Fara í innihald

Marilyn Monroe

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Marilyn Monroe
Monroe árið 1953
Fædd
Norma Jeane Mortenson

1. júní 1926(1926-06-01)
Dáin5. ágúst 1962 (36 ára)
Los Angeles, Kalifornía, BNA
DánarorsökOfskammtur verkjalyfja
Önnur nöfnNorma Jeane Baker
Störf
  • Leikari
  • fyrirsæta
  • söngvari
Ár virk1945–1962
Maki
Vefsíðamarilynmonroe.com
Undirskrift

Marilyn Monroe (fædd Norma Jeane Mortenson; 1. júní 1926 – 5. ágúst 1962) var bandarísk leikkona.[1] Sviðsframkoma hennar, fegurð og dularfullur dauðdagi gerði hana að eftirminnilegu kyntákni og síðar popp-tákni. Hún hóf feril sinn sem fyrirsæta eftir að eiginmaður hennar fór í stríð. Hún fékk samning við kvikmyndaver árið 1946. Í fyrstu fékk hún aðeins örsmá hlutverk í nokkrum kvikmyndum en varð fræg eftir að hún lék í myndum eins og The Asphalt Jungle og All About Eve. Árið 1953 var hún orðin stjarna í Hollywood, fræg fyrir að leika „heimsku ljóskuna“ í bíómyndum, hlutverk sem hún festist í. Hún var tilnefnd til nokkurra verðlauna, þar á meðal Golden Globe fyrir Some Like it Hot árið 1959 og fékk tilnefningu fyrir myndina Bus Stop frá árinu 1956.

Síðustu ár ævi sinnar glímdi hún við veikindi og vandamál í einkalífi og varð fræg fyrir að vera sérstaklega erfið að vinna með. Þegar hún dó, árið 1961, aðeins 36 ára, eftir að taka of stórann skammt af sterkum verkjalyfum, fór fólk að geta sér til um hvort hún hefði verið myrt. Meðal annars hefur því verið fleygt að Kennedy-fjölskyldan hafi átt þátt í dauða hennar en ekkert hefur sannast um það. Árið 1999 var hún valin sjötta stærsta kvenstjarna allra tíma af Kvikmyndastofnun Bandaríkjanna.[2]

Æska og uppruni

[breyta | breyta frumkóða]

Þótt Marilyn yrði um síðir ein frægasta konan í kvikmyndaheiminum, voru æska og uppvaxtarár hennar fábrotin. Hún fæddist á fæðingardeild héraðssjúkrahússins í Los Angeles þann 1. júní árið 1926[3] og hlaut nafnið Norma Jeane Mortensen, en sleppti oftast seinna e-inu í Jeane. Amma hennar, Della Monroe Grainger, breytti nafni hennar síðar í Norma Jeane Baker. Norma var þriðja barn Gladys Pearl Baker (fædd Monroe).[4] Á fæðingarvottorði Normu stendur að faðir hennar hafi verið norðmaðurinn Martin Edward Mortenson, sem hafði verið giftur Gladys en þau höfðu skilið að borði og sæng áður en Gladys varð ólétt að Normu.

Gladys tókst ekki að sannfæra móður sína um að taka barnið að sér og kom því þess vegna til Wayne og Idu Bolender frá Hawthorne, þar sem Norma bjó þar til hún var sjö ára gömul. Bolender-hjónin voru mjög trúuð og drýgðu litlar tekjur sínar með því að vera fósturforeldrar. Í sjálfsævisögu sinni, (e. My Story), segist Marilyn hafa haldið að Ida og Wayne væru blóðforeldrar sínir, þar til Ida sagði henni, frekar illkvittnislega, að svo væri ekki. Eftir dauða Marilyn hélt Ida því fram að þau Wayne hefðu hugleitt að ættleiða hana, en til þess hefðu þau þurft samþykki Gladys.

Gladys heimsótti Normu Jeane á hverjum sunnudegi samkvæmt ævisögunni en kyssti hana aldrei eða faðmaði að sér — Marilyn sagði að hún brosti ekki einu sinni. Dag einn tilkynnti Gladys Normu að hún hefði keypt handa þeim húsnæði og tók hana til sín. Nokkrum mánuðum síðar fékk Gladys taugaáfall og var flutt með valdi á geðsjúkrahús. Marilyn rifjar það upp að Gladys hafi „öskrað og hlegið“ þar til hún var flutt á brott. Vinkona Gladys, Grace McKee, tók Normu þá að sér en 1935, þegar Norma var níu ára, giftist Grace manni að nafni Goddard og sendi þá Normu á fósturheimili. Næstu árin flakkaði hún á milli fósturheimila, sumir segja að hún hafi átt viðkomu á 12 ólíkum heimilum og hafi verið misnotuð og vanrækt. Hins vegar eru engar sannanir fyrir því að hún hafi búið á svo mörgum stofnunum og við svo bág kjör og má vera að hún alla tíð ýkt þau atvik sem settu mark sitt á æsku hennar.

Í september 1941 fór Norma Jean aftur til Goddard-fjölskyldunnar og kynntist þar syni nágrannans, James Dougherty. Goddard-fjölskyldan var á leiðinni að flytja á austurströnd Bandaríkjanna og vildu ekki taka Normu Jean með. Þau töldu því Normu og James á að ganga í hjónaband svo að Norma þyrfti ekki að fara á fósturheimili að nýju, því hana skorti tvö ár upp á sjálfræðisaldur. Þau giftust 19. júní 1942 og var Norma Jean rétt orðin 16 ára en James var 21 árs.

