Bjórlíki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjórlíki er blandaður áfengur drykkur sem var vinsæll um stutt skeið á Íslandi á 9. áratug 20. aldar þegar ekki mátti selja þar bjór en kráarmenning var að ryðja sér til rúms að erlendri fyrirmynd. Fyrsta eiginlega ölkráin sem opnaði í Reykjavík var Gaukur á Stöng sem var innréttaður að þýskri fyrirmynd. Barþjónar á staðnum tóku upp á því að blanda kláravíni, vodka og viskýi í léttöl og gera þannig drykk sem var um 5% að styrkleika og minnti á bjór. Þessi drykkur varð talsvert vinsæll og fleiri staðir tóku hann upp og gerðu sína eigin útgáfu af honum. Flestum bar þó saman um að bjórlíkið stæðist engan veginn samanburð við fyrirmyndina og var jafnvel litið á sölu þess sem storkun gagnvart bjórbanninu, en þá voru uppi háværar raddir um afnám þess.

Vegna kvartana yfir hinni nýju kráarmenningu, sóðaskap og illri umgengni í kringum krárnar, sem einkum var kennd drykknum, ákvað dómsmálaráðherra að banna sölu hans 1985. Sama ár gerði lögreglan upptæk tæki til blöndunar bjórlíkis sem fengust hjá Ámunni. Eigandi Ámunnar Guttormur P. Einarsson var síðar dæmdur fyrir að hafa blandað bjórlíki og selt undir merkjum Bjórsamlagsins.

  Þessi matar eða drykkjargrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.