Fara í innihald

Jökull Jakobsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Jökull Jakobsson (14. september 193325. apríl 1978) var íslenskt leikskáld sem skrifaði mikinn fjölda leikverka frá upphafi 7. áratugar 20. aldar þar til hann lést. Leikritið Hart í bak sem var frumsýnt í Iðnó árið 1962 og náði miklum vinsældum, er talið marka upphaf íslenskrar nútímaleikritunar. Auk sviðsverka skrifaði hann mikið af útvarpsleikritum og nokkur sjónvarpsleikrit.

Jökull fæddist í Neskaupstað á Norðfirði, þar sem faðir hans, séra Jakob Jónsson, var sóknarprestur. Móðir hans var Þóra Einarsdóttir. Systkini Jökuls voru Guðrún Sigríður persneskufræðingur, Svava rithöfundur og alþingismaður, Jón Einar lögfræðingur og Þór Edward veðurfræðingur.

Jökull lauk námi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953 og lagði síðan um hríð stund á nám í leikhúsfræðum í Vínarborg. Hann hafði gefið út sína fyrstu skáldsögu, Tæmdan bikar, þegar hann var enn aðeins sautján ára gamall. Er hann sneri heim tók hann að fást við blaðamennsku og vann um tíma á dagblaðinu Tímanum en síðan einkum á ýmsum tímaritum, svo sem Vikunni og Fálkanum.

Með leikritinu Hart í bak varð hann á skammri stundu vinsælasti leikritahöfundur Íslands og markaði djúp spor í leiklistarsögu landsins. Velgengni verksins átti sinn þátt í að Leikfélag Reykjavíkur varð atvinnuleikhús að fullu.

Fyrir utan grínleikinn Pókók voru allra fyrstu Jökuls ljóðrænir hvunndagsharmleikir en með sterku gamansömu ívafi. Frá og með Sumrinu ´37 varð harmurinn sterkari og verkin urðu háðsk, fremur en gamansöm. Áhrif Antons Tsjekhovs höfðu verið nokkuð áberandi í verkum hans og í Sumrinu lýsir ein aðal persónan mannlegum samskiptum þannig að fólk sé alltaf að "segja það án þess að segja það".

Með Dómínó urðu áhrif Harolds Pinters sterkari og sú heimssýn sem verkin birtu varð brotakenndari og illskilgreinanlegri. Undantekningin er Kertalog sem er grátbrosleg en þó fyrst og fremst harmræn lýsing á hlutskipti fólks sem á við geðræn vandamál að stríða.

Eftir nokkurra ára hlé frá leikritun sneri Jökull aftur með verkið Son skóarans og dóttur bakarans þar sem samfélagsgreining og -gagnrýni var meira áberandi en áður. Jökull lést rétt fyrir frumsýningu á verkinu vorið 1978.

Auk þess að fást við blaðamennsku og ritstörf var Jökull mjög vinsæll útvarpsmaður, og einkum voru rómaðir þættir hans Gatan mín sem fluttir voru um 1970. Þar gekk hann um tilteknar götur í Reykjavík og víðar og spjallaði við gamla íbúa um fólk og örlög í húsunum við götuna. Þá gerði hann nokkra sjónvarpsþætti, m.a. um ýmis dulræn efni, um séra Hallgrím Pétursson o.fl.

Fjölskylduhagir

[breyta | breyta frumkóða]

Jökull eignaðist 1955 dótturina Unni Þóru með Áslaugu Sigurgrímsdóttur. Hann gekk síðan 1957 að eiga Jóhönnu Kristjónsdóttur blaðamann, rithöfund og ferðafrömuð. Þau eignuðust börnin Elísabetu Kristínu (1958), Illuga (1960) og Hrafn (1965-2022). Jökull og Jóhanna skildu 1968 og tveim árum seinna gekk hann að eiga Ásu Beck. Þau eignuðust soninn Magnús Hauk 1971 en slitu síðar samvistir.

Systir hans var Svava Jakobsdóttir.

Útgefin verk

[breyta | breyta frumkóða]

Skáldsögur og smásögur

[breyta | breyta frumkóða]
  • Tæmdur bikar, 1951.
  • Ormar, 1956.
  • Fjallið, 1958.
  • Dyr standa opnar, 1960.
  • Næturheimsókn, smásögur, 1962.
  • Feilnóta í fimmtu sinfóníunni, 1975.
  • Skilaboð til Söndru, 1981.

Ferðabækur

[breyta | breyta frumkóða]
  • Pókók (frums. Leikfélag Reykjavíkur, 1961)
  • Hart í bak (frums. Leikfélag Reykjavíkur, 1962)
  • Sjóleiðin til Bagdad (frums. Leikfélag Reykjavíkur, 1965)
  • Sumarið 37 (frums. Leikfélag Reykjavíkur, 1968)
  • Dómínó (frums. Leikfélag Reykjavíkur, 1972)
  • Klukkustrengir (frums. Leikfélag Akureyrar, 1973)
  • Kertalog (frums. Leikfélag Reykjavíkur, 1974)
  • Herbergi 213 eða Pétur mandólín (frums. Þjóðleikhúsið, 1974)
  • Sonur skóarans og dóttir bakarans (frums. Þjóðleikhúsið, 1978)
  • Í öruggri borg (frums. Þjóðleikhúsið 1979)

Sjónvarpsleikrit

[breyta | breyta frumkóða]

Heildarsafn

[breyta | breyta frumkóða]
  • Leikrit Jökuls Jakobssonar, 1994. Ritstjóri Jón Viðar Jónsson. Bókin hefur að geyma öll sviðsverk, sjónvarpsleikrit og útvarpsleikrit.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.