Orrustan við Lützen (1632)
Orrustan við Lützen, nærri Leipzig í Þýskalandi, var háð þann 16. nóvember (samkvæmt gregoríanska tímatalinu) árið 1632. Hún var ein mest afgerandi orrusta Þrjátíu ára stríðsins. Þar barðist mótmælendaher Svía, undir forystu Gústafs Adolfs II. Svíakonungs, við kaþólskan her Heilaga rómverska keisaradæmisins. Svíar unnu sigur, en Gústaf Adolf konungur þeirra féll, og þeir misstu um 6000 menn til viðbótar. Kaþólikkar misstu milli 3000 og 3500 menn.
Aðdragandi orrustunnar
[breyta | breyta frumkóða]Tveim dögum fyrir orrustuna, þann 14. nóvember, hafði kaþólski herforinginn Albrecht von Wallenstein skipt liði sínu upp og fært höfuðstöðvar sínar til Leipzig. Vetur var að skella á, og eftir stríðsrekstur sumarsins bjóst hann ekki við frekari vandræðum af hálfu mótmælendahers Gústafs Adolfs Svíakonungs, enda var erfitt fyrir Svíana að slá upp búðum eða athafna sig á annan hátt á berangri að vetrarlagi. En Gústaf Adolf hafði aðrar fyrirætlanir. Snemma morguns þann 15. nóvember hélt hann með her sinn frá búðunum, þangað sem hann hafði síðast frétt af ferðum Wallensteins, og ætlaði að koma honum að óvörum. Honum tókst það þó ekki. Í síðdeginu varð lítill þýskur herflokkur á vegi hans, sem Wallenstein hafði skilið eftir við ána Rippach, um 5-6 km suður af bænum Lützen. Skærur milli þýska herflokksins og Svíanna töfðu þá síðarnefndu um tvo eða þrjá tíma, og þegar ekki var lengur vígljóst voru enn tveir eða þrír kílómetrar milli herjanna.
Wallenstein frétti von bráðar að Svíarnir nálguðust, og áttaði sig strax á hættunni. Hann sendi boð til herforingja síns, Pappenheims greifa, og skipaði honum að koma til sín eins fljótt og honum væri unnt, og hafa her sinn með sér. Það var komið fram yfir miðnætti þegar Pappenheim fékk skilaboðin, en hann ræsti herinn samstundis og hélt í átt til Wallensteins. Wallenstein vissi að við ofurefli væri að etja, svo hann bjó her sinn til varnar og lét grafa gryfjur og gera víggirðingar meðfram veginum milli Lützen og Leipzig. Hann staðsetti hægri arm hers síns á lágri hæð, ásamt mestum hluta stórskotaliðs síns.
Orrustan sjálf
[breyta | breyta frumkóða]Um morguninn töfðust Svíar vegna þoku, en um 9-leytið voru herirnir komnir í sjónmál hvor við annan. Það tók Svía langan tíma að fylka liði, vegna skurða og lækja, og slæms skyggnis, en um 11-leytið voru þeir tilbúnir til orrustu.
Til að byrja með gekk mótmælendum betur, og þeim tókst að komast fyrir vinstri vænginn á her Wallensteins, sem var ekki nógu sterkur. Léttvopnaða finnska Hakkapeliitta-riddaraliðið skaut andstæðingunum skelk í bringu undir forystu Torsten Stålhandske ofursta, og veittu birgðalest Wallensteins þung högg. Þegar kaþólikkarnir virtust vera að missa tökin, kom Pappenheim á vettvang með milli 2 og 3000 riddara með sér, réðst beint á Svíana og tókst að stöðva sókn þeirra. „Þarna þekki ég hann Pappenheim minn,“ á Wallenstein þá að hafa sagt. Ekki vildi þó betur til en svo, að Pappenheim hlaut sjálfur banasár af völdum lítillar sænskrar fallbyssukúlu. Gagnsóknin féll um sjálfa sig um leið og hermennirnir sáu foringja sinn falla í valinn. Hann gaf upp öndina síðar um daginn, þegar verið var að færa hann af vígvellinum á kerru.
Á vinstri væng keisarahersins hélt riddaraliðsorrustan áfram og báðir herir tefldu fram varaliði sínu til að reyna að ná yfirhöndinni. Um klukkan 1 var Gústaf Adolf sjálfur drepinn, þar sem hann var í broddi fylkingar í riddaraliðsáhlaupi þeim megin. Vegna þess hve þykkt mistur af þoku og púðurreyk lá yfir vígvellinum, leið nokkur stund meðan menn vissu ekki hvað hafði orðið af honum, áður en menn áttuðu sig á að konungur væri fallinn. Einum eða tveim tímum eftir að hann féll, var illa leiknu líkinu komið undan á laun, á fallbyssuvagni.