Enn er óvíst hver var raunverulegur faðir Marilyn var en flestir telja þó að það hafi veri Martin E. Mortensen. Gladys giftist honum þann 11. október árið 1924, tveimur árum áður en Norma fæddist. Þau skildu að borði og sæng eftir aðeins sex mánaða hjónaband en Gladys sótti ekki um lögskilnað fyrr en ári eftir fæðingu barnsins og gekk skilnaðurinn í gildi 15. október 1928.

Ævisöguritarinn Donald H. Wolfe skrifar í bók sinni The Last Days of Marilyn Monroe að Norma hafi sjálf trúað því að Charles Stanley Gifford, sölumaður hjá RKO Pictures, myndverið þar sem Gladys vann, hafi verið faðir hennar. Á fæðingavottorðið hennar segir að Mortensen sé faðirinn þótt þau væru þá skilin að borði og sæng. Í viðtali sagði James Dougherty, fyrsti eiginmaður Marilyn, að hún hafi í raun og veru trúað að Gifford væri faðir hennar.

Myndin af Marilyn sem fór í tímaritið Yank

Fyrirsætuferill

[breyta | breyta frumkóða]

Andlit Marilyn Monroe skóp henni vissulega örlög og allt til þessa dags, nær hálfri öld eftir lát hennar, hefur fólk áhuga á lífi hennar og dauða. James Dougherty, eiginmaður hennar, var í flutningasveitum bandaríska hersins í seinni heimstyrjöldinni og á meðan fór hin unga Norma Jean að vinna í hergagnaverksmiðju. Þar tók ljósmyndarinn David Conover mynd af henni sem var birt með grein í hermannablaðinu Yank. Hann sá strax möguleika hennar sem fyrirsætu og hún skrifaði undir samning við umboðsskrifstofuna The Blue Book Modelling.

Norma Jean varð ein af vinsælustu Blue Book-fyrirsætunum og myndir af henni birtust á forsíðum margra blaða. Eiginmaður hennar vissi ekki af þessu nýja starfi konu sinnar fyrr en hann sá skipsfélaga sinn dást af mynd af Normu í tímariti. Dougherty skrifaði þá fjölmörg bréf til konunnar sinnar og sagði henni að hún yrði að hætta fyrirsætustörfum þegar hann sneri heim. Hún ákvað þá að skilja við hann og lét verða af því þegar hann sneri heim árið 1946.

Upphaf leikferils

[breyta | breyta frumkóða]

Velgengi Marilyn sem fyrirsæta varð til þess að Ben Lyon, yfirmaður hjá 20th Century Fox, kom henni á blað hjá myndverinnu og undirbjó prufutökur. Hann var hrifinn af útkomunni og kallaði hana „næstu Jean Harlow“. Hún skrifaði undir hefðbundinn sex mánaða samning með byrjunarlaun upp á 125 bandaríkjadali á viku. Lyon stakk upp á að breyta nafni hennar úr Norma í eitthvað sem hentaði leikkonu betur. Þeim datt í hug nafnið „Carole Lind“ en Lyon fannst það ekki henta heldur. Eina helgi bauð hann henni með sér heim til sín þar sem þau fundu henni nýtt nafn. Norma dýrkaði leikkonuna Jean Harlow og ákvað að nota eftirnafn móður sinnar (Monroe) eins og Harlow. Lyon fannst þó hvorki Jean Monroe né Norma Monroe virka. Hann stakk upp á Marilyn af því að honum fannst Norma minna á leikkonuna Marilyn Miller og árið 1946 „fæddist“ Marilyn Monroe.

Marilyn lék mjög lítið á fyrsta samningstímabili sínu hjá Fox, heldur lærði hún um hár, snyrtivörur, búninga, leik og lýsingu. Hún lét lita hár sitt ljóst og klippti það stutt. Sögusagnir hafa lengi gengið um að hún hafi einnig farið í fegrunaraðgerð. Þegar samningur hennar rann út ákváðu starfsmenn hjá Fox að endurnýja hann og á næstu sex mánuðum kom hún fram í litlum hlutverkum í tveimur myndum; Scudda Hoo! Scudda Hay! og Dangereous Years (báðar frumsýndaar árið 1947). En kvikmyndirnar féllu ekki í góðan farveg í kvikmyndahúsum og því ákvað Fox að semja ekki við Marilyn í þriðja sinn.

Hún henti sér að fullu inn í fyrirsætustarfið að nýju en gaf ekki kvikmyndaferilinn upp á bátinn. Í millitíðinni sat hún oft fyrir nakin á meðan hún leitaði að kvikmyndahlutverkum. Árið 1947 var hún valin hin fyrsta „Miss California Artichoke Queen“ á hinu árlega ætiþistillshátíðinni í Castroville.

Árið 1948 skrifaði Marilyn undir sex mánaða samning við Columbia Pictures. Þar kynntist hún Natasha Lytess aðal-leikþjálfanum hjá myndverinu á þeim tíma. Hún vann með Marilyn um nokkurra ára skeið. Marilyn hlaut aðalhlutverkið í söngleikjamyndinni Ladies of the Chorus það sama ár. Gagnrýnendur voru hrifnir af leik Marilyn en myndin var ekki vinsæl í kvikmyndahúsum.

