Nokia

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir yfirlit yfir aðrar merkingar „Nokia“
Nokia Corporation
Nokia wordmark.svg
Rekstrarform Hlutafélag
Slagorð Óþekkt
Hjáheiti Óþekkt
Stofnað Fáni Finnlands Tampere, Finnlandi (1865)
Stofnandi Óþekkt
Örlög Óþekkt
Staðsetning Keilaniemi, Espoo, Finnlandi
Lykilmenn Fredrik Idestam
Starfsemi Farsímar og önnur fjarskiptatæki
Heildareignir Óþekkt
Tekjur 50,722 milljarðar (2008) Red Arrow Down.svg
Hagnaður f. skatta 4,966 milljarðar (2008) Red Arrow Down.svg
Hagnaður e. skatta 3,988 milljarðar (2008) Red Arrow Down.svg
Eiginfjárhlutfall Óþekkt
Móðurfyrirtæki Óþekkt
Dótturfyrirtæki Óþekkt
Starfsmenn 124.292
Vefsíða www.nokia.com

Nokia er finnskt fyrirtæki sem hefur verið leiðandi í heimi fjarskipta á alþjóðamarkaði og býður upp á fjöldann allan af farsímum og símahugbúnaði. Hugbúnaðurinn gerir fólki kleift að nota símann í fleira en að hringja úr honum, svo sem hlusta á tónlist, horfa myndbönd og sjónvarp, spila leiki, taka ljósmyndir, nota símann sem GPS tæki og margt fleira.[1]

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Fredrik Idestam, stofnandi Nokia.

Nokia er stærsti farsímaframleiðandi í heiminum í dag og spannar saga Nokia tæpa eina og hálfa öld. Hún hófst árið 1865 með pappírsmyllu, í eigu Fredrik Idestam, við flúðir Tammerkoski árinnar í suðurhluta Finnlands. Nokkrum árum síðar bætti hann annarri myllu við bakka Nokianvirta árinnar, en þaðan dregur Nokia nafn sitt.[2]

Árið 1898 stofnuðu nokkrir finnskir viðskiptamenn fyrirtækið Suomen Gummitehdas Oy (Finnish Rubber Works Ltd. á ensku) í Helsinki. Innan nokkurra ára var fyrirtækið farið að framleiða hágæða gúmmístígvél sem reyndust vera samkeppnishæf við innflutt stígvél frá Rússlandi. Er framleiðslan jókst var ákveðið að færa framleiðsluna til borgarinnar Nokia og fljótlega fóru menn að leggja áherslu á Nokia nafnið. Ekki leið á löngu áður en Nokia nafnið tók að festast við gúmmívörurnar sem enn eru framleiddar undir nafninu „Nokian Footwear“. [3]

Árið 1967 varð langþráður samruni að veruleika þegar Suomen Gummitehdas Oy, sem höfðu þá breytt nafninu sínu í Suomen Kumitehdas Oy, og finnska fjarskiptafyrirtækið Suomen Kaapelitehdas Oy sameinuðust pappírsiðnaðar- og orkufyrirtækinu Oy Nokia AB og til varð Nokia Corporation. Á 10. áratug síðustu aldar var fjöldi ódýrra innfluttra staðkvæmdarvara orðinn mikill og stóð finnski hágæðaiðnaðurinn því höllum fæti og var Nokia Corporation því skipt upp aftur líkt og fyrir samrunann og fyrirtækin ákváðu að einblína aðeins á sínar eigin vörur. Móðurfélagið, Nokia, hélt áfram í ferð sinni að verða leiðandi á fjarskiptamarkaði og er eitt stærsta fyrirtæki í heiminum í dag.[4]

Höfuðstöðvar Nokia í Espoo í Finnlandi.

Höfuðstöðvar Nokia eru í Keilaniemi í Espoo í Finnlandi. Árið 1910 varð Nokia nærri gjaldþrota eftir fyrri heimstyrjöldina. Verner Weckman, fyrsti Finninn sem vann til gullverðlauna á Ólympíuleikum, varð síðar framkvæmdarstjóri fyrirtækisins eftir að hafa verið tæknimaður hjá fyrirtækinu í sextán ár. Á níunda áratugnum lenti Nokia í miklum fjárhagslegum erfiðleikum aðallega vegna tölvudeildar þeirra. Þetta leiddi til þess að að framkvæmdarstjórinn Kari Kairamo framdi sjálfsvíg árið 1988. Eftir það tók Simo Vuorilehto við starfinu og þurfti hann að takast á við þau áhrif sem kreppan, sem skók Finnland árin 1990–1993, hafði á Nokia sem og önnur fyrirtæki.

Árið 1987 kynnti Nokia fyrsta símann sem komst fyrir í hendi og bar hann nafnið Mobira Cityman 900 og vóg ekki nema 800 grömm. Þessi sími fékk mikla umfjöllun árið 1987 þegar Mikhail Gorbachev var myndaður við að nota þennan síma til að hringja frá Helsinki til Moskvu og fékk síminn þá nafnið „Gorba“.[5]

Í lok áttunda áratugarins vann Nokia nýja stefnumótun og í framhaldi af því á árunum 1989 til 1996 seldu stjórnendur þann hluta rekstursins sem ekki var tengdur fjarskiptamarkaðnum. Fyrirtækið sá tækifæri í þróun á stafrænum búnaði þar sem aukin eftirspurn var eftir tækjum með fjölbreytta notkunareiginleika. Notendur vilja vera óháðir tíma og rúmi og Nokia einsetur sér að koma til móts við þarfir neytenda með lausnum sem hæfa hverju sinni.[6]

