Kastalavirkið Marienberg

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kastalavirkið Marienberg. Í forgrunni er gamla brúin yfir ána Main.

Kastalavirkið Marienberg er elsta mannvirki borgarinnar Würzburg í Þýskalandi og stendur á hæð við ána Main. Það var aðsetur greifa áður en síðar sátu þar furstabiskuparnir.

Saga Marienbergs[breyta | breyta frumkóða]

Marienberg stendur á 100 metra hæð við ána Main. Þar mun áður hafa staðið virki á tímum kelta. Núverandi virki var reist um eða eftir aldamótin 700. Elstu hlutar þess eru frá 704, þar á meðal Litla Maríukirkjan. Í henni voru biskuparnir lagðir til hvíldar. Virkið var stækkað nokkrum sinnum. 1253 ákvað furstabiskupinn að flytja aðsetur sitt í virkið. Þar sátu því biskuparnir sem stjórnuðu Würzburg í gegnum tíðina allt til 1719, en þá fluttu þeir inn í biskupahöllina Residenz sem verið var að reisa í miðborginni. Virkið kom nokkru sinni við sögu í stríði. Fyrst í bændauppreisninni miklu snemma á 16. öld. 1525 hafði mörg þúsund manna bændaher safnast saman í og við Würzburg. Herinn réðist á virkið, en þar vörðust fylgismenn biskups, alls um 240 vopnfærir manna. Biskup sjálfur hafði flúið og safnað liði. Það dró til bardaga við borgina. Lið biskups var skipað atvinnuhermönnum og gjörsigruðu þeir illa vopnaða bændur. Borgarstjórinn og myndhöggvarinn Tilman Riemenschneider hafði gengið í lið með bændur. Hann var nú handtekinn og settur í dýflissu virkisins, þar sem hann var pyntaður. Eftir stórbruna í virkinu 1572 var því talsvert breytt. Svíakonungur Gústaf II Adolf hertók Würzburg 1631 í 30 ára stríðinu. Hann tók virkið, en ekki eru til upplýsingar um það hversu mikið var barist um það. Gústaf sat í virkinu í hartnær 3 ár og lét gera ýmsar breytingar á því. Þegar Svíar voru hraktir frá Würzburg, settust biskuparnir aftur að í virkinu. Í þriðja sinn var barist um virkið er Prússar réðust á það 1866 í þeirri viðleitni að sameina þýsku ríkin. Prússar skutu á virkið, sem við það brann, en varnarliðið náði samt að verja það og halda því. Enn lenti virkið í hernaðarátök 1945, en að þessu sinni úr lofti. Í loftárásum Breta á Würzburg stórskemmdist virkið. Það var lagfært í einfaldri mynd og er safn í dag.

Minnisvarði um bændauppreisnina miklu 1525

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]