Borg brugghús

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Borg brugghús er íslenskt sælkerabrugghús sem rekið er af Ölgerðinni Agli Skallagrímssyni og innan vébanda hennar. Borg brugghús er öðrum þræði vöruþróunardeild Ölgerðarinnar, þar sem vinsælir bjórar geta farið í fjöldaframleiðslu í aðalbrugghúsinu. Margir Borgarbjóranna hafa unnið til verðlauna í alþjóðlegum keppnum.

Bruggmeistararnir[breyta | breyta frumkóða]

Sturlaugur Jón Björnsson var eini bruggmeistari Borgar fyrst eftir stofnun. Fljótlega bættist Valgeir Valgeirsson við, en hann hafði áður verið bruggmeistari í Ölvisholti. Árni Theodór Long, sem einnig starfaði um skeið í Ölvisholti, slóst síðar í hópinn og eftir að Hlynur Árnason hóf störf eru bruggmeistararnir orðnir fjórir talsins. Allir hafa þeir starfað við erlend brugghús.

Bjórarnir[breyta | breyta frumkóða]

Nær allir bjórar frá Borg brugghús eiga það sameiginlegt að bera karlmanns- eða kvenmannsnöfn, ásamt raðnúmeri. Flöskumiðarnir eru allir í sama stíl, en þó mismundandi á litinn. Þannig eru jólabjórar með rauðan miða, þorrabjórar eru svartir, páskabjórarar ljósgulir, sumarbjórar grænir og Októberfestbjórarnir fjólubláir. Ljósbrúnn miði gefur til kynna að bjórinn sé í fastri sölu allan ársins hring.

Unnið er með ákveðin þemu í tengslum við árstíðarbjóranna. Þorrabjórarnir bera t.d. allir nafnið Surtur og tilheyra bjórstílnum Imperial Stout, en uppskriftin er þó ólík frá ári til árs. Margir Surta-bjóranna bera raðnúmer með aukastaf. Í þeim tilvikum er um að ræða bjór sem hefur fengið að áframþroskast í viðartunnum undan hinum ýmsu áfengistegundum. Samhliða Surti, hefur Borg stundum sent frá sér mjöð á þorranum, sem nefndur hefur verið eftir persónum úr norrænni goðafræði.

Páskabjórarnir eru flestir bruggaðir í stíl belgískra munkabjóra og heita nöfnum sem tengjast munklífi og kristinni trú. Októberfestbjórarnir heita yfirleitt þýskum nöfnum og eru bragðmiklir lagerbjórar. Humluðustu bjórarnir heita margir nöfnum sem tengjast úlfum með einhverjum hætti. Skýringin er sú að latneskt heiti humlaplöntunnar er Humulus Lupulus, en seinni hluti þess merkir í raun lítill úlfur.

2010[breyta | breyta frumkóða]

 • Nr. 1 Bríó, 4,7%, pilsnerbjór með miklu humlabragði. Bríó var þróaður í samvinnu við Ölstofu Kormáks & Skjaldar, sem húsbjór fyrir staðinn og var einvörðungu framleiddur á bjórkúta. Framleiðslan var færð yfir í aðalbrugghús Ölgerðarinnar og Bríó fór í almenna sölu.
 • Nr. 2 Austur, 4,5%, brúnöl. Bjórinn var þróaður í samvinnu við veitingahúsið Austur og reyndist skammlífur. Bjórinn fór aldrei í neytendaumbúðir.
 • Nr. 3 Úlfur, 5,9%, India Pale Ale. Humlaríkt öl samkvæmt norður-amerísku IPA-hefðinni.
 • Nr. 4 Bjartur, 5,0%, blond-lagerbjór. Bjartur varð skammlífur í almennri sölu sem Borgar-bjór, en hefur öðlast framhaldslíf undir heitinu Sumar-Gull frá Ölgerðinni.
 • Nr. 5 Október, 4,6%, Märzen-lagerbjór í anda þýskra Októberfestbjóra.
 • Nr. 6 Skógarpúki, 4,5%, lagerbjór. Bjórinn var fyrst bruggaður fyrir ársþing kornræktarbænda, enda alfarið úr íslensku byggi. Lítillega breytt uppskrift af Skógarpúka hefur verið seld undir heitinu Þorra-Gull frá Ölgerðinni.
 • Nr. 7 Stekkjarstaur, 5,7%, brúnöl. Fyrsti jólabjór Borgar og sá fyrsti sem fékk flöskumiða í öðrum lit en hinum hefðbundna ljósbrúna.

2011[breyta | breyta frumkóða]

 • Nr. 8 Surtur, 12,0%, Imperial stout. Var á sínum tíma langsterkasti íslenski bjórinn sem framleiddur hafði verið. Nafnið er dregið af jötninum Surti frá Múspellsheimi í norrænni goðafræði. Fyrsti þorrabjór Borgar.
 • Nr. 9 Benedikt, 9,0%, belgískur klausturbjór. Fyrsti páskabjór Borgar og er nafnið valið sem dæmigert kaþólskt munkaheiti.
 • Nr. 10 Snorri, 5,3%, íslenskt heiðaröl. Alfarið bruggaður með innlendu byggi og kryddaður með blóðbergi.
 • Nr. 11 Sumarliði, 6,0%, hveitibjór samkvæmt hefðbundinni suður-þýskri aðferð. Fyrsti sumarbjór Borgar.
 • Nr. 12 Lúðvík, 8,0%, dobbelbock. Sterkur og dökkur lagerbjór samkvæmt þýskri hefð. Nafnið er dregið af Lúðvík krónprins í Bæjaralandi, en upphaf Októberfest-hefðarinnar er stundum rakið til brúðkaupsveislu hans.
 • Nr. 13 Myrkvi, 6,0%, kaffibættur porter.
 • Nr. 14 Giljagaur, 10,0%, barleywine. Rammsterkt rauðleitt öl. Annar jólabjór Borgar.

2012[breyta | breyta frumkóða]

 • Nr. 15 Surtur, 9,0%, Imperial stout. Bruggaður með þremur stofnum af belgísku ölgeri. Annar þorrabjór Borgar
 • Nr. 16 Júdas, 10,5%, quadrupel. Belgískur klausturbjór. Annar páskabjór Borgar.
 • Nr. 17 Úlfur úlfur, 9,0%, double IPA. Mjög humlaður og beiskur bjór. Fór fyrst í verslanir ÁTVR þann 1. apríl og kom út árlega fyrstu árin, en hefur í seinni tíð verið í nokkuð stöðugri sölu.
 • Nr. 18 Ástríkur, 10,0%, belgískur klausturbjór. Kom út í tengslum við gleðigönguna í Reykjavík sama sumar, enda með regnbogalitaðan flöskumiða.
 • Nr. 19 Garún, 11,5%, Imperial stout. Náskyldur Surti nr.8, en einkum ætlaður til útflutning og því skilgreindur sem Icelandic stout á flöskumiða.
 • Nr. 20 Teresa, 5,5%, humlaður, rauðleitur lagerbjór. Dregur nafn sitt af Teresu prinsessu sem gekk að eiga Lúðvík krónprins (sjá Lúðvík nr.12). Annar Októberfestbjór Borgar.
 • Nr. 21 Stúfur, 2,26%, veikt en afar bragðmikið öl. Áfengisprósentan í Stúfi var 0,01 hærri en svo að heimilt væri að selja hann í almennum verslunum. Bjórinn var þó mjög bragðsterkur, meðal annars vegna einiberja og taðreykts malts, auk þess sem piparkökum var bætt út í bjórinn. Þriðji jólabjór Borgar.