Beyoncé

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Beyoncé Knowles)
Beyoncé
Beyoncé árið 2023
Fædd
Beyonce Giselle Knowles

4. september 1981 (1981-09-04) (42 ára)
Önnur nöfn
  • Harmonies by The Hive
  • Queen B
  • Third Ward Trill
Störf
  • Söngvari
  • lagahöfundur
  • dansari
  • leikari
  • framleiðandi
  • athafnakona
  • leikstjóri
Ár virk1997–í dag
MakiJay-Z (g. 2008)
Börn3
Tónlistarferill
Stefnur
HljóðfæriRödd
Útgefandi
Meðlimur íThe Carters
Áður meðlimur íDestiny's Child
Vefsíðabeyonce.com
Undirskrift

Beyoncé Giselle Knowles-Carter (f. 4. september 1981), betur þekkt sem Beyoncé (borið fram: Bíjonsei) er bandarísk söngkona, lagahöfundur og leikkona. Hún er fædd og uppalin í Houston, Texas og gekk í marga listaskóla og keppti í mörgum söng- og danskeppnum sem barn, en varð fræg á seinni hluta 10. áratugarins sem forsprakki hljómsveitarinnar Destiny's Child. Faðir hennar, Mathew Knowles, var umboðsmaður hljómsveitarinnar sem varð ein vinsælasta stúlknasveit allra tíma. Hlé á störfum sveitarinnar gaf af sér fyrstu plötu Knowles, Dangerously in Love (2003) sem færði henni miklar vinsældir; seldist í 11 milljónum eintaka, hlaut fimm Grammy verðlaun og gaf af sér smellina „Crazy in Love“ og „Baby Boy“.

Í kjölfar upplausnar Destiny's Child árið 2005 gaf hún út aðra sólóplötuna sína, B'Day (2006) sem innihélt smellina „Irreplaceable“ og „Beatiful Liar“. Knowles hélt einnig út í leiklistina og hlaut tilnefningu til Golden Globe verðlaunanna fyrir hlutverk sitt í Dreamgirls (2006), ásamt því að leika í kvikmyndunum The Pink Panther (2006) og Obsessed (2009). Hjónaband hennar og Jay-Z og hlutverk hennar sem Etta James í Cadillac Records (2008) varð henni innblástur fyrir þriðju plötuna, I Am... Sasha Fierce (2008) þar sem annað sjálf hennar, Sasha Fierce, birtist. Platan veitti henni sex Grammy verðlaun árið 2010, þ.á m. fyrir lag ársins („Single Ladies (Put a Ring on It)“). Knowles tók sér hlé frá tónlistinni árið 2010 og tók við stjórnun ferils síns og kannaði R&B tónlist 8. áratugarins, rokk, afríska tónlist og funk. Í kjölfarið var stefna fjórðu plötu hennar, 4 (2011), tilraunakenndari, og tónlist fimmtu plötu hennar, Beyoncé (2013) flokkast sem raf-R&B tónlist.

Knowles hefur sjálf lýst sér sem „nútíma-femínista“, og fjalla lög hennar oft um ástina, sambönd og einkvæni, sem og kynferði konunnar og mátt hennar. Á sviði hefur hún sterka nærveru og vel útfærða dansa, enda hafa gagnrýnendur útnefnt hana eina bestu manneskjuna í skemmtanaiðnaðinum. Á ferli sínum hefur hún unnið 32 Grammy verðlaun, selt yfir 200 milljónir platna um allan heim ásamt því að hafa selt 60 milljónir platna með Destiny's Child. Árið 2013 var hún á lista tímaritsins Time yfir 100 áhrifamesta fólk heimsins.[1]

Æska[breyta | breyta frumkóða]

Knowles fæddist í Houston, Texas og er dóttir hjónanna Mathew Knowles, umboðsmanns og Tinu Knowles (áður Beyonce), hárgreiðslukonu. Faðir hennar er af afrískum uppruna og er móðir hennar af kreólskum uppruna (blanda af afrískum-, indijána- og frönskum ættum). Beyoncé var skírð eftir fjölskyldunafni móður sinnar. Hún er eldri systir Solange Knowles sem er einnig leik- og söngkona.

Knowles gekk í St. Mary's grunnskólann í Texas, þar sem hún skráði sig í danstíma, m.a. ballet og djass. Sönghæfileikar hennar uppgötvuðust þegar danskennarinn hennar byrjaði að raula lag og hún kláraði það og náði hæstu nótunum. Áhugi Knowles á tónlist og framkomu byrjaði eftir að hún tók þátt í hæfileikakeppni skólans. Hún söng lag John Lennons, „Imagine“, og vann keppnina. Sjö ára byrjaði Knowles að fá athygli frá blaðamönnum, eftir að hafa verið tilnefnd til Sammy-verðlaunanna sem voru veitt listamanni á svæðinu. Haustið 1990 var Knowles skráð í Parker grunnskólann í Houston, en skólinn lagði mikið upp úr tónlist, þar sem hún átti eftir að syngja á sviði með skólakórnum. Hún gekk síðan í Framkomu- og listamenntaskóla í Houston og síðar í Alief Elsik menntaskólann, sem er staðsettur í úthverfi Houston, Alief. Knowles var einsöngvari í kirkjukórnum sínum, í St. John's United Methodist kirkjunni. Hún var aðeins í tvö ár í kórnum.

