Fara í innihald

Pilsner

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orðið pilsner getur á Íslandi líka átt við um ljóst léttöl.
Glös með Pilsner Urquell.

Pilsner er ljóst lageröl sem dregur nafn sitt af borginni Plzeň í Bæheimi þar sem þessi tegund bjórs var þróuð um miðja 19. öld. Helsti munurinn á pilsner og öðrum ljósum lagerbjór er meira humlabragð einkum af saaz-humlum frá Tékklandi. Fyrsti pilsnerinn var Pilsner Urquell sem farið var að framleiða árið 1842.

Árið 1839 stofnaði borgarstjórn bæjarins brugghúsið Bürger Brauerei og fékk bæverskan bruggmeistara, Josef Groll, til að brugga þar bjór í bæverskum stíl. Þá voru Bæverjar nýbyrjaðir að gerja bjór á löngum tíma í köldum geymslum við minna en 10 °C hita. Þessi aðferð skilar tærari og stöðugri bjór með hreinna bragð og meira geymsluþol en hefðbundið öl. Groll nýtti sér líka nýja tegund af mjög ljósu malti sem var bakað með óbeinum hita og tékkneska saaz-humla frá Žatec (Saaz á þýsku). Niðurstaðan var ljósgullinn bjór sem sló í gegn. Með bættum lestarsamgöngum var bjórinn fluttur út um alla Mið-Evrópu og brátt tóku önnur brugghús að gera eftirlíkingar. Árið 1898 var vörumerkið Pilsner Urquell búið til fyrir hina upprunalegu tegund frá Bürger Brauerei.

Dæmi um ólíkar gerðir pilsnera[breyta | breyta frumkóða]

Þýskur pilsner[breyta | breyta frumkóða]

Þýskur pilsner er ljósgulur, skarpur og beiskur: Jever, Beck's, Bitburger, Holsten, König, Krombacher, Radeberger, Veltins, Warsteiner, Wernesgrüner.

Tékkneskur/bæheimskur pilsner[breyta | breyta frumkóða]

Tékkneskur pilsner er bragðmeiri og aðeins dekkri en sá þýski: Pilsner Urquell, Gambrinus, Kozel, Svijany, Staropramen, Radegast, Tuzlanski pilsner.

Evrópskur pilsner[breyta | breyta frumkóða]

Evrópskur pilsner (frá Hollandi og Belgíu) er oft bruggaður með maís, hrísgrjónum og hveiti ásamt malti: Amstel, Grolsch, Heineken, Jupiler, Stella Artois.