Fara í innihald

Orrustan við Rocroi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Loðvík hertogi af Enghien í orrustunni við Rocroi.

Orrustan við Rocroi var orrusta í Stríði Spánar og Frakklands sem var hluti af Þrjátíu ára stríðinu milli herja Spánar og Frakklands 19. maí 1643, aðeins fimm dögum eftir að Loðvík 14. tók við konungdómi í Frakklandi. Orrustunni lauk með sigri Frakka. Hún er af sumum talin marka upphafið að endalokum Spænsku gullaldarinnar þar sem spænski atvinnuherinn, sem af mörgum var talinn ósigrandi, var í fyrsta sinn sigraður. Eftir orrustuna hætti spænski herinn að skipa fótgönguliðum í stóra ferninga (tercios) og tók upp línufylkingar líkt og Frakkar.

Hinn frægi flæmski her Spánar beið afhroð í orrustunni og eftir hana dró spænska ríkið stöðugt úr fjárframlögum til hans. Orrustan markar því upphafið að endalokum spænskra hernaðaryfirburða í Evrópu. Foringi Frakka, Loðvík af Enghien, varð gríðarvinsæll í Frakklandi og lenti við það brátt upp á kant við Mazarin kardinála og Önnu drottningu.

Aðdragandi[breyta | breyta frumkóða]

Hinir spænsku Habsborgarar, undir Filippusi 4. Spánarkonungi, höfðu barist við mótmælendafursta í Þýskalandi frá 1618. Frakkar óttuðust aukin áhrif Spánverja og hófu því beina þátttöku í stríðinu árið 1635. Frakkar gengu í lið með mótmælendum þrátt fyrir að landið væri að stærstum hluta kaþólskt og að uppreisn húgenotta hefði verið barin niður með hörku fáum árum fyrr. Eftir misheppnaða innrás í Spænsku Niðurlönd hafði franski herinn að mestu haldið sig innan frönsku landamæranna.

Þann 4. desember 1642 lést Richelieu kardináli, helsti ráðgjafi konungs, og snemma vorið eftir veiktist Loðvík 13. Hann lést 14. maí 1643 og fimm ára sonur hans tók við sem Loðvík 14. Þrátt fyrir tilraunir til að semja um frið ákváðu ráðgjafar hins nýja konungs að halda áfram hernaði í Franche-Comté, Katalóníu og Spænsku Niðurlöndum.

Árið áður, þann 26. maí 1642, hafði flæmski herinn ráðist á þann franska við Honnecourt-sur-Escaut til að draga úr þrýstingi Frakka á öðrum vígstöðvum, einkum í Katalóníu. Í orrustunni felldu Spánverjar um 40% af franska Champagne-hernum. Herforingi Spánverja, Francisco de Melo, ákvað samt að sækja ekki lengra inn í Frakkland. Ári síðar hugðust þeir leika sama leikinn og héldu með 23.050 menn inn í Norður-Frakkland. Loðvík, hertoga af Enghien, sem var foringi herliðsins í Amiens, var skipað að stöðva innrásina. Franski heraflinn á svæðinu taldi 22.000 menn. Loðvík var þá 21 árs en samt töluvert reyndur hermaður og með hæfa undirmenn eins og Jean de Gassion, Frakklandsmarskálk.

Undirbúningur[breyta | breyta frumkóða]

Her Francisco de Melo settist um víggirta bæinn Rocroi í Ardennafjöllum þar sem nokkur hundruð franskir hermenn voru til varnar. Rocroi var mikilvægt vígi á leiðinni til árdals Oise-fljóts. Loðvík hertogi fylgdist náið með ferðum spænska hersins. Þann 17. maí frétti hann lát konungs en hélt því leyndu fyrir hernum.

Brátt frétti Loðvík af því að 6.000 manna spænskur liðsauki væri á leið til Rocroi. Hann brást hratt við og bjó her sinn til orrustu áður en liðsaukinn kæmist á staðinn.

Francisco de Melo frétti af viðbúnaði Frakka og ákvað að mæta þeim í orrustu fremur en halda við umsátrinu um Rocroi þar sem her hans var eilítið stærri en franski herinn. Hann leit á orrustu sem tækifæri til að vinna afgerandi sigur á Frökkum. Hann skildi lítið lið eftir við Rocroi, til að koma í veg fyrir aðgerðir af hálfu setuliðsins þar, og bjó her sinn til orrustu.

Loðvík hélt með her sinn eftir ánni Oise og skipaði honum á hæðarhrygg með útsýni yfir Rocroi. Spánverjar skipuðu sér hratt á milli bæjarins og hryggsins. Franski herinn var með tvær raðir fótgönguliða í miðjunni, riddaralið við hvorn enda og mjóa línu stórskotaliðs fyrir framan. Spænska hernum var skipað á svipaðan hátt nema hvað fótgönguliðunum var raðað í ferninga. Herirnir hófu skothríð kvöldið 18. maí en orrustan hófst ekki fyrr en daginn eftir.

