunnar eiginlega farsíma hófst í alvöru eftir seinni heimsstyrjöldina og þróunin átti sér stað í mörgum löndum. Framförum í farsímatækni má skipta í nokkrar kynslóðir, en elstu kerfin teljast til 0G (núllkynslóðarinnar). Sem dæmi um slík kerfi má nefna Mobile Telephone Service frá Bell System og arftaka þess, Improved Mobile Telephone Service. Þessi 0G-kerfi voru mjög dýr og gátu ekki flutt mörg símtöl í einu. Þau voru ekki heldur byggð á „sellum“ (sjá farsímakerfi).

Bandaríska fyrirtækið Motorola sýndi fyrsta handfarsímann árið 1973. Fyrsta sjálfvirka farsímanetið var opnað í Japan árið 1979 af NTT. Í kjölfar þess var Norræna farsímakerfinu (NMT) hleypt af stokkunum í Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.[2] Fleiri farsímanet voru síðan opnuð í öðrum löndum á miðjum níunda áratugnum. Þessi 1G (fyrstu kynslóðar)-kerfi gátu flutt miklu fleiri símtöl en 0G-kerfin en byggðu samt enn á hliðrænni tækni.

Árið 1991 var fyrsta stafræna farsímanetið opnað í Finnlandi af Radiolinja. Þetta 2G-kerfi var byggt á GSM-staðlinum og var kveikjan að mikilli samkeppni á þessu sviði. Póstur og sími opnaði fyrsta GSM-netið á Íslandi þann 16. ágúst 1994.[3] Tíu árum síðar var 3G-farsímakerfi byggt á WCDMA-staðlinum ræst í Japan af NTT DoCoMo.[4] Fyrsta 3G-þjónustan á Íslandi fór í loftið þann 3. september 2007 á vegum Símans.[5] Alþjóðlegri 3G-væðingu símneta fylgdu framfarir eins og 3.5G eða 3G+ sem byggðu á HSPA-tækni. Bættur gagnahraði og afkastageta neta sem byggðu á UMTS-kerfinu kom í kjölfar þessara framfara.

Fyrir 2009 var orðið ljóst að 3G-net yrðu ofhlaðin á einhverjum tímapunkti í framtíðinni vegna aukinna vinsælda bandvíddafrekrar þjónustu.[6] Vegna þessa fóru farsímafyrirtæki að horfa til þróunar 4G-tækni sem ætlað er að flytja mikið gagnamagn. 4G-kerfi eru allt að tíu sinnum hraðari en 3G-kerfi. Fyrstu 4G-staðlarnir sem komu á markað voru WiMAX (í boði hjá Sprint í Bandaríkjunum) og LTE sem TeliaSonera bauð upp á fyrst í Skandinavíu.[7] Þessi kynslóð farsímatækni kom til Íslands þann 1. ágúst 2013 þegar Nova hleypti 4G-netinu sínu af stokkunum.[8]

Möguleikar

[breyta | breyta frumkóða]
Prentplata úr Nokia 3210

Allir farsímar bjóða upp á nokkra sameiginlega möguleika, en framleiðendur reyna að greina vörur sínar frá öðrum á markaðnum með því að bæta við möguleikum. Þessi þróun hefur leitt til mikillar nýsköpunar á farsímasviðinu undanfarin 20 ár.

Helstu eiginleikar farsíma eru:

Smáskilaboð

[breyta | breyta frumkóða]

Mest notaði möguleikinn í farsímum (fyrir utan símtöl) eru smáskilaboð eða SMS. Fyrstu smáskilaboðin voru send frá tölvu til farsíma árið 1992 á Bretlandi, en fyrstu smáskilaboðin frá einum síma til annars voru send í Finnlandi árið 1993.

Fyrstu farsímafréttaþjónustunni var hleypt af stokkunum í Finnlandi árið 2000 en hún var send út með smáskilaboðum. Í kjölfar þess komu mörg fyrirtæki sér upp svipaðri þjónustu.

Dæmigerð SIM-kort

GSM-símar krefjast lítillar samrásar sem heitir SIM-kort þannig að notandinn geti hringt og sent skilaboð. SIM-kortið er svipað frímerki að stærð og í flestum símum er það sett undir rafhlöðuna á bakhlið tækisins. Á SIM-kortinu er IMSI-númerið geymt á öruggan hátt ásamt lykli sem auðkennir notandann. SIM-kortið gerir notendum kleift að skipta á farsíma með því að taka kortið úr einum síma og að setja það í annan. SIM-kort eru líka notuð í spjaldtölvum og netpungum sem nota farsímakerfið til gagnaflutninga.