Á meðan hélt sænska fótgönguliðið, fyrir miðri fylkingu, áfram að fylgja skipunum sínum og reyndi að brjóta sterka miðfylkingu og hægri væng keisarahersins. Áhlaup þeirra mistóks mjög illa. Fyrst urðu þeir fyrir skæðri kúlnahríð frá stórskotaliði kaþólikka, og síðan áhlaupi riddaraliðs þeirra. Tvær elstu og reyndustu sveitir sænska hersins, „Gamla bláa herdeildin“ og „Gula -“ eða „Hirðherdeildin“, voru svo gott sem stráfelldar í þessum árásum og þeir sem eftir voru flúðu. Skelfing greip um sig í röðum mótmælenda, samtímis því sem fall konungsins spurðist út. Brátt var gjörvöll framvarðarsveit Svía á óskipulegu undanhaldi. Prestur konungsins, Jakob Fabricius, safnaði um sig sænskum yfirmönnum og hóf að syngja sálm. Þeim tókst að róa hermennina, sem staðnæmdust og fengu nýjan kjark. Forsjálni þriðjahæstráðanda Svía, Dodo Knyphausen herforingja, hjálpaði þeim einnig við að fylkja liði á nýjan leik - hann hafði haldið varalínunni vel utan við skotfæri stórskotaliðs keisarahersins, og með henni gátu þeir fylkt framvarðarsveitinni aftur.
Um 3-leytið hafði næstráðandi mótmælenda, Bernhard af Saxe-Weimar, frétt af falli konungs, sneri frá vinstri væng hersins og tók yfirstjórnina að sér. Sagt er að hann hafi reynt að halda dauða konungsins leyndum fyrir hermönnunum, en talið er að það hafi hann ekki gert, heldur strengt þess heit að hefna hans með því að sigra í orrustunni, en liggja sjálfur dauður ella.
Lokaáhlaup Svía átti sér stað um klukkan 4 síðdegis. Það var barist af hörku, og mannfallið ægilegt á báða bóga. Er rökkva tók, náðu Svíar loks yfirhöndinni á vígvellinum, þegar þeir tóku hæðina sem fallbyssur Wallensteins voru á. Keisaraherinn hörfaði út úr skotfæri og Svíar réðu vígvellinum.
Um klukkan 6 komu 3-4000 fótgönguliðar Pappenheims loks á vettvang, eftir að hafa að hafa þrammað allan daginn. Þótt alldimmt væri orðið vildu þeir reyna gagnsókn gegn Svíum, en Wallenstein taldi stöðuna vonlausa og skipaði hernum í staðinn að hörfa til Leipzig í skjóli hins óþreytta fótgönguliðs.
Strategískt og taktískt séð höfðu mótmælendur sigur í orrustunni við Lützen. Wallenstein hafði ætlað að hafa vetursetu í Saxlandi, en neyddist til að hörfa til Bæheims. Sigurinn varð Svíum þó dýrkeyptur, og misstu þeir mun fleiri menn en keisaraherinn, þótt öðru sé stundum haldið fram. Þeir misstu um 6000 menn fallna, særða og flúna, þegar þeir réðust á kaþólikka, sem höfðu víggirðingar og varnargrafir, en kaþólikkar misstu í heildina 3000-3500 menn.
Eftirleikur
[breyta | breyta frumkóða]Mótmælendaherinn náði meginmarkmiði herferðar sinnar, sem var að bjarga Saxlandi undan árás keisaradæmisins. Dauði konungsins setti þó strik í reikninginn, en hann var leiðtogi herja mótmælenda, og þegar hann var ekki lengur til að sameina þýska mótmælendur að baki sér, fór stríðsrekstur þeirra úr jafnvægi. Hinir kaþólsku Habsborgarar náðu vopnum sínum aftur og unnu nýja sigra. Stríðið hélt áfram þangað til Vestfalski friðurinn var saminn 1648.
Dagsetningin
[breyta | breyta frumkóða]Þegar orrustan fór fram hafði hið kaþólska Heilaga rómverska keisaradæmi tekið gregoríska tímatalið upp, en hinir lúthersku Svíar notuðu júlíanska tímatalið ennþá. Orrustan við Lützen var þannig 16. nóvember fyrir kaþólikkum, en 6. nóvember fyrir mótmælendum. Þótt Svíar hafi tekið gregoríska tímatalið upp á átjándu öld er samt ennþá hefð fyrir því þar í landi að minnast dauða Gústafs Adolfs konungs þann 6. nóvember.