Stofnun Rómar
Stofnun Rómar er venjulega sögð hafa átt sér stað 21. apríl árið 753 f.Kr. Þess dagsetningu má rekja til rómverska fræðimannsins Marcusar Terentiusar Varros en hún festist í sessi á valdatíma Ágústusar keisara. Einstaka rómverskir sagnaritarar notuðu síðan þennan atburð (ab urbe condita, þ.e. frá stofnun borgarinnar) sem viðmiðun en flestir nefndu ártalið eftir ræðismönnunum sem voru við völd hverju sinni.
Goðsögulegt upphaf borgarinnar
[breyta | breyta frumkóða]Til eru nokkrar sagnir um stofnun Rómar, sú þekktasta er líklega sagan af tvíburunum Rómúlusi og Remusi. Samkvæmt henni ríkti konungurinn Numitor í borginni Alba Longa í Latíum. Bróðir hans, Amulius, hrakti hann frá völdum og gerði bróðurdóttur sína, Rheu Silviu, að vestumey. En guðinn Mars nauðgaði henni og hún ól tvíbura, Rómúlus og Remus. Numitor lét bera þá út og var þeim kastað í ána Tíber. Þá bar að bakka þar sem Róm reis síðar og þar fann þá úlfynja sem nærði þá.[1] Síðar fann hjarðmaður þá hjá úlfynjunni, tók þá og ól þá upp. Þegar drengirnir voru fullvaxta sneru þeir aftur til Alba Longa til að leita hefnda. Þeir boluðu burt Amulusi frænda sínum og komu afa sínum, Numitor, aftur til valda. Þá hugðust þeir stofna eigin borg. Þeir hófust handa við að reisa borgarveggi á Palatínhæð, sem er ein af sjö hæðum Rómar. Remus hæddist að vegg Rómúlusar sem vóg þá bróður sinn. Borgin var svo nefnd eftir Rómúlusi einum. Borgina skorti konur en sagan hermir íbúarnir hafi brugðið á það ráð að bjóða nágrönnum sínum Sabínum til veislu en hafi svo stolið ungmeyjum þeirra. Þannig hafi Rómverjar og Sabínar að endingu orðið að einni þjóð.
Seinna varð einnig vinsæl sú saga að Rómverjar væru afkomendur Tróverja. Þá var sagt að Rómúlus og Remus væru afkomendur Eneasar frá Tróju sem flúði brennandi borgina eftir að hún féll með föður sinn Ankíses á bakinu og soninn Askaníus sér við hlið.[2] Askaníus nefndist einnig Júlus og var sagt að frá honum væri komin júlíska ættin sem Júlíus Caesar og Ágústus keisari tilheyrðu. Eneas á að hafa komið til Latíum og hitt þar konunginn Latínus, heillast af Laviniu dóttur hans og gengið að eiga hana eftir að hann hafði sigrað heitmann hennar, Túrnus, í stríði. Hann stofnaði þá borgina Lavinium en Askaníus mun hafa stofnað borgina Alba Longa þar sem Numitor ríkti síðar, tólfti konungurinn í röðinni. Þannig var bilið brúað milli falls Tróju og stofnunar Rómaborgar.
Enn aðrar sögur gerðu Rómverja að afkomendum Rhómosar, sem á að hafa verið sonur Ódysseifs og Kirku, en sagan um Eneas varð ríkjandi á 3. öld f.Kr. og fæstar aðrar sögur náðu mikilli útbreiðslu.
Um goðsögulegt upphaf Rómar má lesa hjá ýmsum fornum höfundum, m.a. hjá Lívíusi.[3] Sagan um Eneas frá Tróju, forföður Rómúlusar og Remusar, sem kom til Latíum og stofnaði þar konungsríki er sennilega frægust úr Eneasarkviðu Virgils.
Fornleifar
[breyta | breyta frumkóða]Fornleifarannsóknir á Palatínhæð gefa vísbendingar um að þar hafi verið reistur bær um miðja 8. öld f.Kr. Þó er ljóst að dreifð byggð var á svæðinu þar sem Rómaborg reis síðar allt frá því seint á bronsöld eða um 1200 – 1000 f.Kr.[4] um miðja 8. öld f.Kr. virðist þó hafa átt sér stað mikilvæg þróun í átt að borgarmyndun. Dreifð þorp bænda, sem töluðu indóevrópskt mál, virðast hafa vaxið saman og myndað eitt þéttbýlissvæði sem þakti einnig láglendið milli hæðanna. Um 625 f.Kr. var Róm orðinn að nokkuð stórri borg á mælikvarða síns tíma.
Enda þótt sögur um kongunga Rómar á 8. og 7. öld f.Kr. séu óáreiðanlegar benda fornleifar til þess að Róm hafi verið konungsveldi á 6. öld f.Kr. áður en stofnað var lýðveldi.[5] Meðal annars hafa fundist áhöld merkt konungi (rex) á Palatínhæð. Í rústum etrúrskra borga frá 4. öld f.Kr. hafa einnig fundist áletranir á vegg sem eru að því er virðist óháðar rómversku hefðinni. Þær geta um Gneve Tarchu Rumach (Gnaeus Tarquinius frá Róm) en sagan segir að tveir af þremur síðustu konungum Rómar hafi heitið Lucius Tarquinius Priscus og Lucius Tarquinius Superbus. Þar er einnig að finna nafnið Caile Vipinas en sagan segir að Caelius Vibenna hafi verið vinur Serviusar Tulliusar, næstsíðasta konungs Rómar.[6]
Neðanmálsgreinar
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Þannig er sagan venjulega sögð. Á latínu merkir orðið lupa sem þýðir „úlfynja“ einnig „vændiskona“.
- ↑ Trója var venjulega talin hafa fallið um 1184 f.Kr. samkvæmt útreikningum Eratosþenesar.
- ↑ Sjá, Livíus, Ab Urbe Condita (= Frá stofnun borgarinnar), I.
- ↑ A.M. Ward, F.M. Heichelheim og C.A. Yeo, A History of the Roman People 4. útg. (Prentice Hall, 2003): 33-34.
- ↑ A.M. Ward, F.M. Heichelheim og C.A. Yeo, A History of the Roman People 4. útg. (Prentice Hall, 2003): 37-38.
- ↑ A.M. Ward, F.M. Heichelheim og C.A. Yeo, A History of the Roman People 4. útg. (Prentice Hall, 2003): 38.