Hún fékk aukahlutverk í myndinni Love Happy árið 1949 og vakti aðdáun framleiðenda myndarinnar. Þeir sendu hana til New York til þess að taka þátt í auglýsingaferð fyrir myndina. Á þessum tíma hitti hún Johnny Hyde, einn af helstu umboðsmönnunum í Hollywood. Hann útvegaði henni áheyrnarprufu hjá leikstjóranum John Huston sem lét hana hafa hlutverk í myndinni The Asphalt Jungle þar sem hún lék unga hjákonu glæpamanns. Gagnrýnendum fannst leikur hennar frábær og hún var stuttu seinna kominn með annað hlutverk sem frú Caswell í All About Eve. Hyde útvegaði henni líka nýjan samning við Fox til sjö ára, skömmu áður en hann lést árið 1950.

Marilyn skráði sig í UCLA árið 1951 og stundaði þar nám í bókmenntum og listum en hélt þó áfram að leika í nokkrum kvikmyndum inn á milli.

Upprennandi stjarna

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1952 kom upp hneyksli þegar ein af myndunum af Marilyn þar sem hún hafði setið fyrir nakin var birt í dagatali. Fjölmiðlar veltu því fyrir sér hver konan í einni mynd var og nafn Marilyn kom oft upp. Forstjórar Fox veltu því fyrir sér hvað þeir ættu að gera og Marilyn stakk upp á því að segja sannleikann að þetta væri í raun og veru hún en láta fólk vita að það hafi verið það eina sem hún gat gert fyrir peninga á þeim tíma. Almenningur fann til með Marilyn og hneykslið gerði hana bara vinsælli.

Marilyn Monroe og Keith Andes í myndinni Clash by Night árið 1952

Hún komst á forsíðu tímaritsins Life árið 1952 þar sem hún var umtöluð í Hollywood. Í maí hið sama ár komst hún á forsíðu True Experiences þar sem sögur barnæsku hennar voru ræddar og Marilyn var auglýst sem Öskubuska. Einkalíf hennar varð einnig aðaltal Hollywood og fólk velti því fyrir sér hvort hún ætti í sambandi við hafnabolta-leikmanninn Joe DiMaggio.

Velgengni sem leikkona

[breyta | breyta frumkóða]

Í júní 1952 kom út kvikmyndin Clash by Night þar sem Marilyn lék eitt af aðalhlutverkunum. Myndin varð mjög vinsæl á meðal áhorfenda og gagnrýnendur voru enn á ný heillaðir upp úr skónum af leik Monroe. Marilyn sem hafði verið vinsæl á meðal fjölmiðla síðustu mánuði dró inn mikið af fólki sem vildu sjá leikkonuna leika. Marilyn lék einnig í tveimur öðrum kvikmyndum sem fóru í kvikmyndahús í júlí það ár. Hið fyrra var We're Not Married, gamanmynd þar sem Marilyn lék keppanda í fegurðarkeppni en hin seinni var dramamyndin Don't Bother to Knock þar sem hún lék aðalhlutverkið. Hún lék barnapíu sem hótar að drepa barnið sem hún sér um. Myndin fékk slæma dóma og gagnrýnendum fannst hún langdreginn og melódramatísk. Í september kom svo út myndin Monkey Business þar sem Marilyn lék eitt af aðalhlutverkunum ásamt stórstjörnunum Cary Grant og Ginger Rogers. Marilyn var með eitt lítið atriði í myndinni O. Henry's Full House en hún var samt auglýst sem ein af aðalleikurunum. Þetta sýndi hversu stór stjarna Marilyn var að verða.

Daryl F. Zanuck, bandarískur framleiðandi, hafði séð Marilyn og fannst hún vera hæf til þess að leika í nýrri femme fatale mynd sem hét Niagara sem fjallaði um konu sem langaði að drepa eiginmann sinn. Á meðan á tökum stóð kom í ljós að Marilyn var með mikinn sviðsskrekk og leikstjórinn reddaði henni þjálfa sem róaði hana klukkutímum saman fyrir hvert atriði.

Þó að leikur Marilynar hafi fengið góða gagnrýni þá þótti framkoma hennar á frumsýningu myndarinnar barnaleg og dónaleg. Blaðadálkur Louellu Parsons talaði um slæma hegðun hennar og hún sagði að Joan Crawford hefði rætt dónaskapinn hennar opinberlega og að hún væri óviðeigandi sem leikkona og kona almennt. Marilyn klæddi sig oft í glannalega kjóla og hún birtist líka á forsíðu fyrsta tölublaðs Playboy þar sem myndir af henni voru birtar þar á meðal nokkrar af henni allsberi.

Velgengni í kvikmyndum

[breyta | breyta frumkóða]

Gentlemen Prefer Blondes

[breyta | breyta frumkóða]
Marilyn að flytja lagið „Diamonds Are a Girl's Best Friend“ í myndinni Gentlemen Prefer Blondes

Næsta mynd hennar á eftir Niagara var Gentlemen Prefer Blondes árið 1953 þar sem hún lék aðalhlutverkið ásamt Jane Russell. Hún lék Lorelei Lee, ljóshærða dansmær í von um að verða rík, hlutverk sem krafðist þess af henni að leika, dansa og syngja. Marilyn og aukaleikkona hennar urðu góðar vinkonur og Jane lýsti henni seinna sem feiminni og mikið gáfaðri en fjölmiðlar héldu fram. Hún vann oft lengur en hinir leikararnir og æfði danssporin sín klukkutímum saman. Leikstjórinn kvartaði samt undan því að hún mætti alltaf sein. Jane Russell tók eftir því að hún var oft mætt á réttum tíma en hún var með svo mikinn sviðsskrekk að hún læsti sig inni í skiptiklefanum sínum og reyndi að gera sig klára. Russell fór þá að fylgja Marilyn inn á sviðið til þess að hjálpa henni.

