Vísindabyltingin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Titilsíða 2. útgáfu bókar Kópernikusar De revolutionibus orbium coelestium í Basel, 1566.

Vísindabyltingin er tímabil í mannkynssögunni sem fyrst og fremst tengt við 16. og 17. öldina þar sem nýjar, byltingarkenndar hugmyndir komu fram og ný vitneskja í mörgum fræðigreinum varð til. Þar ber helst að nefna eðlisfræði, stjörnufræði, líffræði, læknisfræði og efnafræði hvar fornar skoðanir og lögmál tengd náttúruvísundum fengu að víkja fyrir nýjum, er lögðu grunninn að nútíma vísindum.

Samkvæmt flestum málsmetandi mönnum hófst vísindabyltingin í Evrópu undir lok Endurreisnartímans og varði allt fram til loka 17. aldar er tímabil sem nefnist Upplýsingin hófst. Upphaf vísindabyltingarinnar má rekja til birtingar tveggja rita árið 1543 sem gjörbreyttu sýn manna á vísindi. Þau eru De revolutionibus orbium coelestium (Um snúning himintunglana) eftir Nikulás Kópernikus og De humani corporis fabrica (Um efni mannslíkamanns) eftir Andreas Vesalius.

Árið 1939 setti heimspekingurinn og sagnfræðingurinn Alexandre Koyré fram hugtakið „vísindabyltingin“ til að lýsa þessu mikilvæga tímabili mannkynssögunnar. Með þessu heiti er lögð áhersla á þá miklu og öru þróun raunvísinda sem átti sér stað.

Mikilvægi byltingarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Vísindi miðalda voru mikilvægur grundvöllur nútímavísinda. Marxíski sagnfræðingurinn og vísindamaðurinn JD Bernal hélt því fram að „Endurreisnin leiddi til vísindabyltingar sem gerði fræðimönnum kleift að líta á heiminn í öðru ljósi. Trúarbrögð, hjátrú og ótti fengu að víkja fyrir rökfræðilegri þekkingu“. James Hannam viðurkennir að þrátt fyrir að flestir sagnfræðingar telji eitthvað byltingarkennd hafi átt sér stað á þessum tíma, þá sé hugtakið „vísindabylting“ of djúpt í árinni tekið og í raun eitt af þeim skaðvænlegu sögulegu hugtökum sem notuð séu án þess að það útskýri í raun og veru neitt. Unnt væri að kalla hvaða öld sem er frá þeirri tólftu til þeirrar tuttugustu byltingu í vísindum og að hugtakið geri í raun ekkert annað en renna styrkari stoðum undir þá rangtúlkun að ekkert markvert hafi átt sér stað fyrir daga Kóperníkusar í heimi vísindanna. Þrátt fyrir nokkuð ólík sjónarmið gagnvart sumum trúarskoðunum, héldust hinsvegar margir nafntogaðir vísindamenn vísindabyltingarinnar guðræknir um alla sína tíð. Þar á meðal voru Nikulás Kópernikus, Tycho Brahe, Johannes Kepler, Galileo Galilei, René Descartes, Isaac Newton og Gottfried Leibniz.

Á tímum vísindabyltingarinnar varð grundvallarbreyting á vinnubrögðum og vísindalegri hugmyndafræði margra fræðigreina, þar á meðal í stærðfræði, eðlisfræði, stjörnufræði og líffræði. Vísindabyltingin leiddi beint til stofnunnar nokkurra nútíma vísindagreina. Joseph Ben-David skrifaði árið 1984: Aldrei nokkurn tímann hafði áður átt sér stað eins hröð uppsöfnun þekkingar og átti sér stað á 18. öld. Þessi nýja tegund vísindalegrar athafnasemi kom þó aðeins fram í fáeinum löndum í Vestur-Evrópu og var einskorðuð við það litla svæði næstu tvöhundruð árin. (Frá 20. öld hefur vísindaleg þekking hins vegar samlagast um allan heim).

Margir fræðimenn halda því fram að vísindabyltingin hafi ollið grundvallarbreytingu á heimsmynd manna, viðhorfi þeirra til vísindarannsókna og telja vísindabyltinguna þannig marka upphaf nútímavísinda.

