Gnúpverjaafréttur
Gnúpverjaafréttur er sá hluti Miðhálendisins sem bændur í hinum forna Gnúpverjahreppi reka fé sitt á. Afrétturinn nær frá Þjórsárdal inn með Þjórsá alla leið inn að Hofsjökli. Vesturmörk hans eru Fossá, síðar Öræfavatn og Öræfahnjúkur í hátind Arnarfells hins mikla. Gnúpverjar hafa í nokkurn tíma stundað samsmölun með Flóa- og Skeiðamönnum. Réttir í Skaftholtsréttum eru á föstudegi í 22. viku sumars.
Leitir[breyta | breyta frumkóða]
Lengsta leit á Gnúpverjaafrétt kallast Langaleit eða Sandleit. Seinna nafnið kemur til vegna þess að fjallmenn fara inn fyrir svokallaðan Fjórðungssand, alla leið inn að Arnarfelli hinu mikla. Í Lönguleit fara þrír menn; fjallkóngur, einn fjallmaður og trússari. Með þeim fara líka einn Flóamaður og einn Skeiðamaður. Leggja Lönguleitara af stað á þriðjudegi, 9 dögum fyrir réttir. Lönguleitarar stunda ekki bara smalamennsku heldur dytta að kofum og lagfæra vegi á afréttinum. Áður fyrr eitruðu þeir einnig fyrir tófu, en því hefur nú verið hætt.
Næst lengsta leit kallast Norðurleit og er lagt af stað laugardeginum fyrir réttir. Norðurleitarar eru 4 frá Gnúpverjum og 4 frá Flóa- og Skeiðamönnum. Þeir fara alla leið í Bjarnalækjarbotna.
Dalsármenn kallast þeir sem leggja af stað á sunnudegi. Að Dalsá fara 18 menn og oft aukamenn. Þeir fara í Gljúfurleitarkofann og ríða á þriðjudeginum inn að Dalsá, í svokallaða Skiptibrík, þar sem þeir hitta fjallkónginn. Hann skipar í leitir.
Atburðir á afréttinum[breyta | breyta frumkóða]
Í eftirleit árið 1917 hrepptu eftirleitarar moldöskubyl. Þeir voru heppnir að koma lífs af eins og má lesa í Gnúpverjanum árið 1951.
Sigurgeir Runólfsson í Skáldabúðum, þá fjallkóngur Gnúpverja, lést 10. september 1976 þegar hann drukknaði í jökulkeri í leit sinni að lambi upp undir jökli.
Haustið 2005 kom maður ríðandi vestur yfir Þjórsá er hann taldi sig vera að ríða yfir bergvatnsáanna Svartá á Holtamannaafrétti. Hann komst í hendur Gnúpverja og fylgdu þeir honum yfir Sóleyjarhöfðavað daginn eftir.
Heimild[breyta | breyta frumkóða]
- Gnúpverjinn 1951. Útgefandi er Ungmennafélag Gnúpverja.