Pilsner

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Orðið pilsner getur á Íslandi líka átt við um ljóst léttöl.
Glös með Pilsner Urquell.

Pilsner er ljóst lageröl sem dregur nafn sitt af borginni Plzeň í Bæheimi þar sem þessi tegund bjórs var þróuð um miðja 19. öld. Helsti munurinn á pilsner og öðrum ljósum lager er meira humlabragð einkum af saaz-humlum frá Tékklandi.

1839 stofnaði borgarstjórn bæjarins brugghúsið Bürger Brauerei og fékk bæverskan bruggmeistara, Josef Groll, til að brugga þar bjór í bæverskum stíl. Þá voru Bæjarar nýbyrjaðir að gerja bjór á löngum tíma í köldum geymslum við minna en 10 °C hita. Þessi aðferð skilar tærari og stöðugri bjór með hreinna bragð og meira geymsluþol en hefðbundið öl. Groll nýtti sér líka nýja tegund af mjög ljósu malti og tékkneska saaz-humla frá Žatec (Saaz á þýsku). Niðurstaðan var ljósgullinn bjór sem sló í gegn. Með bættum lestarsamgöngum var bjórinn fluttur út um alla Mið-Evrópu og brátt tóku önnur brugghús að gera eftirlíkingar. 1898 var vörumerkið Pilsner Urquell búið til fyrir hina upprunalegu tegund frá Bürger Brauerei.

Dæmi um ólíkar gerðir pilsnera[breyta | breyta frumkóða]

Þýskur pilsner[breyta | breyta frumkóða]

Þýskur pilsner er ljósgulur, skarpur og beiskur: Jever, Beck's, Bitburger, Holsten, König, Krombacher, Radeberger, Veltins, Warsteiner, Wernesgrüner.

Tékkneskur/bæheimskur pilsner[breyta | breyta frumkóða]

Tékkneskur pilsner er bragðmeiri og aðeins dekkri en sá þýski: Pilsner Urquell, Gambrinus, Kozel, Svijany, Staropramen, Radegast, Tuzlanski pilsner.

Evrópskur pilsner[breyta | breyta frumkóða]

Evrópskur pilsner (frá Hollandi og Belgíu) er oft bruggaður með maís, hrísgrjónum og hveiti ásamt malti: Amstel, Grolsch, Heineken, Jupiler, Stella Artois.