Á frumsýningu myndarinnar settu Marilyn og Jane fótspor og handaför sín í steypuna fyrir utan kvikmyndahúsið eins og var hefð með stórar myndir í Hollywood. Gagnrýnendur gáfu henni góða dóma fyrir leik sinn og myndin varð mjög vinsæl og heildartekjurnar voru meira en tvisvar sinnum það sem kostaði að búa hana til. Útgáfa hennar af laginu „Diamonds Are a Girl's Best Friend“ er ennþá heimsfræg og margar söngkonur hafa flutt lagið, þar á meðal Kylie Minogue.

Marilyn í Gentlemen Prefer Blondes

Vandamál með staðalímyndina

[breyta | breyta frumkóða]

Í byrjun 6. áratugs 20. aldar reyndi Marilyn stöðugt að losa við ímyndina hennar sem „heimska ljóskan“ sem fylgdi henni hvert sem hún fór. Í viðtalið við New York Times sagði hún frá hvernig hana langaði að þroskast sem leikkona með því að leika alvarlegri hlutverk. Natasha Lytess, leikþjálfinn hennar, reyndi að redda henni einhver hlutverk hjá leikstjórum sem hún þekkti en það vildi enginn ráða hana. Framleiðandi myndarinnar The Egyptian, Darryl F. Zanuck, sem var gamall vinur hennar neitaði jafnvel að setja hana í prufu.

Hún fékk hlutverk í myndinni River of No Return sem gerðist í villta vestrinu. Hún lék á móti sveitasöngvaranum Robert Mitchum sem þurfti að vera sáttasemjari á milli hennar og leikstjórans Otto Preminger sem rifust út í eitt. Hann kvartaði undan því að Marilyn reyndi of miki á leikþjálfann sinn sem hún hlustaði meira á en hann. Á endanum töluðu þau ekki við hvort annað sem gerði það næstum því ómögulegt að halda áfram tökum. Haustið 1953 fékk hún hlutverk á móti Frank Sinatra í myndinni The Girl in Pink Tights sem hún var rekinn frá út af því að hún mætti sjaldan á vinnustaðinn.

Marilyn giftist Joe DiMaggio í janúar 1954 í San Francisco. Þau fóru í brúðkaupsferð til Japan stuttu eftir það. DiMaggio eyddi miklum tíma að vinna í Japan að spila hafnabolta svo að Marilyn flaug til Kóreu og skemmti yfir 13.000 bandarískum hermönnum. Marilyn sagði í viðtali að sú reynsla hafi hjálpað henni að sigra sviðshrollinn hennar.

Þegar hún kom aftur til Hollywood í mars 1954 þá fór hún aftur til Fox og fékk hlutverk í söngleiknum There's No Business Like Show Business. Myndin var óvinsæl og fékk hræðilega dóma. Leikur Marilyn var rakkaður niður af gagnrýnendum og flutningur hennar á lögunum var sagður hlægilegur. Monroe sagði í viðtali að henni hafði leiðst á meðan að tökum stóð enda hafði hún aðeins gert myndina út af því að forstjórar Fox sögðu að það væri eina leiðin fyrir hana að fá aðalhlutverkið í The Seven Year Itch.

The Seven Year Itch

[breyta | breyta frumkóða]

Í september 1954 tók Marilyn upp myndina The Seven Year Itch sem var byggð á vinsælu Broadway leikriti. Eitt af atriðunum sem hún tók upp var skotið fyrir utan neðanjarðarlestarstöð í New York þar sem stór múgur af fólki fylgdist með. Í atriðinu stóð Marilyn fyrir ofan grindur á lestarstöðinni á meðan lestin keyrði fram hjá og vindurinn skaut upp pilsinu hennar. Fólk mætti með myndavélar og atriðið varð frægasti sena myndarinnar. Einn af þeim sem voru í áhorfendunum var Joe DiMaggio, eiginmaður hennar, sem var brjálaður yfir kringumstæðunum. Þegar tökum lauk sótti DiMaggio um skilnað og þau reyndu bæði að forðast fjölmiðla í lengri tíma eftir það. Monroe hafði verið boðið mikið af hlutverkum en hún neitaði af því að henni fannst þau of lítil og hún fór þá frá Hollywood í nokkurn tíma.

Upprennandi stórstjarna

[breyta | breyta frumkóða]

Milton Greene var frægur ljósmyndari í Hollywood sem tók margar frægar myndir af Marilyn á ferli sínum. Þau urðu mjög góðir vinir og hún lét hann vita af skapraunum hennar vegna lágra launa hjá Fox og lélegum hlutverkum sem henni var boðið. Hún hafði fengi 18.000 bandaríkjadali fyrir Gentlemen Prefer Blondes en Jane Russell var borgað meira en 100.000 dali. Hún hélt því fram að hún gæti fengið mikið hærra kaup ef hún færi í burtu frá myndverinu. Milton hætti störfum árið 1954 og veðsetti húsið sitt til þess að hjálpa henni og leyfði henni að búa hjá fjölskyldu sinni á meðan þau reyndu að finna nýja stefnu fyrir ferillinn hennar.

Leikþjálfun og ný ást

[breyta | breyta frumkóða]

Monroe hitti nýjan leikþjálfa það ár sem hét Constance Collier og hjálpaði henni töluvert. Collier benti Marilyn á það að hún væri með alla réttu hæfileikana til þess að leika í kvikmyndum en ekki á sviði. Collier gat ekki aðstoðað Marilyn lengi þó út af því að hún dó stuttu eftir að þær byrjuðu að vinna saman. Marilyn leitaði þá til Lee Strasberg sem var frægur leikþjálfi og hafði unnið með mörgum öðrum leikurum áður.