Átta ára hitti Knowles LaTaviu Robertson þegar þær voru í áheyrnarprufum fyrir stelpuskemmtihóp. Þær, ásamt vinkonu Knowles, Kelly Rowland, voru settar í hóp sem rappaði og dansaði. Í fyrstu hét hópurinn Girl's Tyme og seinna var hópurinn minnkaður niður í sex meðlimi. R&B framleiðandinn Arne Frager flaug til Houston til að sjá þær. Hann fór að lokum með þær í stúdíóið sitt í N-Kaliforníu þar sem sönghæfileikar Knowles fengu að njóta sín. Hluti af áætlun til að fá Girl's Tyme á samning hjá stóru fyrirtæki var að skrá þær í Star Search sem var stærsta hæfileikakeppnin í sjónvarpi á þessum tíma. Girl's Tyme tók þátt í keppninni en tapaði vegna þess að lagið sem þær sungu var ekki gott, eins og Knowles játaði sjálf. Knowles varð fyrir fyrsta „faglega áfallinu" eftir ósigurinn en hún náði aftur upp sjálfstraustinu þegar hún komst að því að poppstjörnur eins og Britney Spears og Justin Timberlake höfðu einnig orðið fyrir sömu reynslu. Árið 1995 sagði faðir Knowles (sem seldi lyf á þeim tíma) upp vinnunni til að sjá um hópinn. Hann helgaði líf sitt hópnum og setti þær í „herþjálfun“. Breytingin minnkaði innkomu fjölskyldunnar um helming og neyddust foreldrar hennar til að flytja í sitthvora íbúðina. Ekki löngu eftir Rowland var sett inn í hópinn, minnkaði Mathew hópinn úr sex stúlkum í fjórar og gekk LeTayoa Luckett til liðs við hópinn árið 1993. Hópurinn æfði sig á hárgreiðslustofu Tinu og í bakgörðunum heima hjá sér og hélt áfram að koma fram sem upphitunaratriði fyrir fræga R&B sönghópa á þeim tíma; Tina lagði til búninga, sem hún gerði í gegnum allt Destiny's Child tímabilið. Með stuðningi frá Mathew fóru þær í prufur hjá stórum plötuútgáfufyrirtækjum og fengu loks samning hjá Elektra-plötuútgáfunni. Þær fluttu til Atlanta til að vinna að fyrstu upptökunni en fyrirtækið rifti samningum við þær árið 1995. Þær þurftu því að snúa heim og byrja upp á nýtt. Þetta setti mikla pressu á fjölskylduna og tóku foreldrar Beyoncé sér hlé frá hjónabandinu þegar hún var 14 ára. Árið 1996 sameinaðist fjölskyldan aftur og til að fullkomna árið fengu stelpurnar einnig samning við Columbia plötuútgáfuna.

Ferill[breyta | breyta frumkóða]

1997–2001: Destiny's Child[breyta | breyta frumkóða]

Hópurinn breytti nafninu í Destiny's Child árið 1993, byggt á sálmi úr bók Jesaja. Þær sungu saman á opinberum viðburðum og eftir fjögur ár fékk hópurinn loks plötusamning við Columbia Records seinni hluta árs 1997. Þetta sama ár tók Destiny's Child upp fyrsta alvöru lagið sitt, „Killing Time“, fyrir kvikmyndina Men in Black (1997). Árið eftir gáfu þær út fyrstu plötuna sína sem var nefnd eftir hljómsveitinni og varð fyrsti smellurinn þeirra „No, No, No“. Platan gaf hljómsveitinni þrjú Soul Train Lady of Soul-verðlaun. Önnur plata hljómsveitarinnar, The Writing's on the Wall kom út árið 1999 og fór hún margoft í platínusölu. Platan inniheldur marga af helstu smellum hljómsveitarinnar í gegnum tíðina eins og „Bills, Bills, Bills“, fyrstu smáskífu þeirra í efsta sæti, „Jumpin' Jumpin'“ og „Say My Name“ sem urðu vinsælustu lögin á þessum tíma og eru enn þá einkennislög þeirra. „Say My Name“ vann tvenn Grammy-verðlaun árið 2001. The Writings on the Wall seldist í meira en átta milljónum eintaka. Á þessum tíma tók Knowles upp dúett með Marc Nelson í laginu „After All Is Said and Done“ fyrir kvikmyndina The Best Man frá árinu 1999.

Luckett og Roberson stefndu hljómsveitinni fyrir brot á samningi. Michelle Williams og Farrah Franklin léku í tónlistarmyndbandi lagsins „Say My Name“ sem gaf til kynna að staðgenglar væru strax komnir fyrir Luckett og Roberson. Að lokum hættu Luckett og Roberson í hljómsveitinni. Franklin dróst smám saman úr hópnum næstu fimm mánuðina en það sást helst á fjarveru hennar á kynningum og tónleikum. Hún sagði ákvörðun sína byggjast á neikvæðu andrúmslofti innan hópsins eftir deilurnar. Á þessum tíma barðist Knowles við þunglyndi vegna uppsafnaðra erfiðleika: deilurnar við Luckett of Roberson, opinber árás af fjölmiðlum, gagnrýnendum og bloggurum vegna deilnanna, og kærastinn hennar til sjö ára hafði sagt henni upp. Þunglyndið var svo alvarlegt að það varði í nokkur ár og á meðan hélt hún sig inni í herberginu sínum dögum saman og neitaði að borða. Knowles sagði að hún hefði átt erfitt með að tala um þunglyndið vegna þess að Destiny's Child hafði nýlega unnið fyrstu Grammy-verðlaunin sín og óttaðist að enginn myndi taka hana alvarlega. Allir þessir atburðir urðu til þess að hún efaðist um sjálfa sig og hverjir vinir hennar voru og hún lýsti aðstæðunum og sagði, „Nú þegar ég var fræg, var ég hrædd um að ég myndi aldrei finna neinn aftur sem myndi elska mig fyrir mig. Ég var hrædd við að eignast nýja vini.“ Hún þakkar móður sinni, Tinu Knowles, fyrir að hjálpa henni út úr þunglyndinu, „Af hverju heldur þú að enginn myndi elska þig? Veistu ekki hve klár og góð og falleg þú ert?“