Fyrirtækinu er skipt í nokkrar deildir. Device & Services deildin var stofnuð 2008 til að auka skilvirkni í þróunarvinnu tækja og þjónustu þannig að tækifæri til vaxtar í samkeppnisumhverfu séu sem best nýtt.[7] NAVTEQ er dótturfyrirtæki staðsett í Chicago sem varð að fullu í eigu Nokia 2008 við yfirtöku, er rekið sem sjálfstæð eining og vinnur að þróun í stafrænum kortum fyrir gps og annan hátæknibúnað fyrir fyrirtæki og ríki. Meðal viðskiptavina eru m.a. Microsoft, Yahoo!, BMW, Chrysler, Jeep, Mini, Garmin, Mitsubishi Electric, Magellan og Motorola.[8]

Árið 2007 varð til Nokia Siemens Networks með samvinnu Nokia og Siemens. Fyrirtækið er það stærsta í heiminum í dag sem hannar lausnir fyrir fyrirtæki og einstaklinga á fjarskiptamarkaði.[9]

Árið 2002 setti Nokia fyrsta 3G símann á markað, Nokia 6650. Í lok ársins 2007 hafði Nokia selt 440 milljónir síma sem er 40% af öllum símum sem hafa verið seldir í heiminum. Frá árunum 1996 til 2001 fimmfaldaðist gróði Nokia úr 6.5 milljörðum evra í 31 milljarð evra. Í dag er Nokia fimmta verðmætasta vörumerkið í heiminum og á nú níu símaverksmiðjur, þrjár í Evrópu, þrjár í Asíu og þrjár í Bandaríkjunum.[10]

Nokia er í dag stærsti farsímaframleiðandi í heimi og jafnframt leiðandi á internetinu og samskiptamarkaði. Um milljarður fólks, frá öllum heimsálfum notar Nokia til almennra samskipta, viðskipta eða til skemmtunar. Búnaðurinn býður uppá að senda skilaboð, spila leiki, taka myndir, niðurhala tónlist, horfa á sjónvarp, skipuleggja, niðurhala kortum og fleira.[11]

Fyrirtækjamenning[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirtækjamenning Nokia er ein af mikilvægum og samkeppnishæfum yfirburðum sem þeir hafa. Meira að segja slagorð fyrirtækisins, „Connecting People“ (eða „tengjum fólk“) er táknræn fyrir menninguna.[12] Gildi Nokia voru, allt þar til í maí 2007: ánægja viðskiptavinarins, virðing, framkvæmd og endurnýjun. Þá endurskoðaði fyrirtækið gildi sín með það að markmiði að finna hver raunveruleg gildi Nokia væru og starfsmennirnir komust að því að þau væru „Engaging You“ (sem hægt er að útleggja sem „tengjum þig“), „Achieving Together“ (eða „náum árangri saman“), „Passion for Innovation“ (eða „ástríða fyrir nýsköpun“) og „Very Human“ (eða „afar mannleg“).[13]

Nýju gildin endurspegla breytingar í viðskiptaumhverfinu og vinnulagi fyrirtækisins. Þær endurspegla einnig þá skuldbindingu Nokia að bjóða upp á fjölbreytta vinnuaðstöðu þar sem allir starfsmenn geta átt möguleika á að vaxa í starfi. Auk þess eru starfsmenn hvattir til að leita leiða til að þroska sjálfa sig, starfshæfni sína og vera í framlínu tækniþróunar.[14]

Nokia sem vinnuveitandi[breyta | breyta frumkóða]

Starfsmannafjöldi í mars 2009 var 124.842 samanborið við 116.378 á sama tíma ári fyrr. Meðalfjöldi starfsmanna í Nokia Siemens Networks var 60.543 í mars 2009 en 60.391 ári áður.[15]

Fyrirtækið ræður um 1000 manns á mánuði og meðalaldur hvers starfsmanns er lítið eitt yfir 30 ára og meðal starfsævi þeirra innan fyrirtækisins er rétt undir þremur árum. Meira en helmingur starfsmanna vinnur utan Finnlands og telur Erkki Ormalla, framkvæmdastjóri tæknistefnu Nokia, það vera bestu leiðina til að keppa í hröðu og alþjóðavæddu efnahagskerfi; að draga úr miðstýringu aðgerða og treysta á framtakssemi og hæfni innfæddra.[16]

Nokia skilur mikilvægi þess að hagræða vinnu og persónulegum áhugamálum og býður því upp á stuðning fyrir starfsmenn til að halda jafnvægi í starfi og einkalífi.[17]

Einn hluti af menningunni er að hvaða starfsmaður sem er á lægri stigum getur haft samband við yfirstjórnendur, alla leið upp í framkvæmdastjórann. Ef forstjórinn skyldi ekki svara þá hefur starfsmaðurinn leyfi til að fylgja sínu eigin frumkvæði og þar með taka ákvörðun.[18]

Nokia og samfélagið[breyta | breyta frumkóða]

Nokia skuldbindur sig grænu, heilbrigðu og öruggu umhverfi og telur að góðir viðskiptahættir og samfélagsleg ábyrgð fari saman hönd í hönd.

