Gísli Konráðsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Minnismerki um Gísla Konráðsson við Glaumbæ í Skagafirði.

Gísli Konráðsson (18. júní 17872. febrúar 1877) var bóndi, alþýðufræðimaður og sagnaritari á 19. öld. Eftir hann liggur geysilega mikil fróðleikur af ýmsu tagi og hafa sum verka hans verið gefin út að honum látnum.

Æska og mótun[breyta | breyta frumkóða]

Gísli fæddist á Völlum í Vallhólmi í Skagafirði og voru foreldrar hans Konráð Gíslason, bóndi og smiður á Völlum, og þriðja kona hans, Jófríður Björnsdóttir. Konráð var hreppstjóri og ágætlega stæður en Jófríður var á vergangi eftir Móðuharðindin þegar Konráð tók hana á heimili sitt 1785 og giftist henni skömmu síðar. Hann var þá á sjötugsaldri (f. 1722) en hún um tvítugt. Konráð dó 1798 og nokkru síðar giftist Jófríður aftur bróðursyni hans, Gottskálk Egilssyni. Hann var fæddur 1783 og var því rúmlega 60 ára aldursmunur á eiginmönnum Jófríðar.

Gísli naut engrar menntunnar í æsku nema hvað honum var kennt að þekkja stafina en hann bjó sér til blek og kenndi sér sjálfur að skrifa. Móðir hans, sem var nærri ólæs, hélt honum að tóvinnu en hann naut þess að henni þótti mjög gaman að kvæðum og sögum og gat oft komið sér undan verki með því að kveða eða segja sögur. Eftir að faðir Gísla dó vildi presturinn í Glaumbæ taka hann til sín og kenna honum því að hann sá hve auðvelt hann átti með nám en móðir hans og stjúpi vildu það ekki.

Vorið 1804 fór Gísli fyrst suður á Álftanes til sjóróðra eins og Skagfirðingar gerðu um aldir og þá má segja að skrifaraferill hans hafi byrjað því að hann afritaði sögur fyrir sjálfan sig og aðra í landlegum, enda þótti hann hafa fallega rithönd og var mjög afkastamikill. Hann hafði erft jarðarpart eftir föður sinn og hafði hug á að nota andvirði hans til að mennta sig en af því varð ekki þar sem hann var þá kominn með unnustu og var reyndar með tvær í takinu. Önnur ól honum barn haustið 1807 en um sumarið hafði hann kvænst hinni, Efemíu Benediktsdóttur, og var þá nýorðinn tvítugur. Elsti sonur þeirra, Konráð Gíslason, fæddist sumarið 1808. Alls eignuðust þau 9 börn.

Bóndi og fræðimaður[breyta | breyta frumkóða]

Þau hjón bjuggu á Löngumýri í Vallhólmi 1808 – 1817, Húsabakka í Vallhólmi 1817 – 1820 og á Ytra-Skörðugili á Langholti 1820 - 1837. Öll árin reri Gísli suður á Álftanesi á vetrarvertíð, vann að búi sínu á sumrin og skrifaði hvenær sem tóm gafst, auk þess sem hann orti mikið. Framan af skrifaði hann aðallega upp eftir bókum og handritum, auk þess sem hann sá um ýmsar skriftir fyrir hreppstjóra, presta og aðra embættismenn í nágrenninu.

Í vertíðarferðum sínum hafði hann komist í kynni við Hallgrím Scheving, kennara við Bessastaðaskóla, og afritað mikið fyrir hann. Hallgrímur tók Konráð son Gísla að sér, útvegaði honum skólastyrk og kenndi honum, allt þar til Konráð fór til háskólanáms 1831. Þeir feðgar sáust aldrei aftur en skrifuðust á í yfir 40 ár.

Gísli og Jón Espólín sýslumaður voru miklir vinir og fræddist Gísli mikið af Espólín, sem hvatti hann áfram við skriftir. Hann kynntist líka Sigurði Breiðfjörð og skiptist á ljóðabréfum við hann og Gísli og Hannes Bjarnason prestur á Ríp ortu ýmislegt saman, til dæmis Andrarímur.

Gísli hætti búskap 1837 og fóru þau hjónin þá til dóttur sinnar á Syðra-Skörðugili og voru þar næstu þrjú ár en fóru þá á búa aftur á Húsabakka í félagi við dóttur og tengdason. Þar var annar alþýðufræðimaður hjá honum um tíma, Daði Níelsson hinn fróði. Gísli var hreppstjóri 1839 – 1850 og líkaði það illa, þótti starfið annasamt og erfitt.

Atvinnufræðimaður í Flatey[breyta | breyta frumkóða]

Efemía kona Gísla dó vorið 1846 og árið 1850 fluttu hann og Indriði yngsti sonur hans vestur í Króksfjörð og þurfti þrjá hesta til að flytja bækur Gísla. Fljótlega eftir að hann kom vestur komst hann í kynni við konu, Guðrúnu Arnfinnsdóttur, en ættingjum hans mun ekki hafa líkað það og varð úr að þau fluttu út í Flatey á Breiðafirði og giftust þar 1851. Þau áttu einn son sem dó nokkurra ára gamall og var Guðrún þá dáin. Í brúðkaupinu voru ýmsir embættismenn og höfðingjar úr Breiðafjarðarbyggðum og varð að samkomulagi að Gísli ánafnaði Framfarastiftun Flateyjar bókasafni sínu gegn framfærslu þeirra hjóna til æviloka.

„Hætti Gísli eftir það heyvinnu og var þá sjötugur að aldri, en skrifaði síðan vetur og sumar, og mátti þetta kalla hádegi ævi hans,“ segir Gísli um sjálfan sig í ævisögu sinni. Hann fékk til búsetu hálft hús í Flatey, Norskahús, og þar sat hann nótt og dag og skrifaði með bókastafla allt í kring, allt til dánardags.

Verk[breyta | breyta frumkóða]

Gísli var geysilega afkastamikill og liggur eftir hann ógrynni verka, frumsaminna, þýddra og uppskrifaðra. Hann skrifaði upp annála, ættartölur, þjóðsögur, sagnaþætti og héraðssögur. Hann varð einhver mesti fræðimaður Íslendinga úr hópi óskólagenginna manna. Hann var líka skáld, orti rímur og lausavísur. Nær ekkert af verkum hans kom út að honum lifandi nema Rímur af Andra jarli en töluvert hefur verið gefið út síðan, meðal annars þessi verk:

  • Rímur af Andra jarli
  • Hellismanna saga
  • Sagan af Natani Ketilssyni
  • Þáttur Grafar-Jóns og Staðarmanna
  • Þáttur frá Fjalla-Eyvindi, Höllu, Arnesi, Abraham og Hirti útileguþjófum
  • Söguþættir eftir Gísla Konráðsson
  • Saga Skagstrendinga og Skagamanna
  • Sagnaþættir Gísla Konráðssonar
  • Strandamanna saga
  • Ævisaga Sigurðar Breiðfjörðs skálds
  • Syrpa úr handritum Gísla Konráðssonar 1 og 2
  • Húnvetninga saga

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • „Æfiágrip Gísla sagnfræðings Konráðssonar, ritað af honum sjálfum“.
  • „Innsýn í tilveru Íslendinga á 18. og 19. öld: Viðtal við Jón Torfason“.