Fara í innihald

Eiríkur 14.

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eiríkur 14. Svíakonungur. Málverk eftir Domenicus Werwildt.

Eiríkur 14. (13. desember 153326. febrúar 1577) var konungur Svíþjóðar frá 1560 þar til hann var settur af árið 1568 vegna geðsýki. Eftir það var hann fangelsaður til æviloka og var sennilega drepinn með eitri.

Uppvöxtur og kvonbænir[breyta | breyta frumkóða]

Eiríkur var sonur Gústafs Vasa og fyrstu konu hans, Katrínar af Saxe-Lauenburg. Móðir hans dó þegar hann var tæplega tveggja ára og skömmu síðar giftist faðir hans að nýju Margréti Leijonhufvud. Jóhann hálfbróðir hans fæddist í árslok 1537, elstur af átta börnum Gústafs og Margrétar. Aðalkennari bæði Eiríks og Jóhanns var franski kalvínistinn Dionysius Beurreus. Eiríkur var góður námsmaður, einkum í tungumálum og stærðfræði, en hafði einnig góða sagnfræðikunnáttu, var ritfær og hafði þekkingu á stjörnuspeki.

Eiríkur hóf þreifingar um hjónaband við ensku konungsdótturina Elísabetu Tudor, síðar drottningu, þvert gegn vilja föður síns. Hann reyndi í nokkur ár að semja um giftingu og var á leið til Englands 1560 þegar fregnir bárust af láti föður hans og að hann væri orðinn konungur. Þá gaf hann Elísabetu upp á bátinn en leitaði síðar eftir hjúskap við Maríu Skotadrottningu og ýmsar evrópskar prinsessur, án árangurs.

Ríkisstjórnarár Eiríks[breyta | breyta frumkóða]

Eiríkur er talinn hafa verið greindur, listfengur og pólitískt metnaðargjarn, en mjög skapríkur og tortrygginn sýndi snemma einkenni geðrænna truflana sem þróuðust yfir í geðveiki. Geðlæknar sem rannsakað hafa lýsingar á konungi og hegðun hans telja að hann hafi verið geðklofi en þó ber að athuga að þegar hann var settur af er líklegt að andstæðingar hans hafi reynt að gera sem mest úr einkennunum og ekki víst að allt sé satt sem sagt var um konunginn.

Sænskir aðalsmenn voru ósáttir við margt í stjórnun konungs og einn helsti leiðtogi þeirra var Jóhann, bróðir hans, sem var hertogi af Finnlandi og kvæntur pólskri konungsdóttur, svo að hann naut stuðnings frá Póllandi. Eiríkur lét handtaka Jóhann 1563 fyrir landráð og hafði hann í haldi í nokkur ár. Sama ár hófst Sjö ára stríðið við Danmörku en Friðrik 2. Danakonungur var ósáttur við útþenslustefnu Eiríks í Eystrasaltslöndum.

Á næstu árum virðist geðheilsu Eiríks hafa hrakað, ákvarðanir hans voru vanhugsaðar og fólu oft í sér ofbeldi. Árið 1566 lét hann drepa ýmsa meðlimi Sture-ættarinnar, sem hann grunaði um landráð. Sture-morðin svonefndu mæltust mjög illa fyrir og andstaða við konunginn fór sífellt vaxandi.

Karin Monsdóttir[breyta | breyta frumkóða]

Eiríkur konungur með Karinu og Jöran Persson ráðgjafa sínum.

Árið 1565 tók konungurinn sér fimmtán ára þjónustustúlku Elísabetar systur sinnar fyrir ástkonu. Hún hét Karin Monsdóttir og var af fátæku fólki komin.

Eiríkur hafði áður átt fjölda hjákvenna - ein þeirra var Agda Persdóttir, sem ól honum fjórar dætur - en eftir að Karin kom til sögunnar leit hann ekki á aðrar konur. Hann lét hana fá eigin íbúð og þjónustufólk í höllinni, lét kenna henni að lesa og skrifa og þegar Sigríður dóttir þeirra fæddist 1566 var hún meðhöndluð eins og hún væri skilgetin. Karin er sögð hafa verið afar falleg, skapgóð, lítillát og ljúf og hún virðist hafa verið sú eina sem hafði tök á að róa konunginn niður.

Eiríkur giftist Karinu leynilega 1567 og opinberlega 1568, eftir að hún hafði fætt honum soninn Gústaf, og lét krýna þá hana drottningu undir nafninu Katrín Magnúsdóttir og lýsa börn þeirra skilgetin. Líklega var brúðkaupið kornið sem fyllti mælinn því að þótt Karin ætti sér enga óvini og nyti raunar velvildar hjá konungsfjölskyldunni vegna þeirra góðu áhrifa sem hún hafði á Eirík, þá þótti hún engan veginn honum samboðin og gifting þeirra olli mikilli hneykslun. Skömmu síðar gerðu bræður Eiríks uppreisn með stuðningi aðalsins, hnepptu konungsfjölskylduna í varðhald og settu Eirík af. Jóhann var gerður að konungi í hans stað.

Fangavist og dauði[breyta | breyta frumkóða]

Helsti ráðgjafi Eiríks, Jöran Persson, tók á sig mikið af sökinni fyrir illvirki sem framin höfðu verið í stjórnartíð Eiríks og var hann tekinn af lífi.Fyrstu árin var fjölskyldan höfð saman í haldi og Karin ól tvo syni í viðbót sem dóu báðir á barnsaldri. Eftir það voru þau aðskilin og skömmu síðar var Gústaf prins sendur til Póllands, þar sem hann ólst upp.

Eiríkur var hafður í haldi í ýmsum köstulum í Svíþjóð og Finnlandi en dó í Örbyhus-kastala eftir níu ára fangavist. Sagan segirað hann hafi dáið eftir að hafa borðað skál af eitraðri baunasúpu. Til er bréf, undirritað af Jóhanni bróður hans og aðalsmanninum Bengt Bengtsson Gylta, þar sem varðmönnum Eiríks er gefið leyfi til að eitra fyrir honum ef einhver reyndi að leysa hann úr haldi. Seinni tíma rannsókn á beinum hans leiddi í ljós að hann hafði innbyrt banvænan skammt af arseniki.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]


Fyrirrennari:
Gústaf 1. Vasa
Svíakonungur
(15601568)
Eftirmaður:
Jóhann 3.