Nokkur dæmi um viðleitni þeirra í þá átt:

 • Minnka áhrif á loftlagsbreytingar: Þeir nota nú 25% af grænni orku í allri aðstöðu hjá Nokia og áætla að nota græna orku fyrir 50% af orkuþörf þeirra um heiminn fyrir 2010.
 • Framleiða svokallaðar grænar vörur og pakkningar: 65-80% af farsímum Nokia eru endurvinnanlegir og notkun plasts fyrir aukahluti hefur verið minnkuð um 60%.
 • Spara orku: Síðustu níu ár hefur Nokia minnkað notkun á orku, sem notuð er þegar símar eru fullhlaðnir, um 90%; þar sem að það er sóun á orku að hafa símtæki enn í hleðslu þegar tækið hefur verið fullhlaðið.[19]

Nokia hefur einnig ýmsar áætlanir til að skapa jákvæð áhrif á samfélagið sem við búum í. Dæmi um það eru:

 • Þátttaka ungmenna: Nokia styður starfsemi, sem framkallar sjálfstraust, hópvinnu- og leiðtogahæfni á meðal ungmenna, í 40 löndum sem eiga erfitt uppdráttar. Sem dæmi má nefna að Nokia gaf ungmennum í San Francisco tækifæri til sjálfstjáningar og -uppgötvunar í gegnum vídeóframleiðslu.
 • Félagsleg þróun: Árið 2007 hleypti Nokia af stokkunum nýrri wiki-vefsíðu, ShareIdeas.org í samstarfi við Vodafone - til að hvetja fólk til að deila hugmyndum um leiðir til að nota samskiptaleiðir farsíma til að takast á við félagslegar og umhverfislegar áskoranir.
 • Sjálfboðastarf: Starfsmenn mega taka 1 til 2 vinnudaga á ári til að sinna sjálfboðavinnu í samfélaginu og gefa til málstaðar sem stendur þeim nærri.
 • Samvinna við háskóla Nokia eru duglegir að kanna og tengjast opinni nýsköpun í gegnum vandlega valdar rannsóknir í samstarfi við marga háskóla og stofnanir. Þeir gera það með því að deila auðlindum og hagnýtum hugmyndum.[20]

Helstu núverandi samstarfsaðilar eru til að mynda tækniháskólinn í Helsinki og tækniháskólinn í Tampere í Finnlandi. Cambridge-háskóli í Bretlandi, Massachusetts Institute of Technology, Háskólinn í Kaliforníu (Berkeley) og Stanford-háskóli í Bandaríkjunum.[21]

Symbian var stofnað 2008 og er í eigu nokkurra stærstu framleiðenda á fjarskiptamarkaði svo sem Nokia, Sony Ericsson, Motorola, NTT DOCOMO, AT&T, LG, Samsung, Vodafone, STMicroelectronics, og Texas Instruments. Symbian er enn í þróun en er ætlað að verða í framtíðinni opið kerfi. Kerfið er hugsað sem samvinnuverkefni og stofnað hefur verið til samfélags á internetinu þar sem þróunarvinnan mun fara fram m.a. í gegnum Symbian Beta Website Program þar sem meðlimir geti skipst á upplýsingum í gegnum spjallsíður eins og Wikipedia. En tilgangurinn er að flýta fyrir þróun á sviði fjarskiptabúnaðar og að vinnan sem skilað sé verði til góðs fyrir samfélagið í heild.[22]

Markaðshlutdeild[breyta | breyta frumkóða]

Nokia er leiðandi fyrirtæki á snjallsíma markaðnum en fyrirtæki eins og Apple og Research in Motion eru að sækja í sig veðrið.

Á árinu 2008 seldi Nokia 60.9 milljón síma og var markaðshlutdeild þeirra 43,7% sem er tvöfalt meiri en annarra keppinauta. Árið 2007 var markaðshlutdeild Nokia 49,4% en ein helsta ástæðan fyrir þessari minnkun er sú að árið 2008 setti Apple iPhone 3G á markað og jókst markaðshlutdeild Apple um meira en helming úr 2,7% í 8,2%. Nokia er skráð í kauphöllum Helsinki, Frankfurt og New York.

Verðmæti hlutabréfa hefur lækkað stöðugt frá því í desember 2007. Þó var greiddur arður fyrir rekstrarárið 2008 uppá 0.40 evrur á hlut samanborið við 0.53 evrur á hlut fyrir rekstrarárið 2007. Heildarfjöldi útistandandi hluta í árslok 2008 voru 3.800.948.552 þar sem hlutir í eigu samsteypunnar voru 103.076.651.[23]

Sölutölur og hagnaður fyrirtækisins[breyta | breyta frumkóða]

Vörusala árið 2008 nam 50,7 milljörðum evra. Þar af nam sala í Evrópu 37%, sala í Asíu 22%, Mið-Austurlöndum og Afríku 14%, Kína 12%, Suður-Ameríku 10% og Norður-Ameríku 4%. Samdráttur var á flestum markaðssvæðum frá mars 2008 til mars 2009. Mestur í Suður-Ameríku 41% og minnstur í Kína 12%. Í Norður-Ameríku jókst salan hinsvegar um 21% milli ára. Í lok árs 2008 voru starfsmenn Nokia 125.829 og sala í meira en 150 löndum. Hagnaður nam 4,996 milljörðum evra. Útgjöld ársins 2007 námu 715 milljónum evra.[24]

Hagnaður Nokia á fyrsta fjórðungi þessa árs nemur ekki nema tíunda parti hagnaðar á sama tíma í fyrra. Að frádregnum sköttum er hagnaðurinn því ekki nema 122 milljónir evra samanborið við 1,2 milljarða evra á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs. Sala féll um 27%, fór úr 12,7 milljörðum evra í 9,3 milljarða evra nú. þessar tölur eru sagðar endurspegla minnkandi eftirspurn eftir farsímum og á ársuppgjörskynningu Nokia þann 16. apríl kom fram að farsímasala hefði dregist saman um 33% milli ára. Fyrirtækinu hefur þó farnast betur en sumum samkeppnisaðilum þeirra í heimskreppunni, þótt Nokia hafi einnig þurft að bregðast við minnkandi eftirspurn. Í mars tilkynnti fyrirtækið þó að 1700 manns hefði verið sagt upp á starfsstöðum þess víða um heim.[25]

Markaðssetning[breyta | breyta frumkóða]