Aðrir fræðimenn kjósa að taka ekki eins djúpt í árinni en álíta vísindabyltinguna engu að síður sem grundvallarbreytingu á hugsunarhætti manna. Þá hafa einnig komið fram fræðimenn sem hafna alfarið því að einhvers konar vísindabylting hafi átt sér stað. Félagsfræðingurinn og sagnfræðingurinn Stephen Shaphin heldur því fram í bók sinni, Vísindabyltingin, að ekkert slíkt fyrirbæri hafi átt sér stað. Hann tekur þó fram að þótt margir takast á um réttmæti og raunverulega þýðingu hugtaksins sé það mikilvægt engu að síður til að túlka umfangsmiklar breytingar í heimi vísinda.

Sumir fræðimenn halda fram þeirri skoðun að engin vísindabylting hafi orðið, í þeirri merkingu að um ákveðið tímabil hafi verið að ræða, heldur hafi þróun vísinda verið samfelld. Enn fremur telja sumir að vísindabyltingin, eins og hún er oftast skilgreind, miðist um of af því sem geriðst í Evrópu en horfi fram hjá þróun í vísindum í öðrum heimsálfum, þar á meðal í Indlandi og Kína.

Markverðir atburðir tengdir vísindum á tímabilinu[breyta | breyta frumkóða]

Helstu hugmyndir og merkir vísindamenn sem komu fram á sjónarsviðið á 16. og 17. öld:

 • Bók Evklíðs „Frumatriði“ kemur fyrst út árið 1482.
 • Nikulás Kópernikus (14731543) gefur út bók sína Um snúning himintunglanna árið 1543. Sólmiðjukenningin öðlast byr undir báða vængi.
 • Andreas Vesalius (15141564 ) gefur út bók sína Um efni mannslíkamans árið 1543. Þar afsannaði hann margar fornar skoðanir Rómverjans Galenosar er höfðu staðið óhaggaðar í mörg hundruð ár. Vesalius uppgötvaði að blóðflæði um líkamann stafi af starfsemi hjartans sem dælir blóði og dreifir því þannig um líkamann. Hann var einnig fyrstur manna til að setja saman beinagrind með því að setja saman mannsbein úr líkum.
 • Franciscus Vieta (15401603) gaf út Artem Analycitem Isagoge árið 1591 þar sem hann setti fram nýjar hugmyndir í stærðfræði, nánar til tekið algebru.
 • William Gilbert (15441603) gaf út verkið De Magnete, Magneticisque Corporibus, et de Magno Magnete Tellure árið 1600 og lýsti þar rannsóknum sínum á áhrifum og virkni seguls.
 • Tycho Brahe (15461601) gerði víðtækar og nákvæmar athuganir á plánetum sólkerfis okkar undir lok 16. aldar. Þessar athuganir löggðu grundvöllinn að rannsóknum Keplers.
 • Sir Francis Bacon (15611626) gefur út ritið Novum Organum árið 1620. Þar er nýju kerfi í þekkingarfræði og vísindalegri aðferð lýst sem stuðlaði síðan að þróun sem varð þekkt sem hin vísindalega aðferð.
 • Galileo Galilei (15641642) endurbætti sjónaukann og gerði fyrstur manna merkar og framúrskarandi athuganir með sjónauka á stjarnfræðilegum fyrirbærum. Hann leiddi einnig út lögmálið um jafna hröðun fallandi hlutar og sannreyndi það með tilraunum.
 • Johannes Kepler (15711630) gefur út rit árið 1609 þar sem hann sannar tvö af þremur lögmálum sem við hann eru kennd um sporbauga reikistjarna.
 • William Harvey (15781657) gefur út rit sitt um blóðrásina Exercitatio Anatomica de Motu Cordis et Sanguinis in Animalibus árið 1628.
 • René Descartes (15961650) gefur út rit sitt Orðræða um aðferð árið 1637 sem stuðlaði að þróun hugtaksins um hina vísindalegu aðferð.
 • Antoni Van Leeuwenhoek (16321723) var hollenskur smásjársmiður og vísindamaður. Hann er þekktastur fyrir að hafa lýst örverum fyrstur manna og er því gjarnan sagður faðir örverufræðanna.
 • Isaac Newton (16431727) gjörbylti stærðfræði og eðlisfræði 17. aldar. Framlög hans til þessara fræða voru meðal annars örsmæðareikningur, aflfræðin, þyngdarlögmálið, lögmálið um hreyfingu reikistjarna á braut, tvíliðuröðin (e. binomial series), aðferð Newtons í tölulegri greiningu auk mikilla fræða um lausnir jafna og fleira.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

 • „Hvað var vísindabyltingin?“. Vísindavefurinn.