Í maí 1955 fór hún að vera með leikritahöfundinum Arthur Miller sem hún kynntist í New York og hann bauð henni svo út að borða stuttu seinna. Joe DiMaggio, fyrrverandi eiginmaður hennar, vildi þá byrja aftur með henni og fylgdi henni á frumsýningu myndarinnar The Seven Year Itch. Hann hélt líka upp á afmæli hennar með því að halda stórt afmælisteiti en hún stormaði út eftir stórt rifrildi í miðri veislunni. Þau héldu sig í burtu frá hvort öðru í lengri tíma eftir það.

Á meðan hún lærði hjá Actors Studio í New York þá fann hún það út að sviðsskrekkur var stærsta vandamálið hennar sem hún átti mjög erfitt með að vinna bug á. Hún sat alltaf aftast í tímunum til þess að forðast athygli. Hún og vinkona sín í bekknum Maureen Stapleton léku út byrjunaratriðið frá leikritinu Anna Christie sem Marilyn átti erfitt með. Hún mundi aldrei línurnar sínar í æfingum fyrr en hún sýndi fyrir framan hina nemenduna þegar allt gekk vel. Allir í herberginu klöppuðu á endanum og Marilyn þótti frábær. Strasberg sagði seinna að af öllum nemendum hans hafi aðeins tveir staðið upp úr, sá fyrri var Marlon Brando og sú seinni var Marilyn Monroe.

Endurkoma til Fox

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar The Seven Year Itch kom út og varð mjög vinsæl þá ákváðu forstjórar Fox að fara aftur í viðræður við Marilyn og draga upp hugsanlegann samning. Marilyn skrifaði undir samning á gamlársdag 1955 til sjö ára. Marilyn átti að gera fjórar myndir á næstu árum og fyrirtækið sem Marilyn hafði stofnað stuttu fyrir það (Marilyn Monroe Productions) myndi fá 100.000 bandaríkjadali fyrir hverja mynd og prósentu af ágóðanum fyrir sig. Marilyn myndi líka fá að vinna fyrir önnur myndver og hún var með rétt til þess að neita að leika í mynd sem hana langaði ekki að leika í.

Bus Stop var fyrsta myndin sem Marilyn lék í undir nýja samningnum hennar hjá Fox. Monroe lék Chérie sem var fátæk kráarsöngkona og varð ástfangin af kúreka. Leikur Marilyn þótti góður og ganrýnandi hjá New York Times skrifaði að Marilyn hafði loksins reynst vera leikkona. Leikstjóri myndarinnar Joshua Logan sagði að Marilyn hafi komið honum á óvart og verið algjör stórstjarna á meðan á tökum stóð. Logan stakk upp á því að Marilyn ætti að vera tilnefnd til Óskars fyrir hlutverk sitt en það gerðist ekki. Hún var samt tilnefnd til Golden Globe.

Á þeim tíma komst það í fjölmiðla að Marilyn átti í sambandi við Arthur Miller og þau voru of kölluð „séníið og stundaglasið“ í blöðunum. Monroe var oft hvött af fólki hjá Fox að fara frá Miller út af því að stjórnvöld yfirheyrðu hann út í eitt út af stjórnmálaskoðunum hans en hann var kommúnisti. Þau giftust 29. júní 1956.

The Prince and the Showgirl

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar hún kláraði Bus Stop var Marilyn valin í aðalhlutverkið í myndinni The Prince and the Showgirl sem var leikstýrð af Laurence Olivier sem lék einnig aðalhlutverk. Olivier fannst Marilyn vera fyndin gamanleikkona sem þýddi að hún væri líka frábær leikkona að hans sögn. Olivier var ekki hrifinn af leikþjálfa Marilyn og á meðan tökum stóð í Englandi fannst hann hún reyna of mikið á hana.

Olivier sagði seinna að Marilyn hafi verið „yndisleg“. Leikur Marilyn fékk fagnaðaróp gagnrýnenda sérstaklega í Evrópu þar sem hún vann ítölsku verðlaunin David di Donatello sem er ítalska útgáfan af óskarnum. Hún fékk líka tilnefningu til BAFTA verðlaunanna árið 1957.

Seinni myndir

[breyta | breyta frumkóða]

Ár leið þangað til að hún fór að leika á ný en hún eyddi því ári með eiginmanni sínu. Þau eyddu frítíma sínum á Long Island og hún varð ólétt og missti fóstrið snemma.

Some Like it Hot

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir að Miller hvatti hana að snúa til baka til Hollywood ákvað Marilyn að taka við hlutverki í myndinni Some Like it Hot. Gamanmyndin var leikstýrð af Billy Wilder sem valdi hana í hlutverk „Sugar Cane“ á móti stórleikurunum Tony Curtis og Jack Lemmon. Monroe var sérstaklega erfið við tökurnar á myndinni af því að hún neitaði að hlusta á það sem leikstjórinn sagði og heimtaði að allskonar atriði yrðu endurtekinn þangað til hún var sátt. Marilyn varð góð vinkona Jack Lemmons og þau töluðu oft lengi saman eftir tökur en henni líkaði illa við Tony Curtis sem hafði lýst ástaratriðinu þeirra með því að segja að það hafi verið eins og að kyssa Hitler. Monroe komst að því að hún var ólétt á meðan að tökum stóð í október 1958 en missti fóstur aftur í desember.

Myndin þótti vel heppnuð og var tilnefnd til sex óskarsverðlauna og varð sígild undireins. Marilyn fékk Golden Globe verðlaun fyrir leik sinn sen Sugar Cane en allar stjörnur myndarinnar urðu mjög vinsælar á meðal áhorfenda eftir að hún gefinn út í kvikmyndahúsum. Billy Wilder sagði í viðtali að Marilyn hafi verið mjög þreytandi og að hefði þurft að kenna henni að mæta á réttum tíma.

