John Russell, jarl af Russell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jarlinn af Russell
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
30. júní 1846 – 21. febrúar 1852
ÞjóðhöfðingiViktoría
ForveriRobert Peel
EftirmaðurJarlinn af Derby
Í embætti
29. október 1865 – 26. júní 1866
ÞjóðhöfðingiViktoría
ForveriVísigreifinn af Palmerston
EftirmaðurJarlinn af Derby
Persónulegar upplýsingar
Fæddur18. ágúst 1792
Mayfair, Middlesex, Englandi
Látinn28. maí 1878 Richmond Park, Surrey, Englandi
StjórnmálaflokkurViggar (fyrir 1859)
Frjálslyndi flokkurinn (1859–1878)
MakiAdelaide Lister (g. 1835; d. 1838)
Frances Elliot-Murray-Kynynmound (g. 1841)
Börn4
HáskóliEdinborgarháskóli
StarfAðalsmaður, stjórnmálamaður
Undirskrift

John Russell, fyrsti jarlinn af Russell (18. ágúst 1792 – 28. maí 1878) var breskur stjórnmálamaður úr röðum Vigga og síðar Frjálslynda flokksins sem var tvisvar forsætisráðherra Bretlands snemma á Viktoríutímanum.

Russell var úr einni voldugustu aðalsfjölskyldu Bretlands. Hann erfði þó jarlsnafnbót sína ekki því hann var yngri sonur foreldra sinna, heldur fékk hann hana frá Viktoríu drottningu í laun fyrir þjónustu við krúnuna.[1]

Russell var afi Bertrands Russell.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Russell gekk á neðri deild breska þingsins árið 1813 fyrir Vigga. Sem leiðtogi stjórnarandstöðunnar árið 1845 lýsti Russell yfir stuðningi sínum við að nema úr gildi kornlögin svokölluðu, verndartoll á innfluttu korni til Bretlandseyja, og neyddi Robert Peel forsætisráðherra til að fylgja fordæmi sínu. Þar sem Íhaldsflokkurinn var klofinn út af málinu sagði Peel af sér árið 1845 og Russell tók við embætti forsætisráðherra.[2]

Þegar Russell tók við embætti geisaði hræðileg hungursneyð á Írlandi og ríkisstjórn Russell tókst ekki að hafa hemil á henni. Flokkur Vigga aðhylltist frjálsan markað og lítil ríkisafskipti og því neitaði Russell að setja hömlur á útflutning matar frá Írlandi til Englands. Hann hætti einnig við hjálparstarfsemi sem ríkisstjórn Peel hafði komið á fót til að berjast við hungursneyðina í trú um að markaðurinn myndi sjá Írum fyrir mat. Á ríkisstjórnartíð Russell svalt um það bil ein milljón Íra til dauða og um milljón Írar í viðbót neyddust til þess að flýja land.

Fyrri ráðherratíð Russell lauk eftir þingkosningar árið 1852, þar sem enginn flokkur náði hreinum meirihluta og Jarlinn af Derby var loks fenginn til að mynda minnihlutastjórn. Stjórn Derby var ekki langlíf og féll saman síðar sama ár.[3] Jarlinn af Aberdeen var fenginn til að leiða minnihlutastjórn Vigga og Russell tók við embætti utanríkisráðherra. Sem utanríkisráðherra bar Russell, ásamt Palmerston lávarði og í óþökk forsætisráðherrans, ábyrgð á því að Bretar gengu inn í Krímstríðið árið 1854 með Frökkum og Tyrkjum á móti Rússum. Eftir ýmsar hrakfarir og fjölda dauðsfalla úr sjúkdómum í byrjun stríðsins snerist almenningsálit gegn þátttöku Breta í stríðinu og vantrauststillaga var samþykkt gegn Aberdeen.[4]

Palmerston myndaði nýja stjórn og Russell varð í fyrstu áfram utanríkisráðherra. Palmerston lést skyndilega árið 1865 og Russell varð þannig forsætisráðherra á ný. Seinni ráðherratíð hans var stutt og árangurslítil. Russell vildi víkka kosningaréttinn en tókst það ekki, heldur áttu Íhaldsstjórnir Derby lávarðar og Benjamin Disraeli eftir að inna það verk að hendi. Árið 1866 varð klofningur innan flokksins til þess að ríkisstjórn Russell féll. Russell gegndi aldrei framar opinberu embætti.[5]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. London Gazette, tölublað 22534 (30 . júlí 1861) bls. 3193.
  2. Walpole, Spencer. The life of Lord John Russell (2 bindi 1889, 1891), bls. 423-4.
  3. Prest, John (2009) [2004]. „Russell, John, first Earl Russell (1792–1878)“. Oxford Dictionary of National Biography (online. útgáfa). Sótt 24. mars 2018..
  4. Reid, Stuart Johnson (1895). Lord John Russell.
  5. Lord John Russell Geymt 17 mars 2018 í Wayback Machine, Hansard search


Fyrirrennari:
Robert Peel
Forsætisráðherra Bretlands
(30. júní 184621. febrúar 1852)
Eftirmaður:
Jarlinn af Derby
Fyrirrennari:
Vísigreifinn af Palmerston
Forsætisráðherra Bretlands
(29. október 186526. júní 1866)
Eftirmaður:
Jarlinn af Derby