Robert Peel

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Robert Peel
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
10. desember 1834 – 8. apríl 1835
ÞjóðhöfðingiVilhjálmur 4.
ForveriHertoginn af Wellington
EftirmaðurVísigreifinn af Melbourne
Í embætti
30. ágúst 1841 – 29. júní 1846
ÞjóðhöfðingiViktoría
ForveriVísigreifinn af Melbourne
EftirmaðurJarlinn af Russell
Persónulegar upplýsingar
Fæddur5. febrúar 1788
Bury, Lancashire, Englandi
Látinn2. júlí 1850 (62 ára) Westminster, Middlesex, Englandi
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
MakiJulia Floyd (g. 1820)
BörnJulia, Robert, Frederick, William, John, Arthur, Eliza
Undirskrift

Sir Robert Peel, barónett (5. febrúar 1788 – 2. júlí 1850; stundum kallaður Hróbjartur Píll í íslenskum samtímaheimildum[1]) var breskur stjórnmálamaður í Íhaldsflokknum sem var tvisvar forsætisráðherra Bretlands (1834–35 og 1841–46) og tvisvar innanríkisráðherra (1822–27 og 1828–30). Hann er gjarnan talinn faðir nútímalöggæslu í Bretlandi og einn af stofnendum Íhaldsflokks nútímans.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Peel var sonur ríks vefnaðarframleiðanda og stjórnmálamanns sem hét einnig Robert Peel og var því fyrsti forsætisráðherra Bretlands sem kom úr stétt iðnaðarmanna. Hann hlaut menntun í grunnskólum í Bury, Hipperholme og Harrow og tók framhaldsnám í fornfræði og stærðfræði í skólanum Christ Church í Oxford. Hann gekk á neðri deild breska þingsins árið 1809 með stuðningi föður síns og Sir Arthurs Wellesley, sem síðar varð hertoginn af Wellington. Peel fékk á sig orðstír fyrir að vera rísandi stjarna Íhaldsmanna og gegndi ýmsum minniháttar ráðherraembættum. Hann var þar á meðal Írlandsmálaráðherra og formaður nefndar sem rannsakaði hvort hægt yrði að koma breska efnahaginum á gullfót.

Peel gekk í ríkisstjórn í fyrsta sinn sem innanríkisráðherra árið 1822. Sem slíkur kom hann á umbótum í breskri lögsögu og bjó til nútímalögreglusveitir. Nýju lögregluembættin voru gjarnan nefnd eftir honum sem „bonnies“ og „peelers“ í daglegu tali. Peel felldi niður verndartolla til þess að kynda undir milliríkjaverslun og kom þeirra í stað á þriggja prósenta tekjuskatti árið 1842. Hann átti mikinn þátt í því að koma á frjálsri verslun á fimmta áratugnum og setti á fót nútímabankakerfi. Eftir að Liverpool lávarður sagði af sér sem forsætisráðherra tók lærifaðir Peel, hertoginn af Wellington, við embættinu og réð Peel á ný sem innanríkisráðherra eftir stutt hlé hans frá embættinu. Peel studdi í fyrstu áframhaldandi lagalega mismunun gegn breskum kaþólikkum en féllst að endingu á að styðja það að kaþólskir hlytu öll lagaleg réttindi á ný þeð þeim rökum að frelsun kaþólikkanna væri hættuleg en enn hættulegra yrði að steypa Bretlandi í óeirðir.

Árið 1830 komust Viggar aftur til valda og Peel gekk í stjórnarandstöðu í fyrsta sinn. Eftir að Íhaldsmenn töpuðu kosningum í annað sinn tók Peel smám saman við stjórnartaumum flokksins af Wellington. Þegar Vilhjálmur 4. Bretakonungur bað Wellington að gerast forsætisráðherra á ný í nóvember 1834 afþakkaði hann og Peel tók hans í stað við embættinu. Peel gaf út Tamworth-ávarpið árið 1834 og lagði í því drög að öllum helstu gildum sem breski Íhaldsflokkurinn átti að beita sér fyrir. Fyrsta ríkisstjórn Peel var minnihlutastjórn sem sat með stuðningi Vigga. Peel gengdi þar bæði embætti forsætisráðherra og fjármálaráðherra. Eftir aðeins fjóra mánuði sprakk ríkisstjórnin og Peel gekk aftur í stjórnarandstöðu í stjórnartíð Melbourne vísigreifa (1835–1841). Peel neitaði að leiða aðra minnihlutastjórn í maí árið 1839 að beiðni Viktoríu drottningar en varð loks forsætisráðherra á ný eftir þingkosningar árið 1841. Seinni ríkisstjórn hans sat í fimm ár og kom á ýmsum mikilvægum lagabreytingum: Hún bannaði börnum yngri en tíu ára að vinna í kolanámum (1842), setti nýja tekjuskatta (1844) og skyldaði járnbrautareigendur til að reka lestir sem almenningur gæti haft efni á að ferðast í (1844).

Ríkisstjórn Peel leið fyrir það að mikið var um hatur á Írum og kaþólikkum í Bretlandi, sér í lagi eftir að ríkisstjórnin hækkaði fjárframlög til Írlands árið 1845. Þegar hallærið mikla braust út á Írlandi gekk Peel til liðs við Vigga og Róttæklinga og nam úr gildi Kornlögin svokölluðu, sem höfðu skattlagt innflutning á korni til Írlands og stuðlað að hungursneyðinni sem geisaði þar. Peel neyddist í kjölfarið til að segja af sér. Hann var þó áfram áhrifamikill í breskum stjórnmálum þar til hann lést árið 1850.

Peel átti til að standa í fyrstu með Íhaldsmönnum í andstöðu við ýmsar aðgerðir en skipta síðan um skoðum og styðja lagatillögur Frjálslyndra. Þannig breytti hann afstöðu sinni til réttinda kaþólikkanna, tekjuskattsins og loks kornlaganna. Peel tókst að nema kornlögin úr gildi með stuðningi Vigganna á þinginu og þurfti að kljást við andófsmenn úr eigin flokki. Andstæðingum hans fannst hann hafa svikið málstað Íhaldsmanna og kölluðu hann „frjálslyndan úlf í sauðargæru“ þar sem hann studdi að endingu tillögur frjálslyndra.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Frjettir er ná til nýárs 1847, Skírnir (01.01.1847), bls. 3-162.
  2. Richard A. Gaunt (2010). Sir Robert Peel: The Life and Legacy. I.B.Tauris. bls. 3.


Fyrirrennari:
Hertoginn af Wellington
Forsætisráðherra Bretlands
(10. desember 18348. apríl 1835)
Eftirmaður:
Vísigreifinn af Melbourne
Fyrirrennari:
Vísigreifinn af Melbourne
Forsætisráðherra Bretlands
(30. ágúst 184129. júní 1846)
Eftirmaður:
Jarlinn af Russell