Símar sem styður við marga staðla

[breyta | breyta frumkóða]

Sumir farsímar styðja bæði GSM- og CDMA-kerfi. Slíkir farsímar geta tekið bæði SIM-kort og R-UIM-kort, allt að fjögur í einu.

Frá 2010 höfðu slíkir farsímar verið vinsælir í Indlandi, Indónesíu og öðrum nýmörkuðum þar sem þeir svöruðu eftirspurn eftir lægri rekstrarkostnaði. Á þriðja ársfjórðungi ársins 2011 seldi Nokia 18 milljónir farsíma með tveimur SIM-kortshólfum sem tilraun til að bæta upp tapið á snjallsímamarkaðnum.

Símar í samræmi við trúarlegar hefðir gyðinga

[breyta | breyta frumkóða]

Í dag uppfylla margir farsímar ekki kröfur sanntrúaðra gyðinga um hógværð. Til að svara þessari eftirspurn þarf farsíma án aðgangs að netinu, smáskilaboða eða myndavéla. Þessir „kosher“-farsímar eru samþykktir af rabbínum fyrir notkun í Ísrael og annars staðar í heiminum. Sumir eru jafnvel samþykktir fyrir notkun á sabbatsdögum fyrir þá sem vinna í heilsugæslu, öryggisgæslu eða annarri almannaþjónustu, þrátt fyrir að bannað sé að nota raftæki á sabbatsdögum.

Farsímanet

[breyta | breyta frumkóða]
Farsímaáskrifendur eftir löndum frá 1980 til 2009.
Sjá líka: Farsímakerfi

Heimsins stærsta farsímanet eftir notendum er China Mobile með yfir 500 milljón áskrifendur.[9] Yfir 50 farsímafyrirtæki eru með yfir 10 milljón áskrifendur en yfir 150 farsímafyrirtæki eru með að minnsta kosti milljón áskrifendur frá og með árslokum 2009. Í febrúar 2010 voru farsímaáskrifendur orðnir yfir sex milljarðar og búist er við að þeim haldi áfram að fjölga.[10]

Á Íslandi er mikil farsímavæðing en 330 þúsund farsímar voru í notkun hérlendis frá og með 2009.[11] Um það bil 66% Íslendinga eiga snjallsíma samkvæmt könnun MMR.[12] Í dag eru þrjú farsímanet á Íslandi, rekin af Símanum, Vodafone og Nova. Önnur fjarskiptafélög eins og t.d. Hringdu, Hringiðan og fleiri nýta þau farsímanet til að selja þjónustu sína.

Framleiðendur

[breyta | breyta frumkóða]

Fyrir árið 2010 var Nokia leiðandi á farsímamarknaðnum en frá þeim tíma hefur samkeppni frá öðrum framleiðendum vaxið mikið. Í Asíu tóku fyrirtæki eins og Micromax, Nexian og i-Mobile yfir markaðshlutdeild Nokia smám saman. Farsímar sem keyra Android-stýrikerfið höfðu líka áhrif á markaðshlutdeild Nokia í þessum heimshluta. Í Indlandi féll markaðshlutdeild Nokia í 31% úr 56% á þessu tímabili. Kínverskir og indverskir framleiðendur ódýrra farsíma tóku bróðurpart viðskiptavina Nokia.[13]

Á fyrsta ársfjórðungi 2012 tók Samsung yfir stöðu Nokia sem stærsti framleiðandi farsíma en það seldi 93,5 milljón eintök það ár, meðan Nokia seldi 82,7 milljón eintök. Sama ár lækkaði Standard & Poor's lánshæfismat Nokia í BB+/B með neikvæðum horfum vegna mikils taps og slæmrar sölu á Lumia-snjallsímum, sem nægðu ekki til að bæta upp samdrátt í tekjum af farsímum byggðum á Symbian-stýrikerfinu.[14] Árið 2013 festi Microsoft kaup á farsímadeild Nokia.[15]

Stærstu fimm farsímaframleiðendur heims árið 2013
Sæti Framleiðandi Gartner[10] IDC[16]
1 Samsung 24,6% 24,5%
2 Nokia 13,9% 13,8%
3 Apple Inc. 8,3% 8,4%
4 LG 3,8% 3,8%
5 ZTE 3,3% -
5 Huawei - 3,0%
Aðrir 34,0% 46,4%

  • Athugasemd: Tölurnar byggjast eingöngu á sölum undir eigin vörumerki fyrirtækis

