Fara í innihald

Sörkvir eldri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þessa veggmynd, sem er að finna í sænskri kirkju, er sögð eiga að tákna Sörkvi konung.

Sörkvir eldri (d. 25. desember 1156) var konungur í Svíþjóð frá því um 1130 og til dauðadags. Hann var ættfaðir Sörkvisættar. Hann var auðugur höfðingi frá Austur-Gautlandi og hét faðir hans Kolur samkvæmt Skáldatali. Hann var hylltur sem konungur skömmu eftir 1130 og vann síðan Vestur-Gautland af Magnúsi sterka, syni Níelsar Danakonungs.

Sörkvir var konungur í um 26 ár en fátt er þó vitað um hann. Samkvæmt rússneskum heimildum urðu átök á milli Svía og Garðaríkis 1142 en þá hafði friður ríkt þar á milli í heila öld. Sörkvir styrkti ríki sitt og völd með giftingum. Fyrri kona hans var Úlfhildur Hákonardóttir, ekkja Inga yngri, sem var konungur Svíþjóðar 1110-1125. Hún var af norskri höfðingjaætt og styrkti Sörkvir því bæði tengsli við Noreg og við ætt Inga konungs. Raunar hafði hún í millitíðinni verið gift Níels Danakonungi en sagði skilið við hann. Seinna giftist Sörkvir Ríkissu af Póllandi, sem áður hafði verið gift Magnúsi sterka og síðan Volodar fursta af Minsk.

Sörkvir er sagður hafa átt í stríði við Svein Eiríksson Danakonung upp úr 1150. Knútur stjúpsonur hans, sonur Ríkissu og Magnúsar sterka, var meðkonungur Sveins, sem lét svo drepa hann 1157. Þá hafði Sörkvir sjálfur verið drepinn en það gerðist á jóladag 1156, þegar hann var að fara til morgunmessu. Morðinginn var hestasveinn hans. Grunur lék á Magnús Hinriksson stæði að baki morðinu, en hann gerði kröfu til krúnunnar sem dóttursonur Inga hins yngri. Það var þó Eiríkur helgi sem varð konungur eftir Sörkvi en Magnús lét drepa hann nokkrum árum síðar og varð sjálfur konungur skamma hríð.

Með Úlfhildi átti Sörkvir meðal annars synina Jóhann, sem var drepinn vegna kvennaráns sem hann framdi, og Karl, sem varð konungur Svíþjóðar 1161, og dótturina Ingigerði, sem giftist stjúpbróður sínum, Knúti Magnússyni Danakonungi. Þau voru barnlaus. Með Ríkissu átti Sörkvir soninn Búrisláf og einnig átti hann son sem Kolur hét en óvíst er hver móðir hans var. Báðir gerðu þeir kröfu til krúnunnar en féllu fyrir Knúti konungi Eiríkssyni.


Fyrirrennari:
Magnús 1.
Svíakonungur
(um 11301156)
Eftirmaður:
Eiríkur helgi