Long Island

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lega Long Island innan New York-fylkis
Sýslur á Long Island.
Viti við Montauk Point á austurodda eyjunnar

Long Island er þéttbyggð eyja við austurströnd Bandaríkjanna sem nær frá New York-höfn austur út í Atlantshafið. Á eyjunni eru fjórar sýslur sem heyra undir New York-fylki: Kings, Queens (sem eru borgarhlutarnir Brooklyn og Queens í New York-borg), Nassau og Suffolk. Í daglegu tali nota margir New York-búar orðið „Long Island“ yfir sýslunum Nassau og Suffolk sem svipar frekar til úthverfa en borgarhluta.

Long Island er bæði lengsta og stærsta eyja við meginland Bandaríkjanna. Eyjan er 190 km að lengd og 30 km að breidd á sínum breiðasta punkti. Norðan við eyjuna liggur Long Island-sund og fylkið Connecticut. Yfir Block Island-sund í norðaustri liggur Rhode Island. Í vestri er áin East River sem skilur Long Island frá Manhattan og Bronx. Í austri liggur Block Island og fleiri smærri eyjar.

Íbúar Long Island voru 7.838.722 árið 2015 sem svarar til 40% íbúafjölda New York-fylkis. Long Island er þéttbyggðasta eyja Bandaríkjanna og sú 18. þéttbyggðasta í heimi. Á hverjum ferkílómetra búa 2.160,3 manns. Íbúar Long Island eru fjölbreyttir en á eyjunni eru nokkur dýrustu hverfi í vesturheimi ásamt stórum fjölda verkmanna.

Á eyjunni eru tveir flugvellir sem þjóna íbúum New York-borgar: JFK og LaGuardia. Long Island er tengd við New York-borg með níu brúum og 13 göngum. Ferjusiglingar eru frá Long Island til Connecticut. Long Island-járnbrautin er sú fjölfarnasta í Bandaríkjunum og ekur allan sólarhringinn.

Heimild[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi landafræðigrein sem tengist Bandaríkjunum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.