Farsímaverkstæði í Mumbai

Farsímar eru notaðir í ýmsum tilgangi, til dæmis til að hafa samband við fjölskyldu og vini, stunda viðskipti og í neyðartilvikum. Sumir eiga fleiri en einn farsíma fyrir ólíka notkun, til dæmis fyrir persónuleg not eða vegna atvinnu. Hægt er að nota fleira en eitt SIM-kort til að borga sem minnst fyrir símaþjónustuna; til dæmis gæti eitt SIM-kort boðið upp á ódýrari símtöl innanlands og annað ódýrari símtöl utanlands, í staðinn fyrir að nota SIM-kort á reiki erlendis. Farsíminn hefur verið notaður í ýmsu samhengi í samfélaginu:

  • Motorola framkvæmdi könnun sem sýndi að einn tíundi farsímanotenda eru með annan farsíma sem þeir segja engum frá. Þessi símar eru notaðir meðal annars við framhjáhald og til að gera leynilega viðskiptasamninga.
  • Sum samtök hjálpa fórnalömbum heimilisofbeldis með því að gefa þeim farsíma fyrir neyðartilvik. Oft eru það endurnýttir símar.
  • Tilkoma smáskilaboða hefur leitt til farsímsaskáldsögunnar; þetta er fyrsta bókmenntagreinin sem er orðin til á farsímaöldinni úr smáskilaboðum sem er safnað og sett saman á vefsíðu.
  • Farsímar auðvelda aðgerðastefnu og almannablaðamennsku.
  • Sameinuðu þjóðirnar hafa greint frá því að farsímar hafa breiðst hraðar út en öll önnur tækni og getur bætt lífskjör fátækasta fólksins í þróunarlöndum með því að veita þeim aðgang að upplýsingum á stöðum þar sem heimasímar eða netþjónusta eru ekki í boði. Notkun á farsímum skapar mikla vinnu, til dæmis við að selja SIM-kort og síma eða gera við þá.
  • Í Malí og öðrum Afríkulöndum fór fólk til næsta þorps til að segja fjölskyldunni sinni frá brúðkaupum, fæðingu og slíku en þetta er orðið óþarft í dag þar sem farsímanet eru til.
  • Sjónvarpsiðnaðurinn hefur byrjað að nota farsíma til að auka áhorf með öppum, auglýsingum og fleira. 86% Bandaríkjamanna nota farsímann sinn til að horfa á sjónvarpið.
  • Í sumum heimshlutum er algengt að deila einum farsíma. Þetta er útbreitt í indverskum borgum þar sem fjölskyldur og vinir deila einum eða fleiri farsímum sín á milli. Algengt er að þorp hefur aðgang að aðeins einum farsíma, kannski í eigu kennara eða trúboða, sem allir mega nota.

Margmiðlun

[breyta | breyta frumkóða]

Eitt fyrsta dæmið um dreifingu og sölu margmiðlunar í gegnum farsíma var þegar finnska fyrirtækið Radiolinja hóf sölu á hringitónum árið 1998. Stuttu eftir það var annað efni í boði eins og fréttir, tölvuleikir, brandarar, stjörnuspá, sjónvarpsefni og auglýsingar. Í fyrstu var mikið af þessu efni bara afrit af því sem áður var til, til dæmis auglýsingaborðar eða yfirlit úr sjónvarpsfréttum. Undanfarin ár hefur þetta breyst smám saman og nú er mikið efni framleitt eingöngu fyrir farsíma, t.d. öpp.

Árið 2006 náði verðmæti farsímamiðla 31 milljarður bandaríkjadala og var á þeim tíma verðmætara en netmiðlar. Árið 2007 var verðmæti tónlistarefnis í farsímum 9,3 milljarðar dollara og farsímaleikja 5 milljarðar dollara.[17]

Undir stýri

[breyta | breyta frumkóða]
Að skrifa skilaboð í þungri umferð í New York

Notkun farsíma undir stýri ökutækja er útbreidd en umdeild. Truflanir meðan á akstri stendur geta aukið áhættu á slysum. Vegna þess er bannað að nota farsíma undir stýri í mörgum löndum. Í Egyptalandi, Ísrael, Japan, Portúgal og Singapúr er bannað bæði að nota farsíma með höndunum og með handfrjálsum búnaði undir stýri. Annars staðar, meðal annars á Bretlandi, Íslandi,[18] í Frakklandi og sumum fylkjum Bandaríkjanna, er aðeins bannað að nota símann með höndunum.