Alger sprenging varð á farsímamarkaðnum árin 1990-2000 sem skaut Nokia upp á stjörnuhimininn en fyrirtækið er stærsta fyrirtæki Finnlands og framleiðsla þess nemur nærri fimmtungi af heildarútflutningi landsins. Farsímar fyrirtækisins eru seldir í 130 löndum víðs vegar um heiminn og starfsmenn eru um 125.000. Fyrirtækið varð fyrir tímabundnu bakslagi árið 2004 þegar samkeppnisaðilar þeirra komu með stílhreinni síma á markað sem varð til þess að markaðshlutdeild Nokia beið hnekki. Síðan þá hefur fyrirtækið náð sér á strik og árið 2008 voru fjórir af hverjum tíu seldum farsímum frá Nokia. Sölutölur hafa þó farið sífellt lækkandi síðan 2005 í Bandaríkjunum en þar hefur markaðssetning fyrirtækisins skilað minnstum árangri. Þrátt fyrir framfarir í margmiðlun hafa þeir verið seinir að taka við sér og keppa við BlackBerry og iPhone símana.[26]

Til að viðhalda yfirburðum í samkeppni þarf sífellt að vinna að nýsköpun og árið 2008 var opnuð tíunda „Nokia Flagship Store“ stórverslunin. Þær eru nú í Helsinki, London, London Heathrow-flugvöllur, São Paulo, Chicago, New York, Mexíkóborg, Moskvu, Shanghai og Hong Kong. Í þeim er hægt að sjá og prófa að eigin raun hvernig nýjustu tækin virka og hvað nýjasta tækni býður uppá hverju sinni með leiðsögn sérþjálfaðs starfsfólks. Nokia Music er vefverslun þar sem hægt er að kaupa og niðurhala tónlist í gegnum tölvu. Enn sem komið er þjónustan til staðar í 15 löndum, þar á meðal í Finnlandi, Ástralíu, Singapúr, Ítalíu, Frakklandi, Sviss, Írlandi, Hollandi, Austurríki, Mexíkó, Spáni, Sameinuðu arabísku furstadæmunum, Svíþjóð, Þýskalandi og Bretlandi.[27]

Samkeppni og nafnabreytingar[breyta | breyta frumkóða]

Farsímar og aukahlutir frá fyrirtækinu Nokia eru meðal þeirra bestu á markaðnum en þó markaðssetning þeirra sé frumleg og veki athygli, hefur hún ekki skilað sér í nægilegri söluaukningu. Markaðssetning samkeppnisaðila þeirra svo sem Motorola og Samsung hefur skilað betri árangri og markaðshlutdeild Nokia því farið minnkandi. Þar sem sölutölur á farsímum fyrirtækisins hafa minnkað allverulega á undanförnum árum ákvað fyrirtækið að setja allt sitt púður í að markaðssetja nýju næstu kynslóðar farsímana og vonast til að með þeim geti þeir lokkað aftur til sín gamla viðskiptavini.

Fyrirtækið hefur frá upphafi nefnt farsíma sína eftir tölum sem virtist ekki koma að sök í upphafi en nú þar sem samkeppnin er orðin mun meiri og neytendum stendur til boða ógrynni mismunandi farsíma virðist það skila betri árangri að nefna þá eftirminnilegum nöfnum líkt og Motorola hefur gert. Neytendur laðast fremur að nöfnum sem gefa til kynna hvaða eiginleikum síminn er gæddur og sést greinilega á vinsældum Motorola símans RAZR sem selst eins og heitar lummur, en útlit hans þykir svipa til rakvéla. Þrátt fyrir að Nokia auglýsi meira en Motorola, hafa sölutölur þeirra farið í öfuga átt en það má að stórum hluta skrifa á nafngiftir símanna. Nöfn tolla einfaldlega mun betur í minni en töluheiti og því þarf Motorola ekki að auglýsa eins mikið. IPhone er gott dæmi um árangursríka markaðssetningu síma, en Apple komust hjá því að eyða háum fjárhæðum í auglýsingar með því að gefa símanum eftirminnilegt nafn, leka myndum og tæknilegum upplýsingum á netið áður en hann kom á markað sem varð til þess að IPhone varð einn eftirsóttasti síminn á markaðnum.

Fyrirtækið gaf út í fjölmiðlum árið 2008 að þeir ætluðu að fylgja frumkvæði Motorola og byrja að gefa farsímum sínum nöfn í stað númera, en það hafa þeir þegar gert með nýju Nseries og Eseries farsímunum. Þessi nafnabreyting ein og sér virðist hafa verið nóg til að koma Nokia aftur á kortið og því hafa þeir ákveðið að gefa næstu kynslóðar símunum einnig nöfn í stað númera.[28]

Verðlaun fyrir markaðssetningu[breyta | breyta frumkóða]

Nokia vann til fimm verðlauna árið 2008 á Mobile Marketing Awards í London, tvö þeirra voru verðlaun fyrir „Best creativity in Mobile Marketing“ og „Most innovative use of technology in Mobile Marketing“ fyrir Shoot and Score verkefnið sem þeir unnu fyrir Vodafone vegna meistaradeildar Evrópu.

Vodafone Mobile Internet, annað verkefni Nokia vann verðlaunin „Best use of mobile as part of an integrated campaign“ og fékk einnig „Grand Prix“ verðlaunin sem áhorfendur kusu um.

