Fara í innihald

Sturlunga saga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Sturlunga)
Sturlunga saga, myndskreytt síða úr Króksfjarðarbók, AM 122 a fol.

Sturlunga saga eða Sturlunga er íslenskt sögusafn frá 13. öld sem greinir frá valdabaráttu höfðingjaætta, sókn konungsvalds og kirkju og endalokum þjóðveldis.[1] Sturlunga dregur nafn sitt af ætt Sturlunga, en svo voru afkomendur Sturlu Þórðarsonar í Hvammi í Dölum nefndir. Hún er mikilvæg heimild um sögulega viðburði á Íslandi og veitir innsýn í hugmyndaheim og lífsskoðun Íslendinga á 13. öld. Hún er rituð af ýmsum höfundum en þekktastur er Sturla Þórðarson (1214 – 1284) og er hann talinn hafa lagt mest af mörkum til ritsins.[2]

Efni Sturlungu

[breyta | breyta frumkóða]

Sturlunga segir frá lífi Íslendinga á Íslandi og voru frásagnir hennar ritaðar á 13. öld líkt og Íslendingasögur. En það sem greinir Sturlungu frá Íslendingasögunum er sú staðreynd að Íslendingasögurnar greina frá löngu liðnum atburðum, sem flestir gerðust á 9. og 10. öld, en Sturlunga saga skýrir frá atburðum á 12. og 13. öld. Íslendingasögur fjalla um atburði úr fortíð en Sturlunga er að nokkru samtímaheimild og segir frá atburðum úr samtíð höfunda. Höfundar Sturlungu byggja frásögnina á eigin reynslu eða á ferskum munnmælum um atburðina. Sögur Sturlungu og Biskupa sögur eru því stundum kallaðar samtíðarsögur.

Sturlunga saga er safnrit og varðveitt sem ein samfelld saga í handritum. Þó er greinilegt að þannig hefur hún ekki orðið til í upphafi. Heitið Sturlunga saga er þekkt frá 17. öld en uppruni hennar er þessi: Á 13. öld voru ritaðar einstakar sögur og síðan var þeim steypt saman í eitt rit um aldamótin 1300. Sögurnar gerast á árunum 11171264. Almennt er talið að annaðhvort Þórður Narfason (d. 1308) lögmaður á Skarði á Skarðsströnd eða Þorsteinn böllóttur Snorrason (d. 1353) hafi safnað til verksins og ritstýrt því.[3] Hver tilgangurinn var með samsetningu ritsins er ekki vitað. En þó má geta sér til eins og gert er í nýjustu bókmenntasögunni: „Honum hefur augljóslega verið í mun að halda til haga frásögnum af atburðum sem leiddu til þess að Íslendingar glötuðu forræði sínu í hendur Noregskonungi árið 1262.“[4]

Frásagnir Sturlungu eru fjölbreyttar að efni og framsetningu og þrátt fyrir töluverða ritstýringu við samsetningu heildarritsins er oftast auðvelt að greina sögurnar sundur. Tvenns konar hugmyndir hafa verið um hvernig gefa eigi Sturlungu út: Önnur er sú að gefa söguna út sem eina heild líkt og hún er varðveitt, og er nýjasta útgáfan á þann veg (1988 og 2010). Hin er sú að greina sögurnar að og prenta hverja sögu fyrir sig. Þannig er útgáfan frá 1946.

Helstu sögur í Sturlungu eru Íslendinga saga eftir Sturlu Þórðarson, Þorgils saga og Hafliða, Prestssaga Guðmundar Arasonar, Þórðar saga kakala, Þorgils saga skarða og Svínfellinga saga. Enn fremur eru þar Sturlu saga, Geirmundar þáttur heljarskinns, Guðmundar saga dýra og Hrafns saga Sveinbjarnarsonar.

Eftirtaldar sögur eru nátengdar efni Sturlungu og stundum gefnar út með henni:

Meginhandrit Sturlunga sögu eru tvö; Króksfjarðarbók (AM 122 a fol) og Reykjafjarðarbók (Am 122 b fol), báðar frá 14. öld. Af Króksfjarðarbók eru varðveitt 110 blöð en talið er að þau hafi upphaflega verið 141. Af Reykjafjarðarbók eru varðveitt 30 blöð af áætluðum 180.[5] Einnig eru til pappírshandrit sem eru runnin frá þessum skinnbókum þegar þær voru heilar.[6]

  1. Guðrún Ása Grímsdóttir. „Sturlunga saga“.
  2. Úlfar Bragason (júlí 2011). „Hver var Sturla Þórðarson og hvað gerði hann merkilegt?“. Vísindavefurinn. Sótt júní 2021.
  3. Helgi Þorláksson, ‘Sturlunga - tilurð og markmið’, Gripla 23 (2012): 53-92.
  4. Guðrún Nordal (1992). Íslensk bókmenntasaga. Mál og menning., bls. 313
  5. Úlfar Bragason (júní 2018). „Reykjafjarðarbók Sturlungu“. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Sótt júní 2021.
  6. Guðrún Nordal (2006). John McKinnell, David Ashurst og Donata Kick (ritstjóri). „To Dream or Not to Dream: A Question of Method“ (PDF). The Fantastic in Old Norse/Icelandic Literature: Sagas and the British isles; Preprint Papers of The 13th International Saga Conference Durham and York, 6th-12th August. bls. 304-313. Sótt júní 2021.