Fara í innihald

Norðurheimskautið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Norðurskautið)
Mynd sem sýnir hvernig sumarís á Norðurskautinu hefur minnkað.

Norðurheimskautið eða Norðurpóllinn er sá punktur á yfirborði sérhverrar plánetu, sem nyrstur er. Til eru ýmsar skilgreiningar á norðurheimskautinu, en hér verður eingöngu fjallað um hið landfræðilega norðurheimskaut.

Landfræðilega norðurheimskautið, eða norðurpóllinn, er sá staður á Jörðinni þar sem norðurendi jarðmöndulsins eða snúningsássins sker yfirborð jarðar. Þessi staður er í Norður-Íshafi og er umlukinn norðurheimskautssvæðinu. Aðrar skilgreiningar gefa aðra staðsetningu, en í öllum tilvikunum er póllinn þó í Norður-Íshafi. Ekki verður fjallað um hinar skilgreiningar norðurheimskautsins hér, vegna þess að þær eiga frekar við um segulskautið.

Þau lönd, sem liggja næst norðurheimskautinu eru Grænland (Danmörk), í 716 kílómetra fjarlægð og Ellesmereeyja (Kanada) í 756 kílómetra fjarlægð. (Báðar vegalengdirnar mældar í Google Earth.)

Skilgreining[breyta | breyta frumkóða]

Norðurheimskautið er mjög nálægt þeim stað þar sem snúningsás jarðar sker yfirborðið. Þessi punktur er skilgreindur sem breiddargráðan 90°N. Hvert sem farið er út frá þessum punkti er stefnan ávallt í suður og hvaðan sem komið er í stefnu á þennan punkt er stefnan norður. Á þessum stað er dýpi Norður-Íshafsins 4.087 metrar.

Á síðustu öld var póllinn skilgreindur nákvæmlega þar sem snúningsás Jarðar mætir yfirborðsfleti hennar, en fljótlega urðu stjörnufræðingar varir við að snúningsásinn er ekki alveg fastur, heldur hreyfist örlítið til með sveiflutíma sem er um það bil 435 dagar. Þessi óregla er kennd við Chandler, sem uppgötvaði hana og kallast á ensku Chandler wobble. Þetta uppgötvaðist með því að bera snúning jarðar saman við fastastjörnur á himni séð frá norðurpólnum.

Leiðangrar á Norðurpólinn[breyta | breyta frumkóða]

Fyrsti leiðangur á pólinn er almennt viðurkennt að verið hafi för Roberts Edwin Peary, en með honum voru í för Matthew Henson og 4 inúítar, þeir Ootah, Seegloo, Egingway og Ooqueah, en þeir komust nálægt pólnum þann 6. apríl 1909. Sagnfræðingar telja að Peary hafi í raun talið sig vera á pólnum, en nákvæm greining á gögnum Pearys, sem gerð var 1996 bendir til þess að hann hafi átt um 40 kílómetra ófarna þegar hann taldi sig kominn alla leið. Samkvæmt því hefur hann komist norður á 89°50'N svona um það bil.

Fyrsta óumdeilda för manna yfir norðurpólinn var flug könnuðarins Roalds Amundsen og Lincolns Ellsworth í loftfarinu Norge, en hönnuður þess og flugstjóri var Ítalinn Umberto Nobile. Þeir flugu frá Svalbarða til Alaska árið 1926.

Þann 3. maí 1952 lentu þeir Joseph O. Fletcher, William P. Benedict og Albert P. Crary í fyrsta sinn flugvél á norðurpólnum. Tveir þeir fyrrnefndu voru bandarískir herflugmenn, en sá síðastnefndi vísindamaður.

Bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS Nautilus (SSN-571) sigldi undir norðurskautið þann 31. ágúst 1958 og þann 17. mars 1959 kom bandaríski kjarnorkukafbáturinn USS Skate (SSN-578) úr kafi upp í gegnum íshelluna á norðurskautinu.

Fyrstur manna til að komast á norðurskautið á yfirborði jarðar, svo að óumdeilt sé, var Ralph Plaisted, en hann vann afrekið þann 19. apríl 1968.

Kröfur til yfirráða[breyta | breyta frumkóða]

Á síðustu árum (frá 1999) hafa lönd eins og Rússland og Kanada farið að gera tilkall til norðurpólsins (eða svæða alveg að honum) með mismunandi röksemdafærslu, sem er ákaft mótmælt af löndum eins og Noregi, Danmörku og Bandaríkjunum.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • „Hvað er langt þangað til norðurpóllinn bráðnar?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvaða heimsálfu tilheyrir norðurpóllinn?“. Vísindavefurinn.
  • „Hver er sjávardýpt á norðurpólnum?“. Vísindavefurinn.
  • „Hvernig er veðurfar á norðurpólnum og hvers vegna er þar svona mikill ís?“. Vísindavefurinn.