Spencer Compton, jarl af Wilmington
Jarlinn af Wilmington | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 16. febrúar 1742 – 2. júlí 1743 | |
Þjóðhöfðingi | Georg 2. |
Forveri | Robert Walpole |
Eftirmaður | Henry Pelham |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | U.þ.b. 1673 Compton Wynyates, Warwickshire, Englandi |
Látinn | 2. júlí 1743 St James's, Middlesex, Englandi |
Þjóðerni | Breskur |
Stjórnmálaflokkur | Viggar |
Trúarbrögð | Enska biskupakirkjan |
Háskóli | Trinity College, Oxford |
Undirskrift |
Spencer Compton, fyrsti jarlinn af Wilmington, (u.þ.b. 1673 – 2. júlí 1743) var breskur stjórnmálamaður sem sat í ríkisstjórn Bretlands frá árinu 1715 til dauðadags. Frá 16. febrúar 1742 var hann forsætisráðherra Bretlands. Hann var annar í því embætti á eftir Robert Walpole en á ráðherratíð Wilmingtons var hann mestan part leiksoppur innanríkisráðherrans Carteret lávarðar. Wilmington var úr röð breskra Vigga líkt og forveri sinn.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Spencer Compton var þriðji sonur James Comptons, þriðja jarlsins af Northampton. Compton gekk á neðri deild breska þingsins í fyrsta sinn árið 1698. Fjölskylda Comptons var hlyntt Tory-mönnum (þ.e.a.s. Íhaldsmönnum) en Spencer Compton gekk til liðs við Vigga eftir að hafa lent í ósætti við bróður sinn, George Compton. Compton varð fljótt áberandi meðal Vigga á þingi og varð náinn samstarfsmaður Roberts Walpole í rúm fjörutíu ár.
Árið 1707 varð Compton lífeyrisstjóri (Paymaster of Pensions). Hann gegndi þessu embætti í sex ár þótt þingsetu hans lyki árið 1710 og Íhaldsmenn tækju völdin sama ár. Íhaldsmenn héldu Spencer í embætti þar sem þeir vildu viðhalda stuðningi Compton-fjölskyldunnar. Árið 1713 gekk Compton á neðri þingdeildina á ný. Þegar Viggar komust aftur í ríkisstjórn vonaðist Compton til þess að fá embætti í stjórninni en hafði ekki erindi sem erfiði. Hann varð þess í stað féhirðir prinsins af Wales (sem síðar varð Georg 2. Bretlandskonungur). Stuttu síðar var Compton kjörinn forseti neðri deildar breska þingsins. Hann gegndi því embætti frá 1715 til 1727. Frá 1716 gerðist hann meðlimur í breska leyndarráðinu. Þegar Viggaflokkurinn klofnaði árið 1717 stóð Compton með Walpole og gekk með honum í stjórnarandstöðu. Þrátt fyrir þetta hélt hann sæti sínu í leyndarráðinu til ársins 1720.
Walpole varð forsætisráðherra árið 1721. Óljóst var hvað myndi taka við þegar Georg 1. dæi og sonur hans tæki við sem konungur. Georg 2. var hrifnari af Compton en af Walpole og sagði nokkrum sinnum að hann vonaðist til þess að hann tæki við af honum. Til þess að koma í veg fyrir þetta hélt Walpole Compton á hliðarlínu ríkisstjórnarinnar. Hann var þó gerður að launastjóra (Paymaster General) frá 1722 til 1730. Árið 1725 varð Compton innsiglisstjóri (Lord Privy Seal) og riddari í Baðreglunni.
Georg 2. varð konungur árið 1727 og hafði hug á að skipta um ríkisstjórnarleiðtoga en Compton viðurkenndi á fundi með konungnum og Walpole að hann væri ekki starfinu vaxinn. Til þess að losna við Compton af neðri deild breska þingsins lét Walpole aðla Compton árið 1728 og var hann þaðan af kallaður Wilmington barón. Tveimur árum síðar varð hann Jarlinn af Wilmington og Pevensey vísigreifi auk þess sem hann varð forseti ríkisráðsins (Lord President of the Council) til ársins 1742. Í janúar næsta ár tók Wilmington við af Walpole sem fyrsti lávarður ríkisfjárhirslunnar (First Lord of the Treasury) og þar með forsætisráðherra en þótt Wilmington væri orðinn ríkisstjórnarleiðtogi að nafninu til fór Carteret lávarður með flest völd í stjórn hans. Heilsu Wilmingtons var nú farið að hraka og hann lést í embætti þann 2. júlí 1743. Þar sem Wilmington var ókvæntur og barnlaus voru allir aðalstitlar hans leystir upp eftir dauða hans.
Bæirnir Wilmington í Norður-Karólínu og Delaware eru nefndir eftir honum.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Spencer Compton, 1:e earl av Wilmington“ á sænsku útgáfu Wikipedia. Sótt 17. maí 2018.
Fyrirrennari: Robert Walpole |
|
Eftirmaður: Henry Pelham |