Eftir að hafa ákveðið lokauppröðun hópsins, tók tríóið upp „Independent Women Part I“ sem síðan hljómaði í kvikmyndinnni Charlie's Angels árið 2000. Lagið varð vinsælasta lag þeirra og sat í efsta sæti Billboard listans í ellefu samfelldar vikur. Seinna þetta ár drógu Luckett og Roberson málsókn sína gegn fyrrum hljómsveitarfélögum sínum til baka, en héldu sig þó við málsóknina gegn Mathew, sem endaði með því að báðir aðilar sættust. Fyrri hluta árs 2001, á meðan Destiny's Child var að ljúka við þriðju plötu sína, landaði Knowles stóru hlutverki í MTV-sjónvarpskvikmyndinni Carmen: A Hip Hopera þar sem hún lék á móti Mekhi Phifer. Myndin gerist í Fíladelfíu og er nútíma túlkun á 19. aldar óperuverkinu Carmen eftir franska útsetjarann Georges Bizet. Luckett og Roberson stefndu hljómsveitinni aftur eftir að þriðja plata sveitarinnar, Survivor, kom út í maí 2001 og sögðu þær að lögunum væri beint að þeim. Platan fór strax á topp bandaríska plötulistans og seldist í 663 þúsund eintökum fyrstu vikuna. Í dag hefur platan selst í yfir tíu milljónum eintaka um allan heim og seldust fjórar milljónir í Bandaríkjunum einum. Platan gaf af sér smellina „Bootylicious“ og „Survivor“ og vann það síðarnefnda Grammy-verðlaun fyrir „bestu R&B raddframmistöðu dúetts eða hóps“. Eftir að hafa gefið út jólaplötu, 8 Days of Christmas tilkynnti hópurinn hlé til að meðlimir sveitarinnar gætu látið reyna á sólóferil.

2002–2007: Dangerously in Love, B'Day og Dreamgirls[breyta | breyta frumkóða]

Í júlí 2002 hélt Knowles leikferlinum áfram með hlutverki Foxxy Cleopötru í gamanymdinni Austin Powers in Goldmember með Mike Myers í aðalhlutverki. Knowels gaf út lagið „Work It Out“ sem aðalsmáskífu plötu sem innihélt lög úr miyndinni. Árið 2003 lék Knowles á móti Cuba Gooding Jr. í tónlistargamanmyndinni The Fighting Temptations, þar sem hún lék Lilly, einstæða móður sem persóna Gooding fellur fyrir. Myndin hlaut misjafna dóma en varð vinsæl. Í kjölfar útgáfu myndarinnar gaf Knowles út lagið „Fighting Temptation“ sem aðalsmáskífu plötu með lögum yndarinnar. Í tengslum við myndina gaf hún einnig út lögin „Fever“ og „Summertime“

Fyrsta sóló-upptaka Knowels var í lagi Jay-Z, „'03 Bonnie & Clyde“, sem kom út í október 2002 og náði 4. sæti á bandaríska vinsældarlistanum. Fyrsta sólóplatan hennar, Dangerously in Love kom út 24. júní 2003 eftir að Michelle Williams og Kelly Rowland höfðu gefið út sínar sólóplötur. Platan seldist í 317.000 eintökum fyrstu vikuna og náði toppi bandaríska plötulistans. Árið 2012 var platan enn söluhæsta plata söngkonunnar, en hún hefur selst í 11 milljónum eintaka um allan heim. Knowles var fyrsti tónlistarmaðurinn í 20 ár og fyrsta söngkonan í sögunni til að hafa bæði fyrstu smáskífu og plötu sína á toppi breska og bandarísku listans á sama tíma. Aðalsmáskífa plötunnar, „Crazy in Love“ (ásamt Jay-Z), var fyrsta smáskífa hennar til að ná toppi bandaríska vinsældalistans. Smáskífan „Baby Boy“ náði einnig fyrsta sætinu, og smáskífurnar „Me, Myself and I“ og „Naughty Girl“ náðu efstu fimm sætunum. Platan hlaut fimm Grammy Verðlaun.

Beyonce flytur lagið „Listen” í München

Í nóvember 2003 fór hún í Dangerously in Love tónleikaferð um Evrópu og ferðaðist seinna með Missy Elliott og Aliciu Keys um Bandaríkin. 1. febrúar 2004 söng Knowles þjóðsönginn á Super Bowl í Houston, Texas. Eftir útgáfu Dangerously in Love ætlaði Knowles sér að gefa út plötu með nokkrum af þeim lögum sem ekki komust á fyrstu plötuna. Þessum áformum var hins vegar slegið á frest svo hún gæti einbeitt sér að upptöku Destiny Fulfilled, síðustu plötu Destiny's Child. Platan kom út 15. nóvember 2004 og náði 2. sæti bandaríska plötulistans. Hún innihélt m.a. „Lose My Breath” og „Soldier”. Í kjölfar útgáfu plötunnar fór Destiny's Child í útgáfuferðalagið Destiny Fulfilled... and Lovin' It og á síðustu tónleikunum í Evrópu, í Barcelona þann 11. júní 2005 tilkynnti Rowland að hljómsveitin væri hætt við alla þá tónleika sem átti að halda í Bandaríkjunum. Hljómsveitin gaf út fyrstu safnplötuna sína, #1's 25. október 2005 og fékk stjörnu á frægðargötu Hollywood í mars 2006.

Önnur plata Beyoncé, B'Day, kom út 5. september 2006, daginn eftir 25 ára afmæli söngkonunnar. Platan seldist í 540.000 eintökum fyrstu vikuna og náði toppi bandaríska plötulistans. Aðalsmáskífa plötunnar var „Déjà Vu” (ásamt Jay-Z). Önnur smáskífa plötunnar var „Irreplaceable” sem náði miklum vinsældum. B'Day gaf einnig af sér þrjár aðrar smáskífur; „Ring the Alarm”, „Get Me Bodied” og „Green Light” (aðeins gefin út í Bretlandi).

Fyrsta leiklistarhlutverk Knowles árið 2006 var í gamanmyndinni The Pink Panther þar sem hún lék á móti Steve Martin. Önnur kvikmynd ársins var Dreamgirls, kvikmyndaútgáfa Broadway söngleiks frá árinu 1981 sem er lauslega byggður á sögu The Supremes, og hlaut Knowles mikið lof gagnrýnenda. Jennifer Hudson, Jamie Foxx og Eddie Murphy léku einnig í myndinni og fór Knowles með hlutverk persónu sem var byggð á Diönu Ross. Til að kynna myndina gaf Beyoncé út smáskífuna „Listen”. Í apríl 2007 lagði Knowles af stað í The Beyoncé Experience tónleikaferðalagið, sem innihélt 97 tónleika. Á sama tíma var B'Day endurútgefin með fimm nýjum lögum, þ.á.m. dúett með Shakiru, „Beautiful Liar”.

