Germálið
Germálið eða gereyðingarmálið var mikið hitamál veturinn 1978-1979 þegar fjármálaráðherra í annarri ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar, Tómas Árnason úr Framsóknarflokki vildi gera breytingar á lögum um einkasölu ríkisins á áfengi og tóbaki (ÁTVR) þannig að þau næðu líka til innflutnings á ölgerðarefnum sem fyrirtækið Áman hafði tekið að flytja inn árið 1973. Einkum stóð til að taka allt ger út af svokölluðum „frílista“ yfir vörur sem hver sem er mátti flytja inn. Sala á áfengum bjór var þá bönnuð en „bjórfrumvarp“ var reglulega lagt fram til að aflétta banninu. Slíkt frumvarp var hins vegar ekki samþykkt fyrr en árið 1988. Heimabruggun var með öllu bönnuð.
Áfengisverzlun ríkisins hafði raunar haft einkarétt á innflutningi og sölu bæði pressugers og þurrgers frá 1928 og seldi þá pressugerið aðeins til bakara en þurrgerið mátti kaupa í náttúrulækningabúðum NLFÍ. Bakarar sem uppvísir urðu að því að selja pressuger áttu á hættu að vera sektaðir. Á 7. áratugnum var talsverð umræða um gerbakstur og námskeið haldin víða um land. Talað var um að gerbakstur væri hollari en bakstur með lyftidufti og barðist Húsmæðrafélag Reykjavíkur fyrir því að sala á geri yrði gefin frjáls líkt og í nágrannalöndunum. Um 1970 var ger svo sett á frílista sem þýddi að hver sem var mátti flytja það inn og selja.
Árið 1973 hóf fyrirtæki Guttorms Einarssonar, Hafplast, innflutning á geri og malti sem þeir settu saman í „kitt“ fyrir heimabruggun öls og seldu. Umræða um þennan innflutning kom upp á Alþingi árið 1974 en lögreglurannsókn leiddi í ljós að ekkert var ólöglegt við hann. Guttormur stofnaði svo Ámuna, sérverslun með öl- og víngerðarefni, árið 1978.
Meðal þeirra ástæðna sem nefndar voru í greinargerð með gereyðingarfrumvarpinu var að tekjur af áfengissölu ríkisins árið 1978 höfðu reynst langt undir væntingum og var heimabruggun kennt um. Var þessu gjarnan stillt upp þannig að ríkið hygðist banna sölu á geri annars staðar en í ÁTVR og koma á virku eftirliti með innflutningi gers og sætuefna á borð við malt sem hægt væri að nota í ölgerð. Fjöldi lesendabréfa barst blöðunum þar sem húsmæður óttuðust að þurfa að fara í vínbúðir ÁTVR eftir geri til baksturs yrði frumvarpið að veruleika.
Í febrúar 1979 lögðu nokkrir þingmenn svo fram frumvarp um breytingar á áfengislöggjöfinni þar sem gert var ráð fyrir lækkun áfengiskaupaaldurs í átján ár og að opnunartími vínveitingastaða yrði gefinn frjáls. Þingmennirnir voru Ellert B. Schram, Vilmundur Gylfason, Friðrik Sophusson og Eiður Guðnason. Þeir færðu meðal annars þau rök fyrir máli sínu að þáverandi áfengislöggjöf væri gengin sér til húðar og að flestir landsmenn gerðust reglulega brotlegir við hana. Þessar breytingar náðu ekki í gegn en eins fór fyrir stjórnarfrumvarpi fjármálaráðherra sem dagaði uppi eftir nokkra umræðu vorið 1979 og kom aldrei til atkvæðagreiðslu.