Fara í innihald

Hafís

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Ísjaki)
Hafís

Hafís er samheiti yfir ís sem flýtur á hafinu. Af honum eru tvær megintegundir, rekís og lagnaðarís. Rekís er sá ís sem rekur utan af hafi og leggst stundum upp að landi, einkum þegar kalt er í ári. Að ströndum Íslands kemur hann einkum úr norðvestri, frá íshafinu við Grænland. Lagnaðarís verður hins vegar til uppi í landsteinum, og hér við land frekar sjaldan nema á allra köldustu vetrum, enda frýs saltvatn ekki fyrr en við töluvert lágt hitastig. Það er kallað að sjó leggi þegar yfirborð hans frýs.

Hafís hefur löngum verið óvinsæll á Íslandi. Honum fylgir kalt loft og stundum fylgja honum ísbirnir. Auk þess getur hann verið hættulegur skipum eða beinlínis gert siglingaleiðir ófærar.

Siglingar á norðurslóðum gerbreyttust á 20. öld, þegar menn fóru að smíða ísbrjóta, skip sem eru nógu sