Spencer Perceval

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Spencer Perceval
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
4. október 1809 – 11. maí 1812
ÞjóðhöfðingiGeorg 3.
ForveriHertoginn af Portland
EftirmaðurJarlinn af Liverpool
Persónulegar upplýsingar
Fæddur1. nóvember 1762
Mayfair, Middlesex, Englandi
Látinn11. maí 1812 (49 ára) Westminster, Middlesex, Englandi
ÞjóðerniBreskur
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiJane Wilson
Börn13, þ. á m. Spencer og John
HáskóliTrinity College, Cambridge
Undirskrift

Spencer Perceval (1. nóvember 1762 – 11. maí 1812) var breskur stjórnmálamaður sem var forsætisráðherra Bretlands frá október 1809 þar til hann var myrtur í maí 1812. Perceval er eini forsætisráðherra Bretlands sem hefur verið ráðinn af dögum.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Perceval var yngri sonur írsks jarls og hlaut menntun í Harrow-skóla og Trinity-háskóla í Cambridge. Hann stundaði laganám í Lincoln's Inn og vann sem málafærslumaður og í lögráðgjafaráði konungsins áður en hann hóf afskipti af stjórnmálum. Hann gekk á breska þingið fyrir Northampton-kjördæmi þegar hann var 33 ára. Perceval var stuðningsmaður Williams Pitt og skilgreindi sjálfan sig ávallt sem „vin hr. Pitt“ frekar en sem eiginlegan Íhaldsmann. Perceval var á móti því að kaþólikkar fengju full borgaraleg réttindi og að umbótum yrði komið á í breska þinginu. Hann studdi stríð Breta gegn Napóleon Frakkakeisara og að þrælaverslunin á Atlantshafi yrði leyst upp. Perceval var á móti veiðum, fjárhættuspili og framhjáhaldi, drakk ekki eins mikið og flestir þingmenn á hans tíma, gaf rausnarlega af eigum sínum til góðgerðamála og eyddi miklum tíma með börnunum sínum þrettán.

Eftir að Perceval hóf afskipti af stjórnmálum kleif hann fljótt upp metorðastigann. Hann var málafærslumaður ríkisins í ríkisstjórn Henry Addington, fjármálaráðherra og þingleiðtogi á neðri deild þingsins í ríkisstjórn hertogans af Portland, og varð loks forsætisráðherra í október árið 1809. Perceval var leiðtogi veikburða ríkisstjórnar og þurfti að fást við ýmis vandamál á ráðherratíð sinni, þar á meðal geðveiki Georgs 3. konungs, fjárhagskreppu og uppþot Lúddíta. Perceval tókst að vinna bug á þessum kreppum, rak stríð Breta gegn Frökkum á Íbaríuskaga þrátt fyrir svartsýni stjórnarandstöðunnar, og vann stuðning Georgs ríkisarfa og ríkisstjóra. Staða Perceval var orðin mun sterkari vorið 1812 þegar hann var skyndilega myrtur.

Morðið á Spencer Perceval[breyta | breyta frumkóða]

Þann 11. maí 1812 steig Perceval inn í anddyri neðri deildar breska þingsins. Maður steig fram, reiddi fram byssu og skaut forsætisráðherrann í brjóstkassann. Perceval hneig niður og mælti orð sem vitni heyrðu ýmist sem „morð!“ eða „Guð minn góður!“.[1] Þetta voru lokaorð hans. Þegar Perceval var komið fyrir í næsta herbergi og hann lagður ofan á borð var hann meðvitundarlaus en púlsinn sló enn laust. Þegar skurðlæknir mætti á svæðið fáeinum mínútum síðar var púlsinn hættur að slá og Perceval var lýstur látinn.[2]

Í fyrstu óttuðust menn að morðið á Perceval væri byrjunin á uppreisn en brátt kom í ljós að morðinginn, sem reyndi ekki að flýja, hafði verið einn að verki. Morðinginn var kaupmaður að nafni John Bellingham, sem taldi sig hafa verið fangelsaðan án laga og réttlætis í Rússlandi og vildi fá sárabætur frá ríkisstjórninni.[1] Ríkisstjórnin hafði hafnað öllum kröfum hans þess efnis og því hafði Bellingham ræktað með sér ofsafengið hatur á forsætisráðherranum. Lík Perceval var flutt á Downingstræti 10 þann 12. maí.[2] Bellingham var sakfelldur fyrir morð þann 15. maí, daginn fyrir jarðarför Perceval, og dæmdur til dauða. Hann var hengdur þann 18. maí.

Perceval var sjöundi sonur foreldra sinna og átti fjóra eldri bræður sem lifðu af bernsku sína, en jarlsnafnbót föður hans hlotnaðist einum af afkomendum hans snemma á tuttugustu öld. Afkomendur hans voru áfram jarlar af Egmont þar til ættkvísl þeirra dó út árið 2011.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 Gillen, Mollie (1972), Assassination of the Prime Minister: The Shocking Death of Spencer Perceval, London: Sidgwick and Jackson.
  2. 2,0 2,1 Gray, Denis (1963), Spencer Perceval: The Evangelical Prime Minister, 1762–1812, Manchester University Press.


Fyrirrennari:
Hertoginn af Portland
Forsætisráðherra Bretlands
(4. október 180911. maí 1812)
Eftirmaður:
Jarlinn af Liverpool