Íþróttafélagið Huginn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Íþróttafélagið Huginn er íþróttafélag á Seyðisfirði. Það var stofnað árið 1913, og innan félagsins hafa margar íþróttagreinar verið iðkaðar, svo sem knattspyrna, handbolti, skíða, sund, blak, badminton og frjálsar íþróttir. Starfið hefur verið hvað öflugast undanfarin ár í knattspyrnu, auk þess sem skíðaiðkun hefur átt stóran sess, enda er skíðasvæðið í Stafdal, í Seyðisfirði. Árið 2008 var stofnað skíðafélagið SKÍS(Skíðafélagið í Stafdal) og er það sameiginlegt skíðfélag Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs, hætti þá skíðaiðakun undir merkjum Hugins. Þar að auki hefur blak sótt í sig veðrið á Seyðisfirði og hefur félagið sent lið til keppni á Öldungamóti í blaki bæði í karla og kvennaflokki um árabil. Íþróttafélagið Huginn hefur aðsetur í íþróttahúsi bæjarins sem er byggt við félagsheimilið Herðubreið. Heimavöllur knattspyrnuliðs Hugins er staðsettur við Garðarsveg, innan við sjúkrahús bæjarins og leikskóla. Hann er oft kallaður Seyðisfjarðarvöllur eða Garðarsvöllur, sem er þá vísun í götuna sem völlurinn liggur hjá.

Knattspyrna[breyta | breyta frumkóða]

Árin 2001 og 2002 léku Huginn og Höttur sameiginlega undir nafninu Huginn/Höttur í 3.deild. Bæði árin lenti liðið í 3.sæti D-riðils á eftir Fjarðabyggð og Leikni Fáskrúðsfirði.

Árið 2003 lenti Huginn í 3.sæti D-riðils á eftir Hetti og Fjarðabyggð. Markahæstu menn liðsins voru Tómas Arnar Emilsson sem skoraði 9 mörk í 15 leikjum, Guðmundur Þórir Guðjónsson sem skoraði 8 mörk í 13 leikjum og Jóhann Björn Sveinbjörnsson sem skoraði 8 mörk í 14 leikjum.

Árið 2004 lenti Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildar á Íslandi og fór því í úrslitakeppnina. Þar sigraði liðið Hvöt og Skallagrím áður en það sigraði Fjarðabyggð í úrslitaleiknum um 1.sætið og varð því 3.deildarmeistari 2004. Markahæsti leikmaður liðsins var Sveinbjörn Jónasson með 9 mörk, 4 í riðlakeppninni og 5 í úrslitakeppninni.

Árið 2005 endaði Huginn í 8.sæti 2.deildar (C-deild) og hélt því sæti sínu. Markahæsti leikmaður liðsins var Mikael Nikulásson með 8 mörk í 18 leikjum.

Árið 2006 endaði Huginn í 10. og síðasta sæti 2.deildar (C) og féll því niður í 3.deild. Markahæsti leikmaður liðsins var Jeppe Opstrup, sem skoraði 10 mörk í 15 leikjum.

Árið 2007 endaði Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildarinnar á Íslandi og fór því í úrslitakeppnina. Þar tapaði liðið fyrir BÍ/Bolungarvík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Markahæsti leikmaður liðsins var Sveinbjörn Jónasson en hann skoraði 15 mörk í 12 leikjum í 3.deild.

Árið 2008 endaði Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildarinnar á Íslandi og fór í úrslitakeppnina. Þar tapaði liðið aftur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, en í þetta skipti fyrir Skallagrím. Markahæsti leikmaður liðsins var Birgir Hákon Jóhannsson með 13 mörk í 12 leikjum, en hann hafði komið til liðsins frá Hetti fyrir tímabilið.

Árið 2009 endaði Huginn í 2.sæti D-riðils 3.deildarinnar á Íslandi og fór í úrslitakeppnina, þriðja árið í röð. Enn og aftur féll liðið úr keppni í fyrstu umferð úrslitanna eða 8 liða úrslitum. Í þetta skiptið var það KV sem fór áfram á kostnað Hugins. Markahæsti leikmaður Hugins 2009 var Friðjón Gunnlaugsson með 6 mörk úr 17 leikjum.

Árið 2010 endaði Huginn í 5 sæti D-riðils 3. deildarinnar á Íslandi. Markahæstir voru Friðjón Gunnlaugsson og Jack Hands með 5 mörk hvor.

Árið 2011 endaði Huginn aftur í 5. sæti D-riðils 3. deildarinnar á Íslandi. Markahæstur var Birgir Hákon Jóhannsson með 6 mörk.

Árið 2012 endaði Huginn í 1. sæti D-riðils 3. deildarinnar á Íslandi. Liðið komst því í úrslitakeppnina og lék við Ægi frá Þorlákshöfn í 8 liða úrslitum. Fyrri leikurinn fór fram í Þorlákshöfn og lauk með sigri Ægis, 1-0. Seinni leikurinn fór fram á Seyðisfirði og lauk honum með jafntefli, 1-1. Huginn datt þar með úr leik um að keppa um sæti í 2. deild, en ávann sér rétt til þess að leika í nýrri 10 liða 3. deild á næsta ári.