Þrjár stoðir Evrópusambandsins

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Þrjár stoðir Evrópusambandsins voru grunnurinn að stjórnkerfi Evrópusambandsins frá gildistöku Maastricht-sáttmálans árið 1993 til gildistöku Lissabon-sáttmálans árið 2009.

Með samningnum um Evrópusambandið (Maastricht) var hinum svokölluðu þremur stoðum Evrópusambandsins komið á fót. Þetta fyrirkomulag varð til í aðdraganda Maastrichtsamningsins, þegar sumum aðildarríkjum þótti æskilegt að utanríkis-, öryggis- og varnarmál, málefni innflytjenda og hælisleitenda og samvinna lögreglu og dómstóla yrðu partur af samstarfinu en önnur ríki vildu ekki að þessi mál féllu undir Evrópubandalagið vegna þess að þau væru of viðkvæm til að treysta stofnun með yfirþjóðlegt vald til að sjá um þau, betra væri ef að samstarfið á þessum sviðum færi fram eins og hefðbundið milliríkjasamstarf, þar sem ríkisstjórnir aðildarríkjanna eiga ávallt seinasta orðið.

Í málamiðlunarskyni var ákveðið að fella þessi mál ekki undir Evrópubandalagið heldur búa til sérstakar „stoðir“, þar sem vald EB stofnanna á borð við Evrópuþingið, Framkvæmdastjórnina og Evrópudómstólinn er takmarkað verulega. Með breytingunum, sem gerðar voru í Amsterdam- og Nicesamningunum hafa þessir málaflokkar þó færst nær þeirri (yfirþjóðlegu) málsmeðferð, sem tíðkast innan EB (gjarnan kölluð Bandalagsaðferðin). Stærsta breytingin í þessa átt var þegar mörg málefni, sem áður féllu undir stoð III voru færð undir Bandalagsstoðina eftir Amsterdamsamninginn. Drög að Stjórnarskrá Evrópusambandsins gerðu ráð fyrir því að stoðakerfið yrði aflagt og málefni þeirra sett undir Evrópusambandið sjálft. Stjórnarskráin tók aldrei gildi þar sem henni var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu í Frakklandi og Hollandi árið 2005 en sumar breytingarnar í henni urðu síðar hluti af Lissabon-sáttmálanum sem tók gildi árið 2009.

Stoð I: Evrópubandalagið[breyta | breyta frumkóða]

Áður en stofnun Evrópusambandsins var lýst yfir var nafnið Evrópubandalagið notað yfir þau lönd sem þá voru þátttakendur í samstarfinu. Evrópubandalagið var fyrsta stoð ESB og sú langmikilvægasta. Það sem flestir sáu sem Evrópusambandið var í raun og veru Evrópubandalagið, þar sem stofnunin rak meðal annars Evrópuþingið, Framkvæmdastjórnina og Ráðið. Evrópubandalagið hafði, ólíkt hinum stoðunum, yfirþjóðlegt vald.

Stoð II: Sameiginleg utanríkis- og öryggisstefna[breyta | breyta frumkóða]

Samvinna á sviði utanríkismála hófst árið 1970 innan Evrópubandalagsins með svokallaðri Lúxemborgarskýrslu. Með einingarlögunum var samvinnan lögfest en þá fólst hún fyrst og fremst í því að ríkin hefðu samráð um utanríkismál. Hræringar í heimsmálunum í upphafi 10. áratugarins kölluðu á nánari samvinnu á þessu sviði og í samningnum um Evrópusambandið var gert ráð fyrir því, að sambandið sem slíkt gæti haft sameiginlega utanríkis- og öryggisstefnu.

Samstarfið innan þessarar stoðar fer fram í gegnum stofnanir Evrópusambandsins, sérstaklega Ráðið og Evrópska ráðið. Evrópska ráðið skilgreinir meginreglurnar og leiðbeiningarreglurnar fyrir samstarfið en Ráðið hrindir þeim í framkvæmd með því að samþykkja sameiginlega afstöðu og sameiginlegar aðgerðir. Í báðum tilfellum verður ráðið að veita einróma samþykki sitt.

Stoð III: Lögreglusamvinna og lagaleg samvinna í refsimálum[breyta | breyta frumkóða]

Aðildarríki EB höfðu haft samvinnu um svokölluð lagaleg og innri málefni allt frá árdögum bandalagsins en með Maastrichtsamningnum var leitast við að kerfisbinda samstarfið undir merkjum Evrópusambandsins. Upphaflega var þessi stoð kölluð „samvinna um lagaleg og innri málefni“ en með Amsterdamsamningnum voru málefni ólöglegra innflytjenda, vegabréfsáritanir, hælisveitingar og samvinna dómstóla í einkamálum færð undir Bandalagsstoðina.

Afnám stoðanna þriggja[breyta | breyta frumkóða]

Stoðirnar þrjár voru lagðar niður eftir gildistöku Lissabon-sáttmálans í lok ársins 2009. Evrópusambandið varð að einni lögpersónu og Evrópubandalagið var fellt inn í það. Sem lögpersóna getur sambandið þaðan af gerst aðili að alþjóðasáttmálum. Samkvæmt sáttmálanum var sambandinu falið að „leysa Evrópubandalagið af hólmi og taka við hlutverki þess“. Eftir að sáttmálinn tók gildi fékk Evrópusambandið aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni, sem hafði áður verið í verkahring Evrópubandalagsins.