Líf Magneudóttir
Líf Magneudóttir (fædd 13. ágúst 1974) er íslensk stjórnmálakona. Hún hefur verið oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í borgarstjórn Reykjavíkur frá 2018 og verið í borgarstjórn frá 2016. Hún er einnig fyrrum forseti borgarstjórnar. Líf er í sambúð með Snorra Stefánssyni lögmanni og eiga þau saman fjögur börn.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Líf fæddist í Kaupmannahöfn en fluttist til Íslands árið 1975 með fjölskyldu sinni og ólst að mestu upp í Vesturbæ Reykjavíkur. Hún flutti aftur til Kaupmannahafnar árið 1990. Foreldrar hennar eru Magnea J. Matthíasdóttir rithöfundur og Bárður R. Jónsson þýðandi.
Hún lauk stúdentsprófi við Nørrebro gymnasium i Brønshøj í Danmörku árið 1994. Hún lauk B.Ed-gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004. Líf hóf störf hjá RÚV árið 2000 þar sem hún vann sem þýðandi á fréttastofu og vann í ýmsum þýðingarverkefnum til 2007. Á árunum 2004-2006 vann hún einnig sem grunnskólakennari í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og Suðurhlíðarskóla í Reykjavík. Frá 2006-2011 var hún vefritstjóri Sambands íslenskra sparisjóða.
Stjórnmálaþátttaka
[breyta | breyta frumkóða]Líf hefur verið virk í starfi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs. Hún var formaður VGR, svæðisfélags Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Reykjavík frá 2011-2012, og sat í stjórn flokksins frá 2011til 2015.
Í sveitarstjórnarkosningunum 2010 var hún í þriðja sæti á framboðslista flokksins í Reykjavík, en náði ekki inn. Eftir kosningarnar tók hún sæti sem fulltrúi VG í Skóla- og frístundaráði borgarinnar. Í forvali VGR fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2014 lenti Líf í öðru sæti en einu atkvæði munaði á henni og Sóleyju Tómasdóttur. Sóley leiddi framboðslista VG í kosningunum þá um vorið og náði kjöri sem eini fulltrúi VG í borgarstjórn.
Líf náði kjöri sem varaborgarfulltrúi í kosningum 2014. Hún var formaður Mannréttindaráðs borgarinnar frá 2014 til 2015 þegar Sóley tók sjálf sæti formanns ráðsins. Líf tók sæti borgarfulltrúa eftir að Sóley baðst lausnar í september 2016, en Sóley flutti til Hollands. Líf var einnig kjörin forseti borgarstjórnar um haustið 2016 og sat í embættinu restina af kjörtímabilinu.
Líf var kjörinn oddviti flokksins í kosningunum 2018 og náði sæti sem eini borgarfulltrúi flokksins. Flokkurinn myndaði meirihluta með Samfylkingunni, Viðreisn og Pírötum. Líf náði aftur kjöri sem oddviti flokksins í kosningunum 2022 og aftur sem eini fulltrúi flokksins svo að flokkurinn ákvað að fara úr meirihlutasamstarfinu.