Að lokum fékk Nokia lof í lófa og verðlaunin „Best use of mobile in customer relationship marketing“ fyrir að vinna með bresku blaðinu Financial Times að rafrænum afsláttarmiðum.[29]

Þróunin sem leiddi til GSM símans[breyta | breyta frumkóða]

Mobira Cityman 150 frá 1989 og Nokia 1100 frá 2003.
 • 1960-1970 – Nokia framleiddi talstöðvar fyrir herinn
 • 1971 – Bílatalstöðin kom á markaðinn. Hún var svo stór að einungis var hægt að koma henni fyrir í skottinu á bílunum, en tólinu var komið fyrir nálægt bílstórasætinu
 • 1982 – Fyrsti bílasíminn var tekinn í notkun en hann vó um 9,8kg
 • 1984 – Símar sem hægt var að færa á milli staða skutust upp á sjónarsviðið. Þeir voru þó ennþá mjög stórir eða um 5kg svo þeir gátu ekki þjónað sama tilgangi og GSM síminn gerir í dag
 • 1987 – Handhægir símar komu fyrst á markaðinn og vógu einungis um 800g
 • 1992 – Fyrsti Nokia GSM síminn, Nokia 1011, leit dagsins ljós.[30]

Farsímarnir starfa í dag flestir á GSM/EDGE, 3G/WCDMA og á CDMA stöðlum en aukin áhersla er á Bluetooth, GPS og WLAN sem í framtíðinni er ætlað að sýna staðsetningu á korti af byggingum svo sem flugstöðvum og verslunarmiðstöðum.[31]

Fyrstu vísbendingar um að Nokia ætlaði að fara þá leið að einbeita sér að farsímum og símatækni var árið 1960 þegar stofnuð var lítil raftækjadeild innan fyrirtækisins. Síðan var fyrsta raftækið framleitt árið 1962. Árið 1967 var þessi raftækjadeild gerð að sér sviði og var þar byrjað að framleiða samskiptabúnað. Nokia notaði samskiptatæknina til að búa til talstöðvar og framleiða þær fyrir herinn en líka til sölu. Þetta var gert frá því á sjöunda áratugnum.[32]

Árið 1979 varð samruni milli Nokia og Salora Oy, sem var sjónvarpsframleiðandi, og var þá stofnað Mobira Oy. Mobira byrjaði að þróa síma sem auðveldlega er hægt að færa á milli staða, svokallaða fyrstu kynslóðar síma, og voru símarnir gerðir fyrir Norræna farsímakerfið (Nordisk MobilTelefoni eða NMT), sem er fyrsta alþjóðlega símakerfið og var byggt árið 1981. Árið 1982 kynnti Mobira fyrsta bílasímann, Mobira Senator, og var hann fyrir NMT-450 símakerfi. En það var ekki fyrr en árið 1984 að fyrsti vísir að GSM-símum nútímans kom á markað og var hann fyrir Norræna farsímakerfið. Var sá sími kallaður Mobira Talkman og en þar sem hann vóg rétt undir 5 kg var hann ekki mjög handhægur. Þremur árum síðar kom svo á markaðinn fyrsti handhægi síminn, var hann kallaður Mobira Cityman. Var sá sími orðinn heldur léttari en Mobira Talkman þar sem hann vóg um 800 g. Sama ár fékk Nokia mikla auglýsingu þegar Gorbachev sást nota Mobira Cityman.

Á árunum 1988–1989 varð breyting á fyrirtækinu. Forstjórinn yfir deildinni sem sá um hreyfanlegu símana sagði af sér. Í framhaldinu af því breytti fyrirtækið nafninu á Nokia-Mobira Oy í Nokia Mobile Phones. Nokia varð eitt af aðalfyrirtækjunum sem rannsakaði og þróaði GSM-síma, svokallaðir annarrar kynslóðar símar. Nokia kom sínu fyrsta GSM-kerfi til finnsks skiptiborðs, Radiolinja, árið 1989. Fyrsta GSM-símtalið fór í gegnum kerfið sem var búið að setja upp hjá Radiolinja. Var það framkvæmt 1. júlí 1991 í Helsinki af þáverandi forsætisráðherra Finna, Harri Holkeri.[33] Árið 1992 var fyrsti GSM síminn settur á markað, Nokia 1011. Númerið á módeli þessa síma er vísun í hvaða dag síminn kom út en hann kom sem sagt út 10. nóvember 1992.

Árið 1994 kom út nýtt módel af símum, var það síminn Nokia 2100 og var það fyrsti síminn til að innihalda hina frægu Nokia Tune símhringingu. Sama ár var heimsins fyrsta gervihnattasímtal gert og við það var notaður Nokia GSM sími.

Næstu árin fóru í þróun og breytingar á símunum eftir því sem tæknin jókst og varð flóknari. Til að mynda var Nokia 6110 fyrsti síminn sem innihélt leikinn Snake, sem flestir þekkja. Árið 1999 kom út fyrsti síminn sem gat tengst internetinu og var það tegundin Nokia 7110. Fyrirtækið naut mikilla vinsælda með Nokia 3310 sem leysti Nokia 3210 af hólmi árið 2000. Fyrsti 3G-síminn kom út árið 2002 og var það Nokia 6650. Þremur árum síðar kynnti Nokia næstu kynslóð af símum og var það Nokia Nseries.

Árið 1998 var stofnað nýtt vörumerki fyrir sérstaka tegund farsíma. Það vörumerki kallast Vertu. Síðastliðin 10-11 ár hafa þessar vörur verið að ná auknum vinsældum og er verið að miða aðallega við einn markaðshóp. Sá hópur er aðallega efnað fólk sem gæti litið á síma sem ákveðið stöðutákn. Um er að ræða síma sem geta verið úr gulli, með demanta á hlífinni, með hærra þjónustustig og fleira.[34]

Síðustu ár hafa verið miklar tækniþróanir á símum sem fyrir eru og einnig er verið að þróa fleiri, nýrri og tæknilegri síma. En dæmi um það sem hefur bæst við símana er xenon-flass, útbúnaður til að líkjast öðrum BlackBerry tækjum og margt fleira.

