Kjartan Magnússon

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita

Kjartan Magnússon (fæddur 5. desember 1967) er íslenskur stjórnmálamaður og borgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Hann hefur setið í Borgarstjórn Reykjavíkur sem vara- og aðalmaður frá 1994. Kjartan situr í Íþrótta- og tómstundaráði og Menntaráði á vettvangi Reykjavíkurborgar og fyrir hennar hönd í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur og í Hafnarstjórn, stjórn Faxaflóahafna sf. Hann situr ásamt Júlíusi Vífli Ingvarssyni fyrir hönd sjálfstæðismanna í Borgarráði.

Kjartan er stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík og las sagnfræði við Háskóla Íslands. Hann starfaði sem blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1991-1999 og sinnti lengst af viðskiptafréttum. Hann er annar stofnenda sprotafyrirtækisins Intelscan örbylgjutækni. Kjartan er kvæntur og á þrjú börn.

Stjórnmálaþátttaka[breyta | breyta frumkóða]

Kjartan hóf stjórnmálaferil sinn í Heimdalli, félagi ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík. Hann var kjörinn formaður félagsins 1991 og 1992. Hann tók sæti á lista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningar 1994 og náði kjöri sem varaborgarfulltrúi. Í kosningunum 1998 var hann enn kjörinn varaborgarfulltrúi en eftir að Árni Sigfússon hvarf úr borgarstjórn árið 1999 varð Kjartan aðalfulltrúi. Hann hefur þokast upp listann í prófkjörum síðan. Í prófkjörinu í janúar 2010 (fyrir sveitarstjórnarkosningar þá um vorið) hlaut hann 3. sæti.

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn mynduðu meirihluta í kjölfar borgarstjórnarkosninga 2006 var Kjartan kjörinn í borgarráð og til formennsku í Menningar- og ferðamálaráði auk ýmissa trúnaðarstarfa annarra. Haustið 2007 slitnaði hins vegar upp úr samstarfinu vegna ágreinings um REI-málið. Kjartan var í hópi þeirra sex borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks sem ekki vildi fylgja Vihjálmi Þ. Vilhjálmssyni að málum varðandi samruna Reykjavík Energy Invest og Geysis Green Energy, þrátt fyrir vináttu og stuðning við Vilhjálm í prófkjörinu 2005.

Kjartan var lykilmaður í myndun meirihluta sjálfstæðismanna og frjálslyndra í borgarstjórn, en hann hafði haldið vináttu og trúnað við Ólaf F. Magnússon, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, þegar hann sagði skilið við Sjálfstæðisflokkinn og bauð sig fram á lista frjálslyndra og óháðra. Lagði Kjartan grunninn að samstarfi flokkanna og leiddi þá Ólaf og Vilhjálm saman til viðræðna, en andað hafði köldu á milli þeirra eftir að upp úr samstarsviðræðum þeirra slitnaði sumarið 2006 og Vilhjálmur samdi við framsóknarmenn um samstarf. Í hinu nýja samstarfi sjálfstæðismanna og frjálslyndra, sem hófst hinn 24. janúar 2008, var Kjartan kjörinn í borgarráð og í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur (OR), þar sem hann var stjórnarformaður og jafnframt stjórnarformaður REI. Eftir að upp úr því samstarfi slitnaði og sjálfstæðismenn mynduðu meirihluta með framsóknarmanninum Óskari Bergssyni hinn 21. ágúst 2008 vék Kjartan úr stjórnarformannssæti OR fyrir Guðlaugi G. Sverrissyni, fulltrúa framsóknarmanna, og var varaformaður stjórnar uns nýr meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar tók við í kjölfar sveitarstjórnakosninganna 2010.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Einkennismerki Wikitilvitnunar
Wikivitnun er með safn tilvitnana á síðunni
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.