Með aukinni tækni farsíma í dag eru þeir orðnir næstum eins og fartölvur í notkun. Þess vegna á lögreglan erfitt með að greina á milli notkunar farsíma meðan á akstri stendur. Þetta er meira áberandi í löndum þar sem er bannað bæði að nota símann í höndunum og með handfrjálsum búnaði, því ekki er auðvelt að greina hvernig verið er að nota símann með því að horfa á ökumanninn. Þar af leiðandi geta ökumenn verið stöðvaðir fyrir að nota símann ólöglega þegar þeir eru í raun og veru að nota hann löglega, til dæmis til að spila tónlist eða sem GPS-tæki.

Rannsóknir hafa líka verið gerðar á notkun farsíma á reiðhjólum og afleiðingar hennar.[19]

Sem greiðslumáti

[breyta | breyta frumkóða]
Greiðsla með farsíma

Í mörgum löndum er boðið upp á netbanka í farsímum og er sums staðar er hægt að greiða reikninga með smáskilaboðum. Í Kenýa geta viðskiptavinir símafyrirtækisins Safaricom notað bankaþjónustuna M-PESA til að geyma peninga á SIM-kortunum sínum, svo dæmi sé nefnt. Hægt er að leggja peninga inn á eða taka þá út af M-PESA-reikningum í verslunum Safaricom, auk þess að millifæra peninga á milli fólks og nota þá til að borga heimilisreikninga.

Tilraunir með greiðslur með farsímum voru fyrst gerðar í Finnlandi árið 1998 þegar tveir sjálfsalar Coca-Cola í Espoo voru útbúnir tæki til að taka á móti greiðslum með SMS. Hugmyndin hefur breiðst út um heiminn og nú er slíkan greiðslumáta að finna í mörgum löndum.

Með sumum farsímum er hægt að greiða beint með því að snerta posa með þeim. Þessi snertilaus greiðslumáti virkar á svipaðan hátt og snjallkort, þ.e. með nærsamskiptum (NFC).[20]

Sem staðsetningarbúnaður

[breyta | breyta frumkóða]

Farsímar geta verið notaðir til að safna gögn um staðsetningu notandans. Meðan kveikt er á símanum er auðvelt að finna landfræðilega staðsetningu tækisins, hvort sem hann er í notkun eða ekki. Þetta er gert með því að reikna út muninn á tímanunum sem tekur merkið að fara frá einu loftneti í nágrenni tækisins til annars.[21][22]

Farsímafyrirtæki, lögreglan og ríkisstjórnin geta fylgst með ferðum farsímanotanda í gegnum bæði SIM-kortið og símann sjálfan.[21]

Þjófnaður

[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt Fjarskiptaumboði Bandaríkjanna (FCC) er farsímaþjófnaður einn þriðji hluti allra þjófnaða í Bandaríkjunum. Lögreglan í San Francisco komst að því að helmingur allra þjófnaða í borginni voru á farsímum. Framleiðendur farsíma hafa brugðist við þessari þróun með því að gera eiganda símans kleift að afvirkja símann úr fjarlægð, sem dregur úr líkunum á því að honum sé stolið og gerir erfiðara að selja símann áfram.

Áhrif á heilsu

[breyta | breyta frumkóða]

Farsímar senda frá sér rafsegulgeislun á örbylgjutíðni. Mörg önnur fjarskiptakerfi senda frá sér svipaða geislun og farsímar, til dæmis þráðlausir netbeinar og þráðlausir heimasímar (DECT).

Þann 31. maí 2011 skýrði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin frá því að farsímar gætu verið skaðlegir heilsunni til lengri tíma[23][24] og sagði að geislun frá farsímum „gæti valdið krabbameini í mannfólki“ eftir að hópur óháðra sérfræðinga á sviði örbylgjugeislunar skoðaði og mat allar rannsóknir sem birtar höfðu verið um áhrif örbylgjugeislunar frá farsímum. Þann 31. maí árið 2011 flokkaði IARC hópurinn alla þráðlausa örbylgjugeislun í flokk 2B sem mögulega krabbameinsvaldandi.[1]

Nokkrar nýlegar rannsóknir benda til mögulegrar samsvörunar á milli notkunar farsíma og sumra tegunda heila- og munnvatnskirtlaæxla. Prófessor Lennart Hardell við Örebro háskóla í Svíþjóð og aðrir greindu 11 rannsóknir úr ritrýndum fræðitímaritum og komust að þeirri niðurstöðu að notkun farsíma í a.m.k. tíu ár „meira eða minna tvöfaldar líkurnar á því að einstaklingur sé greindur með heilaæxli á sömu hlíð höfuðsins og er notuð þegar talað er í farsímann“.[25] Eins má nefna CERENAT rannsóknina frá Frakklandi sem einnig sýnir fylgni við heilamein.[2]