2008–2009: Hjónaband, I Am... Sasha Fierce og kvikmyndir[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2002 byrjaði Knowles með bandaríska rapparanum Jay-Z sem hún hefur nokkrum sinnum unnið með. Orðrómur var uppi um samband þeirra eftir að Knowles söng í lagi hans „'03 Bonnie & Clyde“. Þrátt fyrir stöðugan orðróm héldu þau sambandi sínu leyndu. Þann 4. apríl 2008 giftu þau sig í New York-borg. Knowles setti giftingarhringinn ekki opinberlega upp fyrr en á Fashion Rocks tónleikum þann 5. september 2008 í New York. Áður en þau giftust voru Knowles og Jay-Z útnefnd áhrifamesta parið af TIME tímaritinu árið 2006. Í janúar 2009 voru þau útnefnd tekjuhæsta parið í Hollywood en innkoma þeirra var samtals 162 milljónir Bandaríkjadala. Þau komust einnig á topp listans árið eftir þegar þau höfðu samtals þénað 122 milljónir dala á tímabilinu frá júní 2008 til júní 2009.

Í nóvember 2008 tilkynnti Forbes tímaritið að Knowles hafði þénað 80 milljónir milli 1. júní 2007 og 1. júní 2008 fyrir tónlist sína, tónleikaferðalag, kvikmyndir og fatafyrirtæki. Þetta gerði hana að öðrum tekjuhæsta tónlistarmanni allra tíma. Knowles gaf út þriðju plötuna sína, I Am... Sasha Fierce þann 14. nóvember 2008. Platan kynnir „breytt-sjálf“ Knowles, „Söshu Fierce“. Platan náði strax toppi bandaríska plötulistans (Billboard 200) og seldist í 482.000 eintökum fyrstu vikuna og er þriðja plata hennar í röð sem fer strax á topp listans. Síðan varð Knowles þriðji tónlistarmaður 10. áratugarins til að eiga þrjár plötur sem fara strax á topp bandaríska listans. Platan seldist í 2,9 milljónum eintaka í Bandaríkjunum og hefur tvisvar sinnum farið í platínu sölu. Í dag hefur platan selst í yfir 7 milljónum eintaka um allan heim. „If I Were a Boy“ og „Single Ladies (Put a Ring on It)“ voru aðalsmáskífur plötunnar. Fyrsta smáksífan náði þriðja sæti á Billboard Hot 100 listanum en sú síðarnefnda náði efsta sætinu og er fimmta smáskífa Knowles sem nær efsta sætinu. „Single Ladies“ eyddi samtals fjórum vikum á toppi listans. Tónlistarmyndband lagsins hefur fengið mikla athygli fyrir flókin dansspor og fékk myndbandið níu tilnefningar til MTV myndbandaverðlaunanna 2009 og vann verðlaun fyrir Myndband ársins og auk þess tvö önnur verðlaun, þrátt fyrir að hafa tapað fyrir myndbandi Taylor Swift við lagið „You Belong With Me“ sem skapaði deilur á verðlaunahátíðinni.

Í desember 2008 lék Knowles blússöngkonuna Ettu James í tónlistar-heimildarmyndinni Cadillac Records. Hún söng klassísk lög með James, þ.á.m. „At Last“ fyrir forsetahjónin Barack og Michelle Obama þegar þau dönsuðu sinn fyrsta dans sem forsetahjón þann 20. janúar 2009. „Diva“ var gefin út sem þriðja smáskífa I Am... Sasha Fierce en „Halo“ var þriðja smáskífan utan Bandaríkjanna og síðar fjórða smáskífa plötunnar í Bandaríkjunum. Lagið náði fimmta sæti á Billboard listanum. Þetta olli því að Knowles hafði átt fleiri lög á Topp 10 á Hot 100 listanum en nokkur önnur söngkona 10. áratugarins. „Ego“ var fimmta smáskífa plötunnar og náði lagið 31. sæti á Billboard Hot 100 listanum. Lögin „Broken-Hearted Girl“ og „Sweet Dreams“ voru smáskífur númer sex og sjö. Til að kynna plötuna hélt Knowles af stað í tónleikaferðina I Am... í mars 2009. Samkvæmt Polstar þénaði Knowles 103,2 milljónir dala fyrir 97 tónleika. Í apríl 2009 lék Knowles á móti Ali Larter og Idris Elba í hryllingsmyndinni Obsessed. Kvikmyndin halaði inn 11,1 milljón dala fyrsta sýningardaginn og hafði í vikulok halað inn meira en 28 milljónum dala. Í júní 2009 setti Forbes tímaritið Knowles í fjórða sæti á lista yfir „100 áhrifamestu stjörnurnar í heiminum“ og í þriðja sæti á lista sínum yfir „Tekjuhæstu tónlistarmennina“ og auk þess efsta á lista yfir „Best launuðu stjörnurnar undir 30“ eftir að hafa þénað meira en 87 milljónir Bandaríkjadala á árunum 2008 og 2009. „Video Phone“ kom út sem áttunda smáskífa I Am... Sasha Fierce og var lagið endurútgefið þar sem söngkonan Lady Gaga söng einnig með Knowles í laginu. Myndband lagsins var tilnefnt til tveggja BET verðlauna fyrir „Myndband ársins“ og „Besta samstarf“ og vann myndbandið fyrrnefndu verðlaunin þann 27. apríl 2010. Myndbandið fékk einnig fimm tilnefningar til MTV myndbandaverðlaunanna fyrir „Besta danssmíði“, „Besta samstarf“, „Besta popp myndbandið“, „Besta myndband söngkonu“ og „Besta listræna stjórnun“.