Síðustu myndir

[breyta | breyta frumkóða]

Let's Make Love og The Misfits

[breyta | breyta frumkóða]
Marilyn Monroe í The Misfits

Á meðan hún lék í Bus Stop var henni boðið hlutverk í nýrri mynd sem George Cukor ætlaði að leikstýra. Hún féllst á að leika í myndinni sem átti að heita Let's Make Love en hún heimtaði breytingar á handritinu sem eiginmaður hennar Arthur Miller skrifaði. Gregory Peck átti upprunalega að leika á móti Marilyn en hann hætti eftir að honum líkaði ekki nýja handritið. Yves Montand fékk endanlega hlutverkið eftir að leikarar á borð við Cary Grant, Charlton Heston og Rock Hudson höfðu hafnað. Marilyn og Arthur urðu vinir Montands og tökum tókst vel þangað til Miller þurfti að fara til Evrópu í viðskiptaferð. Þá hóf Marilyn að mæta seint á ný og fór stundum heim í miðri töku. Þetta lagaðist þegar Montand talaði við Marilyn og lét hana horfast í augu við vandamálið. Myndin gekk illa í kvikmyndahúsum og fékk slæma dóma.

Á þessum tíma versnaði heilsa Marilynar mikið og hún hóf að ganga til sálfræðings sem sagði í viðtali eftir að hún dó að hún hafi kvartað undan svefnleysi. Hún fór til margra lækna og náði sér í óhoflegt úrval af verkjalyfjum og svefntöflum. Samkvæmt sálfræðingnum var hún orðin fíkill árið 1959 og sama hvað hún reyndi gat hún ekki hætt að taka lyfin. Sálfræðingurinn reyndi að hjálpa henni að losna við fíknina með því að minnka magnið sem hún tók af lyfjum.

Árið 1960 tók Marilyn að sér hlutverk Roslyn Tabor í myndinni The Misfits þar sem hún lék á móti Clark Gable og öðrum stórum Hollywood leikurum. Myndin var skrifuð af Arthur Miller og var byggð á smásögu um fráskilda konu og aldraðan kúreka í Nevada sem Miller hafði skrifað árið 1956. Monroe átti erfitt með að leika á meðan á tökum stóð enda var hún orðin háð töflunum sem hún var að taka og drakk áfengi í óhófi. Í ágúst 1960 þurfti að senda Marilyn á spítala þar sem hún sat inni í 10 daga. Fjölmiðlarnir héldu því fram að hún hefði verið nær dauða en þau vissu ekki af hverju hún var veik. Þegar hún fór aftur til Nevada og kláraði myndina var samband hennar og Millers mikið verra og þau rifust út í eitt. Margir af hinum leikurunum kvörtuðu einnig undan veikindum og Clark Gable var dáinn innan tíu daga eftir að tökum lauk og Marilyn var farin frá eiginmanni sínum. Gangrýnendum fannst myndin slæm þó að fólk hafi síðan hrósað leik Clarks og Marilyn miðað við kringumstæður og veikindi.

Something's Got to Give

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1962 hóf Marilyn að leika í myndinni Something's Got To Give sem George Cukor leikstýrði. Þegar byrjað var að kvikmynda var Marilyn mjög veik með háan hita. Framleiðandi myndarinnar Henry Weinstein tók eftir því að hún leit hræðilega út á meðan að hún gerði sig klára fyrir næsta atriði hennar.

Þann 19. maí það ár mætti hún í afmælisveislu John F. Kennedy þáverandi forseta Bandaríkjanna í New York. Mágur forsetans hafði stungið upp á því að hún myndi fara upp á sviðið og hún söng afmælissönginn fyrir hann sem var sýndur í beinni útsendingu út um öll Bandaríkin.

Þegar Marilyn sneri aftur í vinnuna var hún strax rekinn enda hafði hún aðeins mætt tólf sinnum en hún átti að hafa mætt 35 daga. Myndverið, Fox, kærði hana svo og forstöðumaður fyritækisins Peter Levathes gaf út yfirlýsingu kvartandi að stjörnur væru orðnar ofdekraðar og að fangarnir væru farnir að reka fangelsið í staðinn fyrir verðina.

Eftir að hafa verið rekin fór Marilyn í margar myndatökur og viðtöl við tímarit eins og Cosmopolitan, Vogue og Life. Myndirnar sem hún tók fyrir Vogue voru mjög djarfar og hún var nakin á nokkrum þeirra. Viðtal hennar við Life varð hennar síðasta og hún ræddi samband sitt við aðdáendur sína og vandamál hennar við það að samsama sig við stjörnuna hennar og kyntákn hennar.

Síðustu vikur lífi hennar eyddi hún með því að leita að nýjum hlutverkum í bíómyndum og umræður hófust um nýjann samning við Fox. Nýji samningurinn hennar var upp á eina milljón bandaríkjadali fyrir tvær myndir en Marilyn hélt áfram að fara í prufur fyrir margar myndir sem hún fékk ekki. Allan Whitey Snyder, maðurinn sem hún eyddi miklum tíma með síðasta hluta lífs síns, lýsti hegðun Marylinar síðustu viku lífs hennar sem frábærri. „Hún leit aldrei betur út“ sagði hann og talaði um hversu glöð hún var að hafa snúið blaðinu við.

