Kvikuinnskot
Útlit
(Endurbeint frá Innskot)
Kvikuinnskot er hugtak í jarðfræði sem haft er um bergkviku sem kemur úr iðrum jarðar og þrengir sér inn í sprungur í jarðskorpunni eða inn á milli jarðlaga tiltölulega nærri yfirborði. Þau geta verið afar misstór. Lítil kvikuinnskot mynda mjóar og efnislitlar æðar og eitla í jarðlagastaflanum. Berggangar, sem margir hverjir hafa verið aðfærsluæðar eldgosa, teljast til kvikuinnskota. Efnismikil kvikuinnskot geta myndað berghleifa sem eru margir rúmkílómetrar að stærð. Kvikuinnskotum fylgja oft jarðskjálftar og landris. Þekkt innskot á Íslandi eru t.d. Eystrahorn, Vestrahorn, Sandfell í Fáskrúðsfirði, Baula í Borgarfirði, Þverfellsinnskotið í Esju.