Istanbúl

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Konstantínópel)
Jump to navigation Jump to search
Sjá má aðgreiningarsíðuna fyrir aðrar merkingar orðsins „Mikilgarður“.
Istanbúl
Gervihnattamynd af borginni.

Istanbúl eða Mikligarður (tyrkneska İstanbul; gríska Κωνσταντινούπολις; latína Constantinopolis; íslenska áður fyrr Mikligarður) er stærsta borg Tyrklands og fyrrum höfuðborg Tyrkjaveldis frá því skömmu eftir fall borgarinnar fyrir her Mehmets 2. þar til það var leyst upp 1922. Borgin stendur beggja vegna Bosporussunds. Hún er eina borg heims sem stendur í tveimur heimsálfum; bæði í Evrópu (Þrakíu) og Asíu (Anatólíu). Árið 2020 bjuggu um 15,5 milljónir í borginni sem gerir hana eina af stærstu borgum Evrópu.

Keisari Austur Rómaveldis
Justiníanus I

Hin ýmsu nöfn borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Istanbúl hefur borið mörg nöfn. Hún var fyrst byggð af grískum nýlendumönnum frá Megöru um 660 árum f.Kr. og hét þá Býzantíon (Býzans). Árið 330 e.Kr. gerði Konstantín mikli, keisari Rómaveldis, borgina að höfuðstað hins rómverska ríkis og var bærinn síðan kallaður Konstantínópel (þ.e. Konstantínusarborg). Á víkingaöldinni og lengur kölluðu norrænar þjóðir bæinn Miklagarð (Hin mikla borg). Hið almenna nafn hans meðal Tyrkja er Stambul eða Istambul en í stjórnarbréfum Tyrkja er bærinn kallaður Dar-i-Seadet (hamingjunnar hús) eða Bab-i-Seadet (hamingjunnar port). Hinar slavnesku þjóðir kölluðu Istanbúl lengi vel Zarigrad (þ.e. keisarabæ).

Saga Istanbúl[breyta | breyta frumkóða]

Upphaf borgarinnar[breyta | breyta frumkóða]

Fyrstu heimildir um borg þar sem Istanbúl er nú, eru frá árinu 657 fyrir Krist þegar grískir landnemar frá borgini Megara stofnuðu nýja borg sem þeir kölluðu Býsanskt. Borgin var hertekinn af mörgum nágrannaríkjum til dæmis Persíu, Aþenu og Spörtu. Eftir að Rómaveldi lagði undir sig Býsanskt sýndu þeir borginni meiri áhuga en önnur veldi og byrjuðu að byggja hana upp.

Rómaveldi og Býsanska veldið[breyta | breyta frumkóða]

Árið 285 var Rómaveldi skipt í tvennt og varð Býsanskt að höfuðborg austurhlutans árið 330. Nafnið borgarinnar var einnig breytt í Konstantínópel eftir Konstantínusi keisara. Barbarar sem komu frá austurhluta Evrópu réðust á vesturhluta Rómaveldis og leið það undir lok á 5.öld. Austurhluti Rómaveldis stóð enn, en býsanski keisarinn Justinianus I ákvað að byggja háa varnamúra utan um Konstantíópel. Þessir múrar voru frægir víða um álfuna og þekktir sem þeódósísku veggirnir. Árið 532 var gerð uppreisn geng Justinianus eftir að hann lagði þunga skatta á almúgann. Í uppreisninni brann nærri helmingur Konstantínópel og einnig kirkjan Hagía Sofía. Eftir að Justinianus var búinn að berja uppreisnina niður byrjaði hann strax að byggja Konstantínópel upp úr öskunni.

Hámiðaldir[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1197 braust út mikill eldur í borginni sem olli töluverðri eyðileggingu. Árið 1202 varð Konstantínópel fyrir árás úr vestri þegar hermenn fjórðu krossferðarinnar ákváðu að ráðast á borgina. Þeir tóku borgina, lögðu hana í rúst og stofnuðu nýtt keisaraveldi. Nokkrum árum eftir að fjórðu krossferðinni lauk, risu grískumælandi íbúar Konstantínópel upp gegn innrásarhernum og hröktu keisara hans í burtu.

Fall Konstantínópel[breyta | breyta frumkóða]

Á síðmiðöldum var sótt víða að Konstantínópel og kepptust nágrannaríki um að leggja hana undir sig. Eftir stanslaus borgarastríð og landvinninga Tyrkja í Anatólíu, stóð borgin frami fyrir mikilli ógn. Árið 1453 gerðu Tyrkir umsátur um borgina. Borgin hefði átti að þola marga mánaða umsátur en þar sem gleymdist að verja eitt hliðið og nýttu Tyrkir sér það og réðust inn í borgina. Lögðu þeir hana í rúst en byggðu hana upp aftur. Tyrkir breyttu nafninu í Istanbul og varð hún höfuðborg Tyrkjaveldis.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Wikimedia Commons er með margmiðlunarefni sem tengist
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.


Heimildaskrá[breyta | breyta frumkóða]