Knowles fékk 10 tilnefningar til 52. Grammy verðlaunanna, m.a. „Plata ársins“ fyrir I Am... Sasha Fierce, „Skífa ársins“ fyrir „Halo“ og „Lag ársins“ fyrir „Single Ladies (Put a Ring on It)“. Knowles náði meti Lauren Hill sem var sú söngkona sem hafði fengið flestar Grammy-tilnefningar á einu ári en Knowles setti síðan met, en hún vann flest Grammy verðlaun á einu kvöldi sem söngkona hefur unnið, þegar hún vann sex veðlaun; Lag ársins, Besta R&B lagið og Besta frammistaða R&B söngkonu fyrir „Single Ladies“, Besta frammistaða Poppsöngkonu fyrir „Halo“, Besta nútíma R&B platan og Besta hefðbundna R&B frammistaðan fyrir „At Last“

Síðan 2010: Nýtt umboð og 4[breyta | breyta frumkóða]

Í janúar 2010 sagði Knowles í viðtali við USA Today að hún ætlaði að taka sér frí frá tónlistinni árið 2010. Hún sagði: „Það er klárlega kominn tími fyrir hlé, til að hlaða batteríin. ...Ég væri alveg til í að taka u.þ.b. sex mánuði og ekki fara í hljóðver. Ég þarf bara að lifa lífinu, til að fá innblástur aftur.“ Á þessum tíma var sýnd umfjöllum um Knowles í 60 mínútum þar sem kom fram að Knowles hafi verið kennt heima þegar hún var barn og hún fer með bænir fyrir hverja tónleika. Í febrúar 2010 kom út lagið „Telephone“ með söngkonunni Lady Gaga en Knowles söng einnig í laginu. „Telephone“ fékk Grammy tilnefningu fyrir Besta Popp Samstarf Söngvara á 53. Grammy verðlaununum.

Í júní 2010 setti Forbes tímaritið Knowles í þriðja sæti á lista yfir „Launahæstu tónlistarmennina“ með yfir 87 milljónir í tekjur fyrir tónleikaferð, samninga við Nintendo og L'Oréal og House of Deréon fatalínuna. Í október 2010 sagði Forbes Knowles vera „Öflugustu konu í heiminum“. Hún lenti einnig í níunda sæti yfir „Þá 20 Tekjuhæstu í Hollywood 2010“ og var hún eini tónlistarmaðurinn sem náði á topp tíu listann.

Í janúar 2011 varð ljóst að Knowles myndi birtast í endurgerð af A Star is Born sem væri leikstýrt og framleidd af Clint Eastwood fyrir Warner Bros.. Endurgerðin var fjórða sagan af A Star Is Born og er sú nýjasta kvikmynd frá árinu 1976 með Barbra Streisand og Kris Kristofferson. Verkefnið var sett á pásu vegna meðgöngu Beyoncé. Í febrúar 2011 greindi vefsíðan WikiLeaks frá því að Knowles ásamt Usher, Mariah Carey og Nelly Furtado hefðu fengið 1 milljón dala fyrir að syngja fyrir fjölskyldumeðlimi Muammars Gaddafi. Tímaritið Rolling Stone sagði að tónlistarbransinn reyndi að fá þau til að skila þeim peningum sem þau höfðu fengið fyrir tónleikana. Þann 2. mars 2011 sagði talsmaður Knowles að hún hefði gefið peningana til Haítí sjóðs Clinton Bush, sem var stofnaður fyrir fórnarlömb jarðskálftanna á Haítí. Þann 28. mars 2011 var tilkynnt að faðir Knowles og umboðsmaður hennar til langs tíma myndi láta af störfum. Hún hefur nú umboð fyrir sig sjálf og hefur ráðið til sín liðsauka. Í júní 2011 var Knowles áttunda á lista yfir „Tekjuhæstu stjörnurnar undir þrítugu“ fyrir að þéna 35 milljónir dala milli 2010 og 2011.

Fjórða stúdíóplata Knowles, 4 kom út þann 24. júní 2011. Platan var innblásin af fjölmörgum tónlistarmönnum, þ.á.m. Fela Kuti, The Stylistics, Lauryn Hill, Stevie Wonder og Michael Jackson. Platan náði strax toppi bandaríska plötulistans, Billboard 200, og seldist í 310.000 eintökum fyrstu vikuna en það er minnsta sala í fyrstu viku sólóplatna Knowles. Aðalsmáskífa plötunnar, „Run the World (Girls)“ náði 29. sæti á Billboard Hot 100 listanum. Önnur smáskífa plötunnar, „Best Thing I Never Had“ kom út 1. júní 2011.

Listin[breyta | breyta frumkóða]

Tónlist og rödd[breyta | breyta frumkóða]

Tónlist Knowles er aðallega nútíma-R&B en hún tekst einnig á við popp, funk, hip hop og sálartónlist. Þó að hún taki aðallega upp lög á ensku, hefur hún einnig tekið upp lög á spænsku fyrir lagið „Irremplazable“ og endurútgáfu B'Day. Áður en hún tók upp spænsku lögin fékk hún sérstaka þjálfun frá bandaríska upptökustjóranum Rudy Perez.

Síðan hún var í Destiny's Child hefur Knowles tekið mikinn þátt í listrænni hlið ferils síns. Hún tók þátt í að semja flest lög hópsins, sem og lög sólóferilsins. Hún er þekkt fyrir að semja persónuleg og hvetjandi lög, en Knowles hefur sagt að það að hafa Jay-Z í lífi sínu hafi breytt miklu um hvernig hún hugsaði um samskipti karla og kvenna, sem hjálpaði henni að fara úr því að semja lög eins og „Independent Women“ og „Survivor“ yfir í lög eins og „Cater 2 U“ þar sem hún syngur um að sækja fyrir hann inniskóna og láta renna í bað fyrir hann. Sum af lögunum hennar fjalla um atburði úr hennar eigin lífi eða jafnvel lífi vina hennar. Knowles hefur einnig meðframleitt flestar plöturnar sínar. Hún býr þó ekki til taktinn sjálf, hún býr oftast til melódíurnar og hugmyndir á meðan framleiðslu lagsins stendur. Knowles var þekkt sem lagahöfundur á Destiny's Child tímabilinu, frá miðjum 10. áratugnum og fram yfir aldamótin. Hún vann verðlaun fyrir Popp lagahöfund ársins á American Society of Composers, Authors and Publishers Popp tónlistar verðlaununum árið 2001, og er hún fyrsta afrísk-bandaríska konan og önnur konan til að vinna þessi verðlaun. Knowles er meðhöfundur laganna „Irreplaceable“, „Grillz“ og „Check on It“, sem hafa öll náð á topp Billboard Hot 100 listans.