Nokia hefur líka komið inn á tölvumarkaðinn. Á níunda áratugnum var tölvudeild innan Nokia og var framleitt þar sería af PC-tölvum sem kallaðar voru MikroMikko. Fyrsta módelið í MikroMikko línunni kom út 29. september 1981, á svipuðum tíma og fyrsta IBM PC-tölvan. Þessi deild var þó seld til ICL, sem síðar varð hluti af Fujitsu. MikroMikko hélst þó sem vörumerki hjá ICL og síðar hjá Fujitsu. En alþjóðlega varð MikroMikko auglýst hjá Fujitsu sem ErgoPro.[35]

Skaðsemi farsíma[breyta | breyta frumkóða]

Margir hafa gert rannsóknir á skaðsemi farsíma á heilsu manna en þær eru misjafnar eins og þær eru margar. Hér verður fjallað um nokkrar rannsóknir og niðurstöður. Niðurstaða rannsóknar sem geislavarnir sænska ríkisins gerði árið 2002 segir að ekkert bendi til þess að farsímar séu skaðlegir. Þeir fengu tvo prófessora, dr. John D.Boice og dr.Joseph K.McLaughlin, til að fara yfir rannsóknina. Þeir voru sammála en vildu ekkert fullyrða.[36]

Bretar komust að sömu niðurstöðu og Svíar, þeir birtu skýrslu árið 2004 „The Advisory Group on Non-Ionising Radiation“ en í henni segir samt að frekari rannsókna sé þörf til að fullyrða um nokkuð.[37]

Indverski prófessorinn Naresh K. Panda gerði könnun á því árið 2007 hvort farsímar geti valdið skaða á heyrn og stöðugu eyrnasuði, Naresh fylgdist með farsímanotkun hundruð manna sem notuðu farsíma mismikið. Fólkið var svo borið saman við aðra sem aldrei notaði farsíma. Niðurstaða rannsóknarinar var að fylgni sé á milli heyrnavandræða og notkun farsíma. Verst komu þeir út sem notuðu farsíma í meira en klukkustund á dag.[38]

Ronald Herberman, forstöðumaður hinnar virtu rannsóknastofnunar háskólans í Pittsburg og Cancer Institute ráðleggur fólki að bíða ekki eftir afgerandi niðurstöðu á rannsóknum heldur minnka farsíma notkun til þess að þurfa ekki iðrast eftir á ef skaðsemi sannast.[39]

Eins og sést eru vísindamenn greinilega ekki sammála um skaðsemi farsíma. Flestir vísindamenn halda því þó fram að það sé engin skaðsemi af farsímum en geta ekki sannað það. Margar rannsóknir hafa þó sýnt einhver tengsl. Rannsóknir þarf að endurtaka oft til þess að sanna kenningu. Kenning telst sönnuð þegar sama niðurstaðan kemur í hvert skipti sem rannsóknin er framkvæmd. Þannig að þó að tengsl sjáist stöku sinnum er það ekki nóg til að að skaðsemi sé sönnuð.

Líffræðileg áhrif farsímanotkunar[breyta | breyta frumkóða]

Farsímar hafa samband við móðurstöðvar sínar með því að senda og taka á móti örbylgjum svipuðum þeim sem notaðar eru í örbylgjuofnum. Oft er talað um geislun frá farsímunum í þessu sambandi. Hafa þarf í huga að rafsegulrófið spannar vítt svið. Örbylgjugeislun hefur aðra eiginleika en svokölluð jónandi geislun sem kemur t.d. frá röntgentækjum. Jónandi geislun hefur hærri tíðni og meiri orku en ljós og þar með meiri efnafræðileg áhrif það er öfugt með örbylgjugeislun. Þar sem örbylgur eru ekki jónandi ættu þær ekki að geta valdið skemmdum á erfðaefninu DNA, stökkbreytingum eða krabbameini.[40]

Einu líffræðilegu áhrifin sem eru þekkt og almennt viðurkennd eru upphitun, svipuð því sem gerist í örbylgjuofni. Þar sem örbylgjurnar hitna við notkun farsímans er fólk áhyggjufullt um að það gæti hitað í þeim heilann og þannig valdið skaða. Svo er ekki þar farsíminn sendir frá sér orku sem er um 1 W en það nægir ekki til að hita heilann nógu mikið. Það hafa margar rannsóknir verið gerðar bæði á frumum og dýrum í mismunandi örbylgjusviði til að finna réttu staðlana. Núverandi öryggisstöðlum er ætlað að verja notendur fyrir skaðlegum áhrifum vegna upphitunar.[41]

Það er aðallega höfuðið og augun sem eru viðkvæm vegna þess að í vökvarými augnanna eru ekki æðar til kælingar. Vísindamenn eru almennt sammála um að farsímar valda ekki líffræðilegum skaða vegna upphitunar. Það er hins vegar deilt um hvort önnur líffræðileg áhrif geti verið að verki, áhrif sem birtast vegna samhljóms sameinda við geislunina frekar en upphitun. Kenningar hafa verið settar fram en þær eru umdeildar.[42]

Það er deilt um tvennt: Það hvort um vensl við örbylgjugeislunina sé að ræða og hvort skýra megi slík vensl með öðrum hætti. Rannsóknir hafa ekki sýnt fram á nein marktæk tengsl milli farsíma notkunar og heilsukvilla. Óbein áhrif koma greinilega fram, sérstaklega áhrif á öryggi í umferðinni. Margir hafa talið að handfrjáls búnaður leysa vandann. Rannsóknir benda til þess að svo sé ekki. Símtal í GSM síma krefst miklu meiri einbeitingar en venjulegt samtal. Hættan felst í því að athyglin er meira á símtalinu en umhverfinu. Þetta veldur því að þessi hópur er líklegri til þess að lenda óhappi.[43]

Umhverfisverndarstefna[breyta | breyta frumkóða]

Umhverfisverndarstefna fyrirtækisins er byggð á alþjóðlegum reglum og stöðlum. Markmið þeirra er þó að gera meira en að fylgja aðeins eftir reglum um umhverfisvernd og fara þeir mun lengra en krafist er samkvæmt lögum. Því eru umhverfismál nú samtvinnuð inn í viðskiptahætti Nokia.

