Fara í innihald

Stjórnartíðindi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Stjórnartíðindi er rit útgefið af íslenska ríkinu þar sem auglýst er gildistaka laga, stjórnvaldsfyrirmæla, alþjóðasamninga og annarra auglýsinga sem hafa lagaleg áhrif. Ritið kom fyrst út árið 1874 en áður voru lög og tilskipanir sem áttu að taka gildi á Íslandi eingöngu lesnar upp í heyrandi hljóði[1]. Kveðið er á um útgáfu ritisins í lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað.

Birting laga og tilskipana fyrir Ísland í prentútgáfu Stjórnartíðinda fékk fyrst réttaráhrif þann 1. ágúst 1878 skv. fyrirmælum laga nr. 11/1877. Þar sem A-deild Stjórnartíðinda var prentuð í Danmörku voru áhyggjur á Alþingi um að lög fengju réttaráhrif áður en prenteintök Stjórnartíðinda kæmu til Íslands, og var því tekin sú ákvörðun að miða þau við ákveðinn tíma eftir útgáfu tilkynningar í B-deild blaðsins um að auglýsing væri birt í A-deildinni, en með því væri búið að tryggja að eintökin væru komin til landsins. Viðmiðið við þá tilkynningu var afnumið árið 1943 þar sem prentun A-deildarinnar var þá löngu komin til Íslands, en þessar tilkynningar voru samt sem áður birtar í B-deildinni til ársins 1970. Réttaráhrif prentútgáfunnar héldust þar til reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005 kom út 8. nóvember 2005. Eftir það urðu réttaráhrifin miðuð við rafrænu útgáfuna á vef Stjórnartíðinda.

Deildir Stjórnartíðinda

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnartíðindum er skipt niður í þrjár deildir: A-deild, B-deild og C-deild.

Í A-deild skal birta öll lög frá Alþingi, þingsályktanir, auglýsingar frá forsetaembættinu og auglýsingar um meðferð forsetavalds.

B-deild inniheldur reglugerðir, samþykktir og auglýsingar gefnar út eða staðfestar af ráðherra, reikningar sjóða ef skipulagsákvæði sjóðanna kveða á um það, auglýsingar um alþingiskosningar, veiting heiðursmerkja, nafnbóta og heiðursverðlauna. Þar eru einnig birtar aðrar reglur og auglýsingar sem stjórnvöld og opinberar stofnanir eiga að birta í Stjórnartíðindum samkvæmt lögum.

C-deild Stjórnartíðinda var stofnuð árið 1962 með lögum nr. 22/1962 til að auglýsa um gildistöku, niðurfellingu og breytingu á samningum við önnur ríki. Þar eru einnig birtar ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar. Einnig var gefin út C-deild frá 1883 en hún innihélt ýmiss konar skýrslur um landshag þar til útgáfu var hætt upp úr aldamótunum 1900.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Höfundur óþekktur. „Greinargerð á þingskjali 191 á 131. löggjafarþingi Alþingis“. Sótt 2. júní 2013.