Knowles er mezzo-sópran og hefur því meira en þriggja áttunda raddsvið. Hún hefur oft verið skilgreind sem aðalrödd Destiny's Child. Jon Pareles hjá The New York Times sagði hað hún hefði þá rödd sem skilgreindi hópinn, og skrifaði að rödd hennar væri „silkimjúk en sterk með mikla sál“. Aðrir gagnrýnendur hafa hrósað henni fyrir raddsvið og styrk. Í gagnrýni um aðra plötuna hennar, B'Day var sagt: „Beyoncé Knowles er stormur dulbúinn sem söngvari. Á annarri sólóplötunni sinni, B'Day, koma lögin í stórum gusti hrynjanda og tilfinninga þar sem rödd Beyoncé fer vel með sterkum hljómnum; þú þyrftir að leita langt, jafnvel inn fyrir veggi Metropolitan óperunnar, til að finna söngvara sem syngur um fleiri hrein gildi... Enginn - ekki R. Kelly, ekki Usher, til að segja eitthvað um keppinautana - eru jafningjar Beyoncé í snilli í að draga raddlínur sínar við hip-hop-taktinn.“ Chris Richards hjá The Washington Post skrifaði: „Hún er hafin yfir alla keppinautana. Það er allt í röddinni hennar - ofurmannlegu hljóðfæri sem er fært um að syngja hvaða takt sem er og maður fær gæsahúð af dívutónunum...“

Knowles hefur oft verið gagnrýnd fyrir að „ofsyngja“. Hún notar oft „melisma“ (þar sem eitt orð er teygt yfir marga tóna) og er oft borin saman við tónlistarmenn eins og Mariah Carey, en hún er þekkt fyrir að skreyta lögin sín helst til mikið með „melisma“ og draga þannig athyglina frá laglínunni. Eye Weekly skrifaði, „Það er engin spurning að Beyoncé er ein af bestu popp söngkonunum, kannski ein sú besta á lífi ... [þó] eins áhrifamikill og söngur hennar getur verið, geta áhrifin stundum verið eins og að vera laminn í höfuðið af silkihanskaklæddum hnefa.“

Áhrif[breyta | breyta frumkóða]

Knowles segir Michael Jackson vera aðaláhrifavald sinn í tónlist. Knowles hefur einnig nefnt Diana Ross sem annan tónlistarmann sem hefur haft mikil áhrif á hana, vegna þess að „hún er fjölhæfur skemmtikraftur: frábær leikkona, góð söngkona, og falleg, fáguð kona. Hún er ein af fáum söngvurum sem eru mjög góðir kvikmyndaleikarar.“ Aðrir áhrifavaldar hennar í tónlist eru Tina Turner, Prince, Lauryn Hill, Aaliyah, Mary J. Blige, Whitney Houston, Janet Jackson, Anita Baker og Rachelle Ferrell. Knowles segir Mariah Carey einnig vera frábæra söngkonu og að Knowles hafi verið undir áhrifum frá henni þegar hún söng lagið „Vision of Love“. Oprah Winfrey veitir henni einnig innblástur sem og fyrrverandi forsetafrú, Michelle Obama. Knowles segir að Oprah sé „skilgreiningin á sterkri konu. Þegar ég er nálægt henni langar mig að standa bein og bera orðin rétt fram.“

Knowles hefur einnig haft mikil áhrif á tónlistarmenn nútímans, m.a. Rihanna, Alexandra Burke, Leona Lewis, Adele og Nicki Minaj. Trey Songz, Keri Hilson og Jazmine Sullivan hafa einnig lýst því yfir að vera aðdáendur Knowles. Kelly Rowland sagði einnig í viðtali við MTV News að Knowles væri ein þeirra sem veittu henni innblástur við upptöku annarrar sólóplötu hennar, Ms. Kelly. Adele sagði í viðtali við tímaritið Rolling Stone að hún sækti í innblástur frá „öðru sjálfi“ Knowles til að búa til sitt eigið, Söshu Carter, og hún tekur Carter fram þegar hún þarf á miklu sjálfstrausti að halda. Poppsöngkonan Miley Cyrus sagði við bandaríska tímaritið Seventeen að hún vildi verða eins og Knowles og sagði „Hún er aðalkonan. Þú horfir á hana og þú hugsar ekki, ég velti því fyrir mér hvernig einkalíf hennar er. Þú horfir á hana og þú segir, ‚Konan á sviðinu er stórstjarna‘. Þér er sama um allt annað; þér er bara annt um tónlistina hennar. Svo ég vona að þetta verði ég í framtíðinni“. Lady Gaga sagði í viðtali við MTV að hún hefði sótt innblástur í Knowles, áður en hún varð fræg. Hún sagði: „Veistu, ég hef aldrei sagt Beyoncé þetta, en ég man eftir að hafa legið í sófanum heima hjá ömmu, grátandi, og tónlistarmyndband með Destiny's Child kom í sjónvarpinu. Ég man eftir því að hafa horft á Beyoncé, og hugsað „Oh, hún er stjarna. Ég vil þetta. Ég vil vera á MTV“ og núna er ég í tónlistarmyndböndum með Beyoncé.“ Leikkonan Gwyneth Paltrow sagði í viðtali við bresku útgáfu Harper's Bazaar að hún horfði oft á Knowles á tónleikum þegar hún var að læra að vera tónlistarflytjandi fyrir kvikmyndina Country Strong.

Tónlistarmyndband Knowles við lagið „Single Ladies (Put a Ring on It)“ hefur fengið mikla athygli fyrir flókin dansspor og á það að hafa komið af stað „nýju dansæði á nýrri öld og á Internetinu.“ Myndbandið varð til þess að bæði karlar og konur fóru að setja myndbönd af sér, þar sem þau dönsuðu við lagið, inn á YouTube. Fræga fólkið hefur einnig reynt við dansinn, m.a. Justin Timberlake, Joe Jonas, Tom Hanks og Bandaríkjaforsetinn Barack Obama.