Orrustan[breyta | breyta frumkóða]

Við sólarupprás hófst orrustan á því að frönsku fótgönguliðarnir gerðu misheppnaða árás á spænsku ferningana. Vinstra riddaraliðið hélt fram, gegn skipunum Loðvíks, og neyddist brátt til að hörfa. Spænska riddaraliðið gerði vel heppnaða gagnárás og tókst næstum að hrekja franska riddaraliðið á flótta en franskt varalið hélt þá til móts við spænska liðið og tókst að stöðva það. Franska miðjan og vinstri vængurinn voru því í uppnámi í upphafi orrustunnar.

Á meðan tókst hægri væng franska hersins, undir stjórn Jean de Gassion, að hleypa upp spænska riddaraliðinu gegnt þeim. Loðvík tókst að nýta sér þetta til að ráðast gegn berskjölduðum vinstri væng spænska fótgönguliðsins. Báðir herir höfðu því náð árangri á hægri væng en tapað á vinstri væng.

Snilldarhugmynd Loðvíks[breyta | breyta frumkóða]

Loðvík vissi að miðjan og vinstri vængurinn væru í hættu en ákvað að besta leiðin væri ekki að hörfa og aðstoða þá, heldur nýta tækifærið og sækja fram á hægri vængnum. Hann skipaði riddaraliðinu að umkringja hluta spænska hersins með því að sækja aftur fyrir hann. Þeim tókst þannig að ráðast með riddaraliðið aftan að fótgönguliðunum sem enn börðust við varalið Frakka.

Þetta tókst og var síðar kallað „snilldarhugmynd sem gerði út um daginn“ (illumination de génie décide du sort de la journée). Eftir þetta var litið á Loðvík sem herstjórnarsnilling í Frakklandi.

Spænska riddaraliðið flúði þannig að fótgönguliðið neyddist til að berjast við Frakka frá öllum hliðum. Stórskotaliðið flúði líka og skildi fallbyssurnar eftir. Franski herinn hafði náð yfirburðastöðu.

Lokaorrustan[breyta | breyta frumkóða]

Frakkar gerðu tvö áhlaup á spænsku ferningana en þeim var báðum hrundið. Ferningarnir neyddust samt til að þétta raðirnar til að nota löngu spjótin gegn Frökkum. Loðvík stillti þá upp stórskotaliði sínu og fallbyssunum sem hann nafði náð frá Spánverjum og hóf skothríð á fótgönguliðið.

Brátt brast flótti á lið Vallóna og Þjóðverja í spænska fótgönguliðinu. Spánverjarnir héldu stöðu sinni ásamt foringja sínum og hrundu fjórum riddaraliðsáhlaupum í viðbót án þess að fylkingin riðlaðist, þrátt fyrir stórskotahríð. Að lokum bauð Loðvík þeim uppgjafarskilmála, svipaða þeim sem varnarlið í virki hefði fengið. Spánverjarnir samþykktu skilmálana og leifar fótgönguliðsins fengu að hörfa af vígvellinum með búnað sinn og fána.

Frakkar misstu um 4.000 menn í orrustunni. Melo sagði að 6.000 menn sínir hefðu dáið og 4.000 verið teknir höndum í skýrslu til Madrídar tveimur dögum síðar. Talið er að mannfall Spánverjana hafi verið á bilinu 4.000-8.000. Af 7.000 fótgönguliðum náðu aðeins 390 yfirmenn og 1.386 hermenn að snúa aftur til Spænsku Niðurlanda. Í bók sinni um Þrjátíu ára stríðið telur William P. Guthrie að 3.400 hafi látist, 2.000 verið teknir höndum og 1.600 flúið af spænsku fótgönguliðunum. Mest mannfallið var í spænska fótgönguliðinu, meðan riddaraliðið og stórskotaliðið náðu að flýja.

Eftirmálar[breyta | breyta frumkóða]

Þótt Frakkar hefðu sigrað við Rocroi og létt umsátrinu af bænum höfðu þeir ekki nægjanlegan styrk til að ráðast inn í Spænsku Niðurlönd. Spánverjar náðu fljótt að tryggja aftur stöðu sína við landamærin. Árinu 1643 lauk með pattstöðu sem frá sjónarhóli Frakklands var betra en áður. Þrátt fyrir þetta hafði orrustan gríðarmikla þýðingu þar sem orðspor flæmska hersins hafði skaðast til frambúðar. Spænska fótgönguliðið var ekki lengur álitið ósigrandi. Í skýrslu sinni segir Melo að þetta hafi verið „umtalsverðasti ósigur sem orðið hefur í þessum héruðum“.

Frökkum hafði hins vegar tekist að sýna fram á styrk sinn sem var mikilvægt í upphafi ríkisára hins barnunga konungs. Litið var á sigurinn sem góðan fyrirboða og hann styrkti stöðu Mazarins kardinála og Önnu drottningar. Hinn ítalski Mazarin hafði tekið við sem ráðherra drottningar fyrir hönd konungsins. Hann tók því við stöðunni sem Richelieu hafði gegnt fyrir Loðvík 13. og breytti í engu um áherslur í utanríkisstefnu Frakka. Stríðinu lauk 16 árum síðar með Pýreneasáttmálanum.