Dauðinn og afleiðingar

[breyta | breyta frumkóða]
Gröfin hennar

Lögreglan var kölluð á vettvang klukkan fjögur að morgni þann 5. ágúst árið 1962 eftir að ráðskona Marilyn hafði hringt á neyðarlínuna og tilkynnt hana látna. Lögreglumaðurinn kom að líki leikkonunnar þar sem hún lá nakinn í rúminu sínu með hendina á símtólinu og fullt af lyfseðilsskyldum lyfjum á náttborðinu. Yfir tólf milligröm af sterkum lyfjum fundust í maganum á henni og læknirinn sagði að dánarorsök hennar hefði verið of stór skammtur af lyfjum í einu. Jarðarför hennar fór fram þann 8. ágúst í kirkjugarði í Kaliforníu. Stofnandi Playboy, Hugh Hefner lét taka frá reitinn við hliðin á Marilyn fyrir sjálfan sig þar sem hann myndi láta grafa sig þegar hann myndi deyja.

Samsæriskenningar

[breyta | breyta frumkóða]

Margar kenningar hafa komið upp síðan Marilyn dó um hvort hún hafi verið myrt. Margir trúa því að ráðskonan hafi drepið Marilyn en aðrir hafa gengið svo langt og haldið því fram að sjálfur forseti Bandaríkjanna hafi banað henni. [5]

Jack Clemmons, lögreglumaðurinn sem var fyrstur á vettvang trúði því að ráðskona Marilyn, Eunice Murray hafi átt eitthvað að gera við dauða hennar. Honum fannst það sérstakt að Murray hafði sett þvott í þvottavélina snemma um morguninn og þegar hann spurði hana var hún mjög taugaveikluð þegar hún talaði. Murray hélt því fram að hún hafði tekið eftir því að svefnherbergishurð Marilynar var læst um miðnætti nóttina áður og þegar hún bankaði á hurðina svaraði enginn. Þá hringdi hún í Dr. Engelberg sem var sálfræðingur Marilynar. Engelberg mætti á staðinn og bankaði á hurðina hjá Marilyn en ekkert svar barst svo að hann fór upp að glugganum hjá henni og sá hana liggja þar hreyfingarlausa. Hann braut gluggann og kom sér inn og fann út að hún var dáin. Murray beið þá í fjórar klukkustundir þangað til hún hringdi í lögregluna og í millitíðinni setti hún í þvottavélina.

Krufningarskýrslan sýndi að Marilyn hafði gleypt að minnsta kosti 50 töflur í einu en það var ekkert vatn í krönunum í húsinu hennar. Einkenni taflanna sem hún hafði tekið vantaði alveg allstaðar og lík hennar leit út eins og hún hefði ekki tekið neinar pillur.

Kennedy bræðurnir komu upp í máli Marilyn og það kom í ljós að síðasta símtal hennar var til forsetans. Samkvæmt vini hennar, Robert Slatzer, hafði Marilyn planað að halda blaðamannafund á mánudaginn eftir helgina til þess að ræða samband sitt við Kennedy bræðurna. Hún var líka búin að panta tíma með lögfræðingi sínum rétt fyrir blaðamannafundinn til þess að breyta erfðarskránni sinni.

Marilyn var gift þrisvar sinnum, fyrst James Dougherty, næst hafnaboltaspilaranum Joe DiMaggio og síðast Arthur Miller. Fólk hefur haldið því fram að Marilyn hafi verið viðhald bæði John F. Kennedy og Robert F. Kennedy. Marlon Brando hefur einnig haldið því fram að hafa haft ástarsamband með Marilyn í ákveðinn tíma.

James Dougherty

[breyta | breyta frumkóða]

Marilyn giftist James Dougherty þann 19. júní árið 1942 þegar hún var aðeins sextán ára gömul. Dougherty sagði frá í bókinni sinni To Norma Jeane with Love, Jimmie að þau hafi verið ástfangin en hún þráði frægðina meira en hann og þráin hennar tældi hana í burtu. Árið 1953 skrifaði hann stutta grein fyrir blaðið Photoplay þar sem hann sagði frá að hann hefði ætlað að fara frá henni en hún hafði hótað að fyrirfara sér svo að hann ákvað að vera áfram hjá henni. Dougherty hélt því fram þangað til hann dó að hann hefði búið til karakterinn hennar Marilyn og að myndverin hefðu neytt hana til þess að skilja við hann. Það hefur þó komið fram að hann hefði skilið við hana eftir að hann kom til baka frá stríðinu út af því að hún neitaði að hætta fyrirsætustörfum. Dougherty var kvæntur á ný mánuðum eftir að hann skildi við Marilyn.

Joe DiMaggio

[breyta | breyta frumkóða]
Marilyn Monroe og Joe DiMaggio í Japan í brúðkaupsferðinni þeirra

Marilyn hitti Joe DiMaggio árið 1952 eftir að sameiginlegur vinur setti upp stefnumót. Þau giftust í janúar 1954 og fóru síðan í brúðkauðsferð til Tokyo. Á meðan þau voru þar var Marilyn beðin um að fljúga til Kóreu til þess að skemmta hermönnum þar sem hún skemmti í fjóra daga.

Þegar þau sneru til baka til Bandaríkjanna fór hjónabandið strax í vaskinn. Þegar hún tók upp fræga pilsatriðið í The Seven Year Itch var Joe DiMaggio einn af mörgum áhorfendum og hann varð brjálaður af reiði. Þau rifust mikið eftir það atriði og hún sótti um skilnað stuttu seinna eftir að hafa verið gift í minna en eitt ár.

