Newt Gingrich

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Newt Gingrich
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
Í embætti
4. janúar 1995 – 3. janúar 1999
ForveriTom Foley
EftirmaðurDennis Hastert
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 6. kjördæmi Georgíu
Í embætti
3. janúar 1979 – 3. janúar 1999
ForveriJohn Flynt
EftirmaðurJohnny Isakson
Persónulegar upplýsingar
Fæddur17. júní 1943 (1943-06-17) (80 ára)
Harrisburg, Pennsylvanía, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiJackie Battley (1962–1981)
Marianne Ginther (1981–2000)
Callista Bisek (2000–)
Börn2
HáskóliEmory-háskóli
Tulane-háskóli
StarfStjórnmálamaður, rithöfundur
Undirskrift

Newton Leroy „Newt“ Gingrich (fæddur 17. júní 1943) er bandarískur stjórnmálamaður sem gegndi embætti forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá árinu 1995 til ársins 1999. Gingrich sat á þingi fyrir Repúblikanaflokkinn frá 1979 þar til hann sagði af sér 1999 í kjölfar kosninganna 1998 til Bandaríkjaþings þar sem repúblikanaflokkurinn tapaði 5 þingsætum til demókrata. Gingrich hefur í seinni tíð verið harður gagnrýnandi Barack Obama forseta Bandaríkjanna[1] en Gingrich hefur meðal annars skrifað bókina To Save America: Stopping Obama's Secular-Socialist Machine sem var gefin út 2010.

Ævi og menntun[breyta | breyta frumkóða]

Newt Gingrich var fæddur þann 17. júní árið 1943 í Harrisburg, Pennsylvaníu[2]. Hann lærði sagnfræði við Emory-háskóla í Atlanta og síðar Tulane-háskóla í New Orleans, en við þann síðarnefnda hlaut hann doktorsgráðu í evrópskri samtímasagnfræði árið 1971[3]. Doktorsritgerð Gingrich fjallaði um menntastefnu Belga í Kongó á árunum 1945 til 1960. Að loknu námi tók Gingrich upp kennslu á háskólastigi og kenndi allt fram til 1978.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Gingrich bauð sig fram til fulltrúadeildarinnar árin 1974 og 1976 en hafði ekki erindi sem erfiði og þurfti að lúta í lægra haldi fyrir demókratanum Jack Flynt sem var þá fulltrúi á þingi fyrir Georgíufylki, heimafylki Gingrich. Árið 1978 bauð Gingrich sig fram á nýjan leik. Þá gaf Flynt hinsvegar ekki kost á sér til endurkjörs og Gingrich sigraði demókratann Virginia Shapard örugglega [4][5]. Gingrich sat á þingi frá 1979 til 1999.

Í janúar 1995 var Gingrich kjörinn forseti fulltrúadeildarinnar og varð í kjölfarið, í nokkrum skilningi, andlit repúblikanaflokksins og andstöðu hans gegn þáverandi forseta Bandaríkjanna, Bill Clinton. Í þingkosningunum 1998 galt repúblikanaflokkurinn afhroð og tapaði 5 sætum til andstæðinga sinna í demókrataflokknum. Í kjölfarið lét Gingrich af embætti sínu bæði sem forseti fulltrúadeildarinnar og sem fulltrúadeildarþingmaður.

Gingrich hefur haldið áfram að vera hávær rödd í bandarískri stjórnmálaumræðu og er tíður gestur í útvarps- og sjónvarpsþáttum sem snúa að stjórnmálum. Gingrich gaf kost á sér í forvali Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar árið 2012. Hann vann próf­kjör Repúblikana í tveim­ur fylkjum, Suður-Karólínu og Georgíu, en dró sig úr forvalinu þann 2. maí 2012 eftir að ljóst var orðið að Mitt Romney hefði tryggt sér útnefningu flokksins.[6]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Gingrich Speech at Southern Republican Leadership Conference, Skoðað 30. september, 2010. [1] Geymt 2 janúar 2011 í Wayback Machine
  2. „Biography of Newton Gingrich“. U.S. Congressional Library. 2007. Sótt 18. janúar 2007.
  3. Biosketch of Gingrich on Answers.com.
  4. „Shapard, Virginia“. Our Campaigns. 23. júní 2007. Sótt 10. október 2008.
  5. „Shapard, Virginia - GGDP Library Special Collections - Georgia State University Library“. Library.gsu.edu. 26. janúar 1988. Sótt 5. september 2010.
  6. „Newt Gingrich er hætt­ur“. mbl.is. 2. maí 2012. Sótt 6. nóvember 2020 2020.


Fyrirrennari:
Tom Foley
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings
(1995 – 1999)
Eftirmaður:
Dennis Hastert