Ein rannsóknin sem fjallað er um í greiningunni sýndi að „hættan á heilakrabbameini (glioma) jókst um 40% hjá þeim sem notuðu farsímann mest (að meðaltali 30 mínútur á dag á 10 ára tímabili)“.[26] Í sumum löndum, til dæmis Frakklandi, hafa verið sett lög til að takmarka örbylgjugeislun og þá sérstaklega í umhverfi barna.[3] Mörg önnur lönd hafa einnig tekið skref í þá átt að vernda almenning og sérstaklega börn og ófrískar konur gegn síaukinni þráðlausri örbylgjugeislun.[4] Nýjasta rannsóknin á þessu sviði kemur frá NTP (National Toxicology Program) í Bandaríkjunum en hún er sú stærsta og dýrasta sem stofnunin hefur framkæmt frá upphafi. Rannsóknin kostaði 250 milljón bandaríkjadali og var notast bæði við rottur og mýs. Frumniðurstöður hennar sem birta voru sumarið 2016 eru sláandi en þær sýna fylgni við heilamein (glioma) eða sömu tegund og faraldsfræðirannsóknir hafa áður sýnt.[5] Líkurnar á að það gerist fyrir tilviljun eru hverfandi. Óháðir sérfræðingar á borð við prófessor Lennart Hardell og Dr. Dariusz Leszczynski sem báðir voru valdir af WHO til að sitja í starfshópi IARC árið 2011 fullyrða að eftir að frumniðurstöður NTP rannsóknarinnar komu fram myndi sami hópur sérfræðinga hækka flokkun á allri þráðlausri örbylgjugeislun uppí flokk 2A eða mögulega krabbameinsvaldandi sem er næsti flokkur við 1 sem er þá krabbameinsvaldandi.

Lengi hefur verið fullyrt af ýmsum aðilum að ójónuð örbylgjugeislun hafi ekki líffræðileg áhrif nema þá hitunaráhrif. Nú þykir fullsýnt að sú fullyrðing stenst ekki. Viðmið um hámarksgeislun sem Geislavarnir ríkisins styðst við voru sett af ICNIRP árið 1998 og miða eingöngu við hitunaráhrif. Þykir mörgum þau viðmið vera úrelt í ljósi nýjustu rannsókna og hefur t.a.m. stór hópur sérfræðinga sem birt hafa ritrýndar rannsóknir á áhrifum örbylgjugeislunar sent frá sér áskorun til Sameinuðu þjóðanna og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar þar sem skorað er á þá aðila að gera mun strangari kröfur um viðmið um hámarks geislun til verndar almenningi. Áskorunin hefur verið undirrituð af 224 sérfræðingum frá 41 landi.[6]

Umhverfisáhrif

[breyta | breyta frumkóða]
Úreltir farsímar

Alfonso Balmori hefur gert nokkrar rannsóknir á áhrifum farsímasenda/-mastra á náttúrulegt umhverfi á Spáni t.a.m. á körtur og fugla og benda þær rannsóknir ótvírætt til áhrifa örbylgjugeislunar á lífsskilyrði dýra í náttúrunni.[7]

Rannsóknir benda til þess að um 40-50% áhrifa farsíma á umhverfið stafi af framleiðslu prentplatanna og samrásanna.[27] Neytendur kaupa nýja farsíma á 11 til 18 mánuða fresti að meðaltali.[28] Gömlu símunum er þá hent og ýta undir rafrænan úrgang. Farsímaframleiðendur sem selja vörurnar sínar í Evrópu verða að fylgja Reglugerð Evrópusambandsins um rafrænan úrgang (WEEE).[29]

Margir farsímar innihalda dýrmæt efni sem hægt er að endurvinna. Þetta dregur úr notkun orku og annarra auðlinda sem þarf til að vinna þessi efni úr námum. Ef þessi efni eru sett í landfyllingu geta þau mengað loftið og jarðveginn og jafnvel drykkjarvatn. Sumir farsímar innihalda blý sem er afar eitrað efni. Prentplöturnar í farsímum geta innihaldið kopar, gull, sink, beryllín, tantalín, koltan og önnur dýr eða sjaldgæf hráefni.

