Brennivín

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Hálfs lítra brennivínspeli.

Brennivín er íslenskt brennt vín bruggað úr gerjuðum kartöflum, líkt og vodki, og kryddaður með kúmeni. Það er stundum kallað „svarti dauði“. Brennivín er með 37,5% áfengisinnihald. Flöskurnar eru grænar með svörtum miða með hvítum eða silfruðum hring og nafninu yfir. Inni í hringnum stóð áður skammstöfunin ÁTVR en nú er þar útlínumynd af Íslandi. Tilgangurinn með svarta miðanum var upphaflega sá að gera flöskuna fráhrindandi. Lengst af hefur brennivín þótt vera vondur drykkur, bæði vegna mikils áfengisinnihalds og vegna þess að það var ódýrasta sterka vínið sem fékkst á Íslandi. Þetta orðspor hefur smám saman verið að breytast. Brennivín er nú oftast drukkið sem snafs en áður fyrr var algengt að drekka það blandað með vatni eða kóki.

Nafnið brennivín var áður notað um ýmis brennd vín sem danskir kaupmenn fluttu inn til landsins á tímum einokunarverslunarinnar og voru upphaflega brugguð úr rúgi. Þessi vín höfðu hátt áfengisinnihald þar sem þannig fékkst fyrir þau hærra verð miðað við magn sem gerði flutninginn hagkvæmari. Nafnið er notað í bæði Danmörku (brændevin) og Svíþjóð (brännvin) yfir ákavíti.

Brennivín var upphaflega framleitt af Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins frá lokum áfengisbannsins 1. febrúar 1935 til 26. júní 1992 þegar Vífilfell tók við framleiðslunni. Það er nú framleitt af Ölgerðinni.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]