Svið og „annað sjálf“[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2006 kynnti Knowles kvennabandið Suga Mama sem er ætlað til tónleikaferða. Í hljómsveitinni eru bassaleikari, trommari, gítar-, horn-, píanó- og slagverksleikari. Bandið spilaði í fyrsta skipti á BET-verðlaununum árið 2006 og aftur í tónlistarmyndbandi fyrir „Irreplaceable“ og „Green Light“. Bandið hefur stutt Knowles þegar hún syngur opinberlega, m.a. á Beyoncé Experience- og I Am.. tónleikaferðunum.

Í grein sem titluð var „Fædd til að skemmta“ fékk Beyoncé ásamt öðrum klassískum- og nútímalegum flytjendum, mikið lof fyrir frammistöðu sína á sviði. Í gagnrýni um I Am...-túrinn, sagði Alice Jones hjá The Independent, „Að horfa á Beyoncé syngja og gera sitt getur best verið unaðslegt, í versta falli dáleiðandi. Hún tekur hlutverk sitt sem skemmtikraftur svo alvarlega að hún er næstum of góð“. New York Times segir, „það er hrífandi glamúr í vilja hennar til að skemmta“. Renee Michelle Harris hjá South Florida Times skrifar, „Knowles á sviðið með vörumerki sínu, ákveðni og styrkleika...sem sýnir mikla rödd hennar, án þess að missa úr nótu, þegar hún er upptekin í kröftugum, frábærlega útsettum danssporum...enginn, ekki Britney, Ciara og ekki Rihanna geta boðið upp á þennan pakka; rödd, hreyfingar og nærveru.“ Daily Mail skrifar, „margir sérfræðingar í bransanum hafa titlað Beyoncé sem næsta Michael Jackson. Á meðan það er of snemmt til að vera með þess konar samanburð, hefur hún svo sannarlega sannað að hún er ein af mest spennandi og hæfileikaríkustu tónlistarmönnum samtímans og gæti jafnvel komist þannig í sögubækurnar.“

Gagnrýnendur hafa einnig lofað söng hennar á tónleikum. Um eina frammistöðu hennar sagði Jim Farber hjá The Daily News, „Beyoncé þandi söngpípurnar og svakalegan styrk. Þegar hornið í hljómsveitinni hóf að spila, söng hún með. Hvernig Beyoncé notaði líkamann efldi frammistöðuna mikið. Með hárið túberað upp og með nógu langa leggi til að gera Tina Turner stolta, setti nærvera Beyoncé greinarmerki við sönginn eins og upphrópunarmerki.“ Stephanie Classen hjá Star Phoenix skrifar, „Beyoncé er enginn venjulegur flytjandi... frá fyrstu nótu reis 27 ára orkuverið upp fyrir allar brellur og flutti sýninguna eins og kynþokkafull geimveruprinsessa. Ekkert nema geimveru uppruni gæti skýrt þessa rödd...[Beyoncé] gæti hringað hvaða poppstjörnu sem er.“ Newsday skrifar, „hún sannar að kynþokkafullur dans og sterk rödd þurfa ekki að vera aðgreind... engar áhyggjur af varsöng þarna.“

Knowles hefur einnig verið gagnrýnd fyrir tvíræða dansa sína.

Opinber ímynd[breyta | breyta frumkóða]

Knowles hefur sagt: „Ég elska að klæðast kynæsandi fötum og bera mig eins og dama,“ en hún segir að fötin sem hún klæðist á sviðinu séu aðeins fyrir sviðið. Sem mikill aðdáandi tísku, sameinar Knowles það listræna í tískunni í tónlistarmyndböndum sínum og tónleikum. Samkvæmt ítalska tískuhönnuðinum Roberto Cavalli, notar hún mismunandi stíla og reynir að sameina það tónlist sinni. Tímaritið People útnefndi Knowles best-klæddu-stjörnuna árið 2007. Móðir Knowles gaf út bókina Destiny's Style: Bottylicious Fashion, Beauty and Lifestyle Secrets from Destiny's Child árið 2002, en bókin var um hvernig tískan hafði áhrif á velgengni Destiny's Child.

Sem ein af þeim svörtu stjörnum í Bandaríkjunum sem fær hvað mesta umfjöllun, hefur Knowles oft fengið gagrýni sem margir telja vera kynþáttahatur og kynjamisrétti. Tímaritið Rolling Stone sagði að síðan Dangerously in Love kom út „hefur [Beyoncé] orðið kyntákn eins og Halle Berry...“ Árið 2007 var Knowles á forsíðu Sports Illustrated, sundfatablaðinu, fyrsta konan sem ekki er fyrirsæta eða íþróttakona til að vera á forðsíðunni og önnur afrísk-bandaríska konan á eftir Tyra Banks. Sama ár, birtist Knowles á myndum þar sem hún hélt á gömlum sígarettu-haldara. Myndin sem var tekin af plötuumslagi B'Day, hreyfði við samtökum sem berjast á móti reykingum og sagði að hún þyrfti ekki að bæta sígarettu-haldaranum við „til að fá fágaðara útlit“.

24. apríl 2009 kom Knowles í Larry King Live, þar sem hún skapaði sér pólitískari ímynd og talaði um allt frá því að syngja fyrir Barack Obama forseta, til kynþáttahaturs sem hún hefur orðið fyrir, vegna þess að hún er svört. Hún sagði að Michelle Obama sé „svo skvísuleg“ og sagði einnig að það að syngja við fyrsta dans Obama-hjónanna sem forsetahjóna hafi verið hápunktur ferilsins.

Hún giftist rapparanum Jay-Z í apríl 2008. Þau eignuðust fyrsta barnið sitt, Blue Ivy, 7. janúar 2012. Saman eiga þau 3 börn.

