James Callaghan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
James Callaghan
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
5. apríl 1976 – 4. maí 1979
ÞjóðhöfðingiElísabet 2.
ForveriHarold Wilson
EftirmaðurMargaret Thatcher
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. mars 1912
Copnor, Hampshire, Englandi
Látinn26. mars 2005 (92 ára) Ringmer, Austur-Sussex, Englandi
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkurinn
MakiAudrey Moulton (frá 1938 til 2005)
StarfStjórnmálamaður

Leonard James Callaghan, Callaghan barón af Cardiff (27. mars 1912 – 26. mars 2005), oft kallaður Jim Callaghan, var forsætisráðherra Bretlands úr Verkamannaflokknum frá 1976 til 1980. Callaghan er enn þann dag í dag eini breski stjórnmálamaðurinn sem hefur gegnt öllum fjórum „stóru“ stjórnmálaembættum ríkissins: Hann var fjármálaráðherra (1964–1967), innanríkisráðherra (1967–1970) og utanríkisráðherra (1974–1976) áður en hann varð forsætisráðherra. Sem forsætisráðherra vann hann nokkra sigra en hans er þó aðallega minnst fyrir hinn svokallaða „raunavetur“ (Winter of Discontent) 1978–79. Á mjög köldum vetri leiddu deilur hans við stéttarfélög til stórfelldra verkfalla sem urðu breskum almenningi til mikilla óþæginda og leiddu til þess að Callaghan bað ósigur gegn Margaret Thatcher í næstu kosningum.

Þegar Callaghan steig á neðri deild breska þingsins árið 1945 heyrði hann til vinstri væng flokksins. Callaghan færðist smám saman til hægri en var áfram þekktur sem „varðmaður tauhúfunnar“ þar sem hann þótti beita sér fyrir sterkum tengslum milli Verkamannaflokksins og stéttarfélaga. Embættistíð Callaghans sem fjármálaráðherra var stormasamt tímabil í breskum efnahag og einkenndist af neikvæðum viðskiptajöfnuði. Árið 1967 var breska pundið gengisfellt. Callaghan gerðist þá innanríkisráðherra. Hann sendi breska herinn til að styðja lögregluna á Norður-Írlandi að beiðni norður-írsku ríkisstjórnarinnar í tengslum við átökin á Norður-Írlandi.

Þegar Verkamenn töpuðu í þingkosningunum árið 1970 varð Callaghan virkur í stjórnarandstöðu. Eftir að Verkamenn komust í ríkisstjórn á ný árið 1974 gerðist hann utanríkisráðherra, samdi um nýja skilmála að inngöngu Bretlands í evrópska efnahagsbandalagið og studdi áframhaldandi aðild að því í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1975. Þegar Harold Wilson forsætisráðherra sagði af sér árið 1976 sigraði Callaghan fimm aðra frambjóðendur og gerðist eftirmaður hans. Verkamenn höfðu þegar glatað naumum meirihluta sínum á neðri deild þingsins þegar hann varð forsætisráðherra og frekari ósigrar í kosningum neyddu Callaghan til þess að semja við smærri flokka eins og Frjálslynda flokkinn um stjórnarsamstarf frá 1977 til 1978. Deilur við stóriðju og verkföll á „vetri rauna vorra“ árið 1978 gerðu ríkisstjórn Callaghans óvinsæla og ósigur hans í þjóðaratkvæðagreiðslu um valddreifingu í Skotlandi árið 1979 leiddi til þess að vantrausti var lýst yfir á ríkisstjórn hans. Þetta leiddi til þess að Callaghan beið ósigur í þingkosningum árið 1979.

Callaghan var áfram formaður Verkamannaflokksins fram í nóvember 1980 og kom á umbótum í formannskjöri flokksins. Síðan steig hann til hliðar úr stjórnmálum og fékk síðar aðalsnafnbót sem Callaghan barón af Cardiff. Callaghan dó árið 2005 og var þá elstur allra forsætisráðherra Bretlands.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Harold Wilson
Forsætisráðherra Bretlands
(5. apríl 19764. maí 1979)
Eftirmaður:
Margaret Thatcher