Í dag er meiri áhersla lögð á endurvinnslu gamalla farsíma til að draga úr neikvæðum áhrifum á umhverfið. Stundum bjóða framleiðendur og söluaðilar viðskiptavinum inneign fyrir að endurvinna gömlu farsímana sína hjá þeim en slíkt er þó sjaldgæft.

  1. Arthur C. Clarke (1962, ný útg. 1973, 1983 og 1999). Profiles of the Future.
  2. „Världens mest avancerade mobiltelefonsystem“. Tekniska Museet. Sótt 20. júlí 2014.
  3. Af­mæli gem­s­ans“, mbl.is, 14. ágúst 2009, skoðað þann 20. júlí 2014.
  4. „History of UMTS and 3G development“. UMTS World. Sótt 20. júlí 2014.
  5. „5 ára afmæli 3G á Íslandi: Ókeypis netið í símanum um helgina!“. Sótt 20. júlí 2014.
  6. Fahd Ahmad Saeed. „Capacity Limit Problem in 3G Networks“. Purdue School of Engineering. Sótt 20. júlí 2014.
  7. Fyrst í heimi með meiri hraða: 4G farsímaþjónusta á almennan markað í Svíþjóð og Noregi“, Pressan, 14. desember 2009, skoðað þann 20. júlí 2014.
  8. 4G í farsím­ann í fyrsta sinn“, mbl.is, 1. ágúst 2013, skoðað þann 20. júlí 2014.
  9. Tania Branigan. „State owned China Mobile is world's biggest mobile phone operator“, The Guardian, 11. janúar 2010, skoðað þann 20. júlí 2014.
  10. 10,0 10,1 „Annual Smartphone Sales Surpassed Sales of Feature Phones for the First Time in 2013“. Sótt 20. júlí 2014.
  11. „GSM síminn á Íslandi 15 ára í dag - lúxusinn sem varð ómissandi á örskömmum tíma“. Sótt 20. júlí 2014.
  12. „66% Íslend­inga eiga snjallsíma“. Sótt 20. júlí 2014.
  13. Nokia’s Market Share Drops Further in India“, PC World, 29. desember 2010, skoðað þann 20. júlí 2014.
  14. „Samsung May Have Just Become The King Of Mobile Handsets, While S&P Downgrades Nokia To Junk“. Sótt 20. júlí 2014.
  15. „Microsoft kaupir Nokia“. RÚV. Sótt 20. júlí 2014.
  16. „Worldwide Smartphone Shipments Top One Billion Units for the First Time“. Sótt 20. júlí 2014.
  17. „Downloads Guide“. Netsize. Sótt 20. júlí 2014.
  18. „1987 nr. 50 30. mars/ Umferðarlög“. Sótt 20. júlí 2014.
  19. de Waard, D.; Schepers, P.; Ormel, W. og Brookhuis, K.. „Mobile phone use while cycling: Incidence and effects on behaviour and safety“. Ergonomics. , 2010: 30–42. .
  20. Viðskiptablaðið - Geta greitt með snjallsímanum“, Viðskiptablaðið, 15. janúar 2012, skoðað þann 20. júlí 2014.
  21. 21,0 21,1 Tracking a suspect by mobile phone“, BBC News, 3. ágúst 2005, skoðað þann 20. júlí 2014.
  22. Cell Phone Tracking Can Locate Terrorists — But Only Where It's Legal“, FOX News, 14. mars 2009, skoðað þann 20. júlí 2014.
  23. „IARC CLASSIFIES RADIOFREQUENCY ELECTROMAGNETIC FIELDS AS POSSIBLY CARCINOGENIC TO HUMANS“ (PDF). Sótt 20. júlí 2014.
  24. „What are the health risks associated with mobile phones and their base stations?“. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. Sótt 20. júlí 2014.
  25. Khurana, VG; Teo, C; Kundi, M; Hardell, L; Carlberg, M;. „Cell phones and brain tumors: A review including the long term epidemiologic data“. Surgical Neurology. , 2009: 205–214. .
  26. „World Health Organization: Cell Phones May Cause Cancer“. Business Insider. Sótt 20. júlí 2014.
  27. „The Secret Life Series - Environmental Impacts of Cell Phones“. Inform, Inc. Sótt 20. júlí 2014.
  28. „E-waste research group, Facts and figures“. Griffith University. Sótt 20. júlí 2014.
  29. „EUR-Lex - 32012L0019 - EN - Eur-Lex“. Evrópusambandið. Sótt 20. júlí 2014.