Önnur verkefni[breyta | breyta frumkóða]

House of Deréon[breyta | breyta frumkóða]

Knowles og móðir hennar kynntu House of Deréon, nútímalega fatalínu fyrir konur, árið 2005. Hugmyndin er innblásin af þremur kynslóðum kvenna í fjölskyldunni og er nafnið virðingarvottur við ömmu Knowles, Agnès Deréon, sem vann fyrir sér sem saumakona. Samkvæmt Tinu Knowles, er yfirbragð línunnar endurspeglun á smekk og stíl Beyoncé. Línan fór í búðir árið 2006 og fékk House of Deréon mikla kynningu frá Destiny's Child, en þær klæddust fötum línunnar á tímabili Destiny Fulfilled. Búðin, sem er í Bandaríkjunum og Kanada, selur íþróttafatnað, föt úr gallaefni ásamt feldi, hlífðarfatnað og fylgihluti, þar á meðal handtöskur. Knowles tók einnig saman við House of Brands, skófyrirtæki á svæðinu, til að hanna skó fyrir House of Deréon. Árið 2004 stofnaði hún ásamt móður sinni fyrirtækið Beyond Productions. Snemma árs 2008 var gefinn út símaleikurinn Beyoncé Fashion Diva.

Samtök dýraverndunarsinna (PETA) hafa gagnrýnt Knowles fyrir að vera í og nota feld í fatalínunni. Samtökin sendu inn mótmælabréf og hafa reynt að ná sambandi við stjörnuna á opinberum vettvangi. Knowles hefur enn ekki svarað.

Vörur og framsal[breyta | breyta frumkóða]

Beyoncé, 2013

Knowles skrifaði undir kynningarsamning við Pepsi árið 2002, sem innihélt meðal annars sjónvarpsauglýsingar en einnig útvarps- og netauglýsingar. Ástæða samninganna var að Pepsi vildi fá breiðari neytendahóp. Árið 2004 birtust Knowles, Britney Spears, Pink og Enrique Iglesias í svokallaðri „Gladiator“-auglýsingu fyrirtækisins og árið eftir birtist Knowles með Jennifer Lopez og David Beckham í svokallaðri „Samurai“-auglýsingu.

Auglýsinga- og vörusamningar Knowles eru meðal annars við förðunarvörur og ilmvötn. Knowles hefur unnið með L'Oréal síðan hún var 18 ára. Hún kom ilm Tommy Hilfiger, True Star, af stað árið 2004. Knowles söng útgáfu af laginu „Wishing on a Star“ fyrir True Star-auglýsingarnar, en fyrir það fékk hún 250.000 dollara. Hún kom einnig True Star Gold af stað árið 2005 og Diamonds ilmi Armani árið 2007. Tímaritið Forbes sagði að Knowles þénaði 80 milljónir dala frá júní 2007 til júní 2008 en inni í því var meðal annars platan hennar, tónleikaferðalag, fatalínan og auglýsingaherferð. Hún var annar tekjuhæsti tónlistarmaðurinn á einu ári. Árið 2009 setti Forbes Knowles í fjórða sæti á lista sinn yfir 100 áhrifamestu stjörnurnar í heiminum, þriðja á listanum yfir tekjuhæsta tónlistarfólkið og í efsta sæti af tekjuhæstu stjörnunum undir 30 ára aldri með yfir 87 milljónir dollara í árstekjur frá 2008–2009. Forbes setti Knowles í þriðja sæti á lista áhrifamestu stjarnanna 2010 með 87 milljónir í tekjur vegna 93 daga tónleikaferðar, samninga við Nintendo og L'Oréal og fatalínuna House of Deréon. Knowles var einnig í þriðja sæti yfir 100 öflugustu og áhrifamestu stjörnurnar í heiminum og reyndist einnig vera tekjuhæsta söngkonan. Árið 2010 gaf Knowles út sinn fyrsta ilm, „Heat“. Til að kynna ilminn tók Knowles upp sína útgáfu af laginu „Fever“ fyrir „Heat“-auglýsingarnar. Knowles tók fyrst upp „Fever“ fyrir kvikmyndina The Fighting Temptations árið 2003. Sérfræðingar í bransanum hafa metið að ilmurinn gæti halað inn 100 milljónum dala á einu ári. Knowles útskýrði hugtakið á bakvið ilminn: „Mikið af sýningum mínum hafa innihaldið eld, svo við hugsuðum „Hiti“ (e. „Heat“). Einnig er rauður einn af uppáhalds litunum mínum en það er gylltur einnig. Allt, frá hönnun flöskunnar að nafninu og hugmyndunum bakvið auglýsingarnar, er komið frá mér.“ Knowles hefur einnig sagt um ilminn: „Fyrir mig endurspeglar ilmur afstöðu og smekk hennar, á meðan ég dái nokkur ilmvötn, hef ég ekki fundið ilminn sem persónugerir mig sem konu. Þegar ég vann með Coty gat ég breytt drauma-ilmnum mínum í raunverulegan ilm með því að gera aðlaðandi og fágaðan ilm; eitt af því sem endurspeglar minn innri styrk.“

Sasha Fierce fatalína[breyta | breyta frumkóða]

Þann 1. júlí 2009 fóru Knowles og fatahönnuðurinn móðir hennar, Tina, af stað með aftur-í-skólann fatalínuna sem var innblásin af búningum tónleikaferðarinnar. Fötin voru hönnuð af Thierry Mugler. Línan samanstóð af íþróttafatnaði, yfirhöfnuð, handtöskum, skófatnaði, augsnskuggum, nærfötum og skartgripum. Fatalínan ætlaði sér að grípa anda poppstjörnunnar á sviði. Útlitið er slétt, mjög öðruvísi og poppað upp með fullt af málmskartgripum, meðal annars sundbolum og mikið af legginsbuxum. „Línan er í rauninni hin hliðin á mér og ég er mjög þakklát fyrir að geta tjáð hana. ‚Sasha Fierce‘-línan er fyrir öruggar, næmar og þorandi hliðina á konum,“ útskýrir Beyoncé. Í grundvallaratriðum er hún fyrir allar ungar konur þarna úti sem vilja segja tískuheiminum: „Ég er eins konar Sasha Fierce...“

Útgefið efni[breyta | breyta frumkóða]

Breiðskífur[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Fyrirmynd greinarinnar var „Beyoncé Knowles“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt ágúst 2010.

  1. „Full List: The World's 100 Most Influential People“. Time (bandarísk enska). ISSN 0040-781X. Sótt 8. febrúar 2024.