Stuttu seinna reyndu þau aftur að hefja samband og hann hélt afmælisveislu fyrir hana árið 1961 í húsinu sínu en þau voru aldrei par aftur. Eftir að hún dó þá sá hann um jarðarförina hennar og lét senda sex rauðar rósir til hennar þrisvar sinnum í viku í meira en tuttugu ár eftir lát hennar.

Arthur Miller

[breyta | breyta frumkóða]

Marilyn giftist Arthur Miller þann 29. júní árið 1956 sem hún hafði kynnst árið 1950. Eftir brúðkauðið fóru hinu nýgiftu hjón í ferð til London og heimsóttu vinafólk sitt Laurence Olivier og Vivien Leigh þar sem breskir fjölmiðlar urðu óðir í Marilyn. Brúðkaup þeirra var mjög hefðbundið gyðingabrúðkauð en Marilyn sem hafði áður verið kristin og skipti um trú fyrir hann. Því hefur verið haldið fram að hún hafi verið í sambandi með Tony Curtis þegar hún fór aftur til Bandaríkjanna og tók upp Some Like it Hot. Curtis hélt því seinna fram að fóstrið sem Marilyn missti þá hafði verið hans en ekki Millers. Þau skildu þann 24. janúar árið 1961 og hann var kvæntur á ný stuttu seinna.

Kennedy-bræðurnir

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 19. maí árið 1962 söng Marilyn afmælissönginn fyrir John F. Kennedy í beinni sjónvarpsútsendingu í New York. Fatahönnuðurinnn Jean Louis hannaði kjól sérstaklega fyrir hana sem var seinna seldur á uppboði árið 1999 fyrir rúmar 1,26 milljónir bandaríkjadala.[6] Margir hafa haldið því fram að Marilyn hafi átt í sambandi við John F. Kennedy og Robert F. Kennedy sem voru báðir giftir. Sumir hafa jafnvel sagt að Kennedy bræðurnir hafi myrt Marilyn með því að dæla í hana lyfjum. Sú kenning var aldrei tekin alvarlega af lögreglunni enda fundust engin sönnunargögn sem studdu hana. Robert Kennedy var engu að síður í Kaliforníu daginn sem Marilyn dó 4. ágúst árið 1962.

Ár Nafn Hlutverk Leikstjóri
1947 Dangerous Years Evie Arthur Pierson
1948 Scudda Hoo! Scudda Hay! Betty (ónefnd) Hugh Herbert
Ladies of the Chorus Peggy Martin Phil Karlson
1949 Love Happy Grunion's Client David Miller
1950 A Ticket to Tomahawk Clara (ónefnd) Richard Sale
Right Cross Dusky Ledoux (ónefnd) John Sturges
The Fireball Polly Tay Garnett
The Asphalt Jungle Angela Phinlay John Huston
All About Eve Miss Claudia Caswell Joseph L. Mankiewicz
1951 Love Nest Roberta Stevens Joseph M. Newman
Let's Make It Legal Joyce Mannering Richard Sale
Home Town Story Iris Martin Arthur Pierson
As Young as You Feel Harriet Harman Jones
1952 O. Henry's Full House Streetwalker Henry Koster
Monkey Business Lois Laurel Howard Hawks
Clash by Night Peggy Fritz Lang
We're Not Married! Anabel Norris Edmund Goulding
Don't Bother to Knock Nell Forbes Roy Baker
1953 Niagara Rose Loomis Henry Hathaway
Gentlemen Prefer Blondes Lorelei Lee Howard Hawks
How to Marry a Millionaire Pola Debevoise Jean Negulesco
1954 River of No Return Kay Weston Otto Preminger
There's No Business Like Show Business Vicky Walter Lang
1955 The Seven Year Itch The Girl Billy Wilder
1956 Bus Stop Chérie Joshua Logan
1957 The Prince and the Showgirl Elsie Marina Laurence Olivier
1959 Some Like It Hot Sugar Kane Kowalczyk Billy Wilder
1960 Let's Make Love Amanda Dell George Cukor
1961 The Misfits Roslyn Taber John Huston
1962 Something's Got to Give (ókláruð) Ellen Wagstaff Arden George Cukor

Í dægurmenningu

[breyta | breyta frumkóða]

Marilyn er átrúnaðargoð margra enn í dag og oft tilvitnað í í auglýsingum, kvikmyndum, tísku og fleiru. Margar leikkonur þar á meðal Anna Faris hafa endurleikið atriði Marilynar í The Seven Year Itch og margar stórstjörnur sérstaklega Madonna hafa farið í myndartökur og stillt sér upp eins og Marilyn hafði gert áður. Margar ævisögur hafa verið skrifaðar um Marilyn sem hafa orðið metsölubækur út um allan heim. Margir frægir söngvarar þar á meðal Lady Gaga og Jon Bon Jovi hafa sungið um Marilyn og nokkrar óperur hafa verið skrifaðar um hana. Marilyn er oft mjög vinsæl á meðal eftirherma og það eru oft margar „Marilynar“ á gleðigöngum.

Greinin er að hluta til þýdd frá ensku útgáfunni en það er einnig búið að bæta við ákveðnum atburðum frá lífi Marilynar.

  1. Dánartilkynning hennar, Variety, 8. ágúst, 1962, bls. 63.
  2. Hall, Susan G.(2006). American Icons: An Encyclopedia of the People, Places, and Things that Have Shaped Our Culture. Greenwood Publishing Grop. bls. 468
  3. Churchwell, pp. 150-151
  4. Riese and Hitchens, bls. 33
  5. Laurence Leamer (2002) The Kennedy Men
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. febrúar 2007. Sótt 6. febrúar 2007.