William Grenville

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
William Grenville
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
11. febrúar 1806 – 31. mars 1807
ÞjóðhöfðingiGeorg 3.
ForveriWilliam Pitt yngri
EftirmaðurHertoginn af Portland
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. október 1759
Wotton Underwood, Buckinghamshire, Englandi
Látinn12. janúar 1834 (74 ára) Burnham, Buckinghamshire, Englandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurViggar
MakiAnne Pitt (g. 1792)
Börn4
HáskóliChrist Church (Oxford), Lincoln's Inn
Undirskrift

William Wyndham Grenville, fyrsti baróninn af Grenville (25. október 1759 – 12. janúar 1834), var breskur stjórnmálamaður úr röðum Vigga. Hann var forsætisráðherra Bretlands frá 1806 til 1807 sem leiðtogi hinnar svokölluðu „ríkisstjórnar allra hæfileikanna“.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Grenville var sonur George Grenville, sem hafði einnig verið forsætisráðherra. Móðir hans, Elizabeth, var dóttir Tory-stjórnmálamannsins Sir Williams Wyndham Bart. Hann átti tvo eldri bræður, Thomas og George. Hann var því föðurbróðir fyrsta hertogans af Buckingham og Chandos. Grenville var einnig tengdur Pitt-fjölskyldunni með hjónabandi; William Pitt eldri hafði gifst föðursystur hans, Hester. Grenville var því náfrændi Williams Pitt yngri.

Grenville gekk í Eton-skóla, Christ Church í Oxford-háskóla og í lagaskólann Lincoln's Inn.[1]

Grenville gekk á neðri deild breska þingsins árið 1782. Hann varð brátt náinn bandamaður forsætisráðherrans, frænda síns, Williams Pitt yngri. Hann vann fyrir ríkisstjórn hans sem greiðslustjóri lögreglunnar frá 1784 til 1789. Árið 1789 var hann forseti neðri deildarinnar í stuttan tíma en gekk síðan í ríkisstjórnina sem innanríkisráðherra Bretlands. Næsta ár hlaut hann aðalsnafnbót og gerðist leiðtogi lávarðadeildar þingsins sem Grenville barón.[2] Næsta ár, árið 1791, tók hann við af hertoganum af Leeds sem utanríkisráðherra. Utanríkisráðherratíð Grenville var viðburðarík og spannaði frönsku byltingarstríðin. Í stríðunum lagði Grenville áherslu á að berjast á meginlandinu og var á öndverðum meiði við Henry Dundas, sem vildi einbeita sér að því að berjast á hafi og í nýlendunum. Grenville sagði af sér ásamt Pitt árið 1801 vegna ágreinings um réttindi breskra kaþólikka. Hann gegndi herþjónustu árin 1794 og 1806.[3]

Næstu árin varð Grenville náinn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, Vigganum Charles James Fox. Þegar Pitt sneri aftur til valda árið 1804 tók Grenville ekki sæti í ríkisstjórn hans. Eftir að Pitt lést árið 1806 gerðist Grenville leiðtogi „ríkisstjórnar allra hæfileikanna“, stjórnarsamstarfs stuðningsmanna Grenville, Vigga sem studdu Fox og stuðningsmanna fyrrverandi forsætisráðherrans Sidmouth lávarðar. Grenville gerðist forsætisráðherra og Fox varð utanríkisráðherra en í reynd deildu þeir völdum. Frændi Grenville, William Windham, varð stríðs- og nýlendumálaráðherra og yngri bróðir hans, Thomas Grenville, varð flotamálaráðherra í stuttan tíma. Ríkisstjórnin náði litlu fram og tókst hvorki að semja um frið við Frakkland né bæta réttindi kaþólikkanna. Eina markverða afrek hennar var að banna þrælaverslun árið 1807. Ríkisstjórnin leið undir lok þegar henni mistókst að setja lög um réttindi breskra kaþólikka.

Eftir að ríkisstjórn Grenville hrundi gekk Grenville aftur í stjórnarandstöðu og stofnaði til bandalags við jarlinn af Grey og við Viggana. Ásamt Grey neitaði hann að ganga í ríkisstjórn Liverpool lávarðar árið 1812. Eftir að Napóleonsstyrjöldunum lauk snerist Grenville aftur á sveif með Íhaldsmönnum en hann gegndi þó aldrei framar ríkisstjórnarembætti. Stjórnmálaferli hans lauk þegar hann fékk heilablóðfall árið 1823. Grenville var einnig kanslari Oxford-háskóla frá 1810 til dauðadags árið 1834.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Lundy, Darryl (2. desember 2008). „William Wyndham Grenville, 1st Baron Grenville“. thepeerage.com. Sótt 18. mars 2014.
  2. London Gazette, tölublað 13259, 23. nóvember 1790, bls. 710.
  3. Fisher, David R. „GRENVILLE, William Wyndham (1759-1834), of Dropmore Lodge, Bucks“. History of Parliament Trust.


Fyrirrennari:
William Pitt yngri
Forsætisráðherra Bretlands
(11. febrúar 180631. mars 1807)
Eftirmaður:
Hertoginn af Portland