 • Umsjón með efnum. Fyrirtækið hefur bæði eftirlit og náið samband við birgja sína. Gerðar eru kröfur um fullkomnar upplýsingaflæði um efnin sem notuð eru í símbúnaðinn. Sú vinna byggist á meginreglu þeirra um að gæta ætíð fyllstu varúðar og vinna stöðugt í að lágmarka magn þeirra efna sem valda áhyggjum. Auk þess er sífellt verið að skoða möguleikana á að nota umhverfisvænni efni, svo sem bæði lífrænt og endurunnið plast og endurunna málma.
 • Orkunýting. Þess er gætt að búnaður frá fyrirtækinu noti eins litla orku og mögulegt er. Einnig er unnið að því að minnka orkuneyslu frá starfsseminni og stefnt að hagkvæmri orkunýtingu með helstu birgjum.
 • Taka við aftur og endurvinna. Nokia vill auka vægi endurvinnslu meðal neytenda sinna og býður því upp á þjónustu sem einfaldar neytendum endurvinnslu á gömlum símbúnaði.[44]

Söfnunarbaukar[breyta | breyta frumkóða]

Nokia símar eru hannaðir með langan endingartíma í huga, en fólk skiptir þó símum sínum út fyrir nýrri, þrátt fyrir að þeir eldri séu ekki ónýtir. Kannanir hafa leitt í ljós að um 44% gamalla síma liggi ónotaðir í skúffum hjá fólki og aðeins 3% fólks fari með gömlu símana sína í endurvinnslu. Nokia hvetur fólk til að endurvinna gamla síma því ef hver Nokia notandi setti einn ónotaðan síma í endurvinnslu gætu 80.000 tonn af hráefnum sparast, þar sem mikill meirihluta efna í símum er hægt að nota til að framleiða nýjar vörur eða virkja orku.

Nokia gerir sitt besta til að auðvelda fólki að endurvinna símtæki sem ekki eru lengur í notkun. Til að endurvinna símann, rafhlöður eða hleðslutæki þarf því aðeins að skila því í einhverja af endurvinnslustöðvum Nokia og starfsmenn sjá um afganginn. Hátt í 5000 stöðvar eru í 85 löndum víðsvegar um heiminn þar sem Nokia tekur á móti gömlum farsímum og fylgihlutum. Auk þess er hægt að skila gömlum tækjum í verslanir sem selja Nokia síma. Í sumum löndum, svo sem Bretlandi og Bandaríkjunum, er hægt að skila símtækjum með því að skrá sig á netinu og prenta út fyrirframgreiddan póstmiða sem Nokia borgar fyrir og neytandinn getur því sent símtækið, sér að kostnaðarlausu í endurvinnslu.[45]

Orkusparnaður[breyta | breyta frumkóða]

Símafjarskipti eru ekki orkufrekur iðnaður og nota innan við 1% af koltvísýringi heimsins. Þrátt fyrir þetta er það markmið fyrirtækisins að nota orku á eins hagkvæman hátt og mögulegt er. Nokia hefur því komið fram með leiðir fyrir notendur sína til að stilla síma sína þannig að þeir spari orku og þurfi því að hlaða símann sem sjaldnast og þar af leiðandi leggi sitt af mörkum við orkusparnað.[46]

Nokia símar koma með skilvirkum hleðslutækjum og Li-ion rafhlöðum. Rafhlöður eru orkugeymsla en ekki orkuuppspretta og því hleður hleðslutækið rafhlöðuna frá rafmagnsveitu sem getur verið allt frá vindmyllum til kjarnorkuverksmiðju.

Nokia er af mörgum ástæðum í sífelldri rannsóknarvinnu við að finna nýjar orkuuppsprettur. Venjulegar orkuuppsprettur eins og olía eru orðnar af skornum skammti og að finna nýjar uppsprettur með lægri kolefnalosun gæti dregið úr loftlagsbreytingum. Nýjar uppsprettur eru því mikilvægar fyrir landssvæði sem hafa einfaldlega ekki rafmagnsveitur.[47]

Notkun málma[breyta | breyta frumkóða]

Hönnuðir Nokia símanna leggja mikla áherslu á efnin sem símarnir eru framleiddir úr. Áhersla er lögð á að nýir símar verði eins umhverfisvænir og mögulegt er með því að hugsa um hvernig lífsferill símans er, að efnin sem notuð eru í hann geti verið endurnýtt á öruggan hátt þegar ekki eru lengur not fyrir símann. Vegna þessarar hönnunarvinnu er nú hægt að endurvinna 65-80% efna í þeim.

Endurvinnsla[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirtækið er leiðandi á farsímamarkaði og stjórnendur þess telja mikilvægt að vera leiðandi fyrirtæki þegar kemur að umhverfisstefnu. Þar er áhersla lögð á hugsun byggða á lífsferli, þar sem reynt er að lágmarka áhrif varanna á umhverfið. Byrjað er á uppruna hráefnanna og endað með endurvinnslu, meðhöndlun úrgangs og endurnýtingu notaðra efna. Þessu markmiði er náð með betri vöruhönnun, nánu eftirliti með vöruvinnslu og betri endurnýtingu á efnum, sem og endurvinnslu.

Fyrirtækið hefur staðið fyrir herferðum víða um heiminn til að virkja fólk til endurvinnslu á farsímum og hefur með því tekist að endurvinna um 55 tonn af efnum úr ónotuðum raftækjum í Kína og árið 2006 var þar komið á fót um 500 söfnunarstöðum þar sem tekið er á móti símum og fær fólk greitt í formi símainneignar fyrir vikið. Með þessari söfnun var tekið á móti 80 tonnum af úrgangi.

Í Finnlandi dreifði Nokia 200.000 miðum þar sem boðið var 2 framlag til WWF gegn hverjum síma sem skilað væri inn. 25.000 símtækjum var skilað inn í þessari herferð.

Fyrirtækið nýtti sér alþjóðlegan endurvinnsludag í Norður-Ameríku, þann 15. nóvember 2007 og safnaði 16 tonnum af raftækjum til endurvinnslu, þar af 7000 símum. Í Evrópu söfnuðu þeir 17.000 tonnum af raftækjaúrgangi.

Einnig tók fyrirtækið þátt í að safna ónotuðum símum á Filippseyjum, Chile, Perú og Malasíu ásamt símafyrirtækjum og ríkjum þessara landa, til dæmis með því að bjóða upp á afsláttarmiða fyrir nýjum og betri rafhlöðum gegn því að skila inn gömlum símtækjum. Að auki hefur Nokia stuðlað að endurnýtingu raftækjaúrgangs sem kemur frá starfssemi þeirra, sem og starfsmönnum þeirra.[48]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. http://www.nokia.com/NOKIA_COM_1/About_Nokia/Sidebars_new_concept/Nokia_in_brief/InBriefJuly08.pdf
 2. http://www.nokia.com/about-nokia/company/story-of-nokia/nokias-first-century
 3. http://www.nokianfootwear.fi/eng/our_story/
 4. http://www.nokia.com/about-nokia/company/story-of-nokia/nokias-first-century
 5. http://en.wikipedia.org/wiki/Nokia
 6. http://www.nokia.com/NOKIA_COM_1/About_Nokia/Financials/form20-f_08.pdf
 7. http://www.nokia.com/NOKIA_COM_1/About_Nokia/Financials/form20-f_08.pdf
 8. http://www.navteq.com/about/findus.html
 9. http://www.nokia.com/NOKIA_COM_1/About_Nokia/Financials/form20-f_08.pdf
 10. http://www.nokia.com/about-nokia/company/story-of-nokia/nokia-now
 11. http://www.nokia.com/about-nokia/company
 12. http://archive.salon.com/tech/fsp/2000/04/20/chapter_six_part_1/index3.html
 13. http://www.nokia.com/corporate-responsibility/employees/how-we-do-it
 14. http://www.bhagooa.com/cw/recruitment.html
 15. http://investors.nokia.com/phoenix.zhtml?c=107224&p=irol-newquarterlyearnings
 16. http://investors.nokia.com/phoenix.zhtml?c=107224&p=irol-newquarterlyearnings
 17. http://www.nokiausa.com/A41427091
 18. http://www.allbusiness.com/management/3589653-1.html
 19. http://www.naukri.com/gpw/nokia/oct08/
 20. http://www.mobigear.net/nokia-corporate-culture.aspx
 21. http://research.nokia.com/openinnovation
 22. http://www.nokia.com/A4136001?newsid=1230416
 23. http://investors.nokia.com/phoenix.zhtml?c=107224&p=irol-newquarterlyearnings
 24. http://investors.nokia.com/phoenix.zhtml?c=107224&p=irol-newquarterlyearnings
 25. "Hagnaður Nokia hrynur", grein í Fréttablaðinu 17.4.´09
 26. http://www.adbrands.net/fi/nokia_fi.htm
 27. http://www.nokia.com/NOKIA_COM_1/About_Nokia/Financials/form20-f_08.pdf
 28. http://www.merinews.com/catFull.jsp?articleID=124478
 29. http://www.advertising.nokia.com/news/press-releases/nokia-sweeps-the-board-at-mobile-marketing-awards
 30. http://en.wikipedia.org/wiki/Nokia
 31. http://www.nokia.com/technology/upcoming-innovations
 32. http://www.nokia.com/about-nokia/company/story-of-nokia/nokias-first-century
 33. http://www.nokia.com/about-nokia/company/story-of-nokia/the-move-to-mobile
 34. http://www.nokia.com/about-nokia/company/story-of-nokia/mobile-revolution
 35. http://www.nokia.com/about-nokia/company/story-of-nokia/mobile-revolution
 36. http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2002/09/24/engin_sonnun_fyrir_skadsemi_farsima
 37. http://www.vb.is/frett/4/1415/
 38. http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2007/09/19/farsiminn_slaemur_fyrir_heyrn/
 39. http://www.mbl.is/mm/frettir/taekni/2008/07/24/varad_vid_mikilli_farsimanotkun/
 40. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20061114205155/www.gr.is/fraedsluefni/sol/nr/31
 41. http://www.why.is/svar.asp?id=493
 42. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20061114205155/www.gr.is/fraedsluefni/sol/nr/31
 43. http://wayback.vefsafn.is/wayback/20061114205155/www.gr.is/fraedsluefni/sol/nr/31
 44. http://www.nokia.com/environment/our-responsibility/environmental-strategy
 45. http://www.nokia.com/environment/we-recycle
 46. http://www.nokia.com/environment/we-energise/nokia-and-energy-efficiency
 47. http://www.nokia.com/environment/we-energise/new-energy-sources
 48. http://www.nokia.com/environment/our-responsibility/environmental-reporting/products-and-services/take-back-and-recycling