Fara í innihald

Sanitas (gosdrykkjagerð)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sanitas var gosdrykkjaverksmiðja sem var stofnuð 28. nóvember 1905. Fyrirtækið stofnaði Gísli Guðmundsson gerlafræðingur, Guðmundur Ólafsson í Nýjabæ og Jón Jónsson í Melshúsum. Fyrirtækið hóf starfsemi sína á Seltjarnarnesi, nánar tiltekið í Melshúsatúninu.

Árið 1916 keypti Loftur Guðmundsson, hinn kunni kvikmyndagerðarmaður, fyrirtækið en seldi það Sigurði Waage árið 1924. Undir stjórn Sigurðar óx Sanitas og dafnaði að Lindargötu 9 í Reykjavík, þar sem verkamannafélagið Dagsbrún var síðar til húsa. Árið 1939 var fyrirtækinu breytt í hlutafélag og skömmu síðar urðu þáttskil er Sanitas hf. fékk einkaumboð fyrir Pepsi Cola og var það fyrsta umboð þessa þekkta bandaríska gosdrykkjar í Evrópu. Árið 1958 flutti fyrirtækið að Köllunarklettsvegi í Reykjavík og var jafnframt aukið við vélakostinn. Sigurður Waage var framkvæmdastjóri Sanitas hf. til dauðadags árið 1976. Tóku sonur hans Sigurður S. Waage og tengdasonur Björn Þorláksson við framkvæmdastjórn. Þeir gengu fljótlega frá samningi við Sana hf. á Akureyri, sem þá var orðið meirihlutaeign Páls G. Jónssonar, um að Sanitas hf. dreifði öli fyrir Sana hf. Sanitas hf. átti í verulegum rekstrarörðugleikum um þetta leyti og lenti fljótlega í vanskilum við Sana hf. á Akureyri. Páll keypti síðan hluti í Sanitas hf. til að styrkja fyrirtækið og efla dreifingarnet þess.

Sanitas og Sana hf. voru sameinuð 1978. Árið 1991 keypti Pharmaco Sanitas og setti gosframleiðslu fyrirtækisins inn í nýja fyrirtækið Gosan. Tap varð á Sanitas eftir þetta, meðal annars vegna verðstríðs við Ölgerðina. Árið eftir keypti Ölgerðin Egill Skallagrímsson framleiðslurétti fyrirtækisins, meðal annars fyrir Pepsi Cola. Árið 1993 var Sanitas lýst gjaldþrota. Það var þá talið eignalaust. Sama ár keypti rússneskt fyrirtæki í Sankti Pétursborg, Baltic Bottling Plant, gosdrykkjaverksmiðju Gosans í Reykjavík. Það varð upphafið að bruggverksmiðjunni Bravo Premium sem Björgólfur Thor Björgólfsson, Magnús Þorsteinsson og Björgólfur Guðmundsson stofnuðu í Rússlandi. Björgúlfur Thor og Magnús höfðu áður starfað hjá Pharmaco og Björgúlfur Guðmundsson var forstjóri Gosan árið 1992.

Viking hf. hóf ölframleiðslu í verksmiðju Sanitas á Akureyri árið 1994 og 1997 sameinaðist fyrirtækið Sól hf og til varð Sól-Víking. Það fyrirtæki sameinaðist síðan Vífilfelli undir merkjum þess síðarnefnda. Vífilfell heitir í dag Coca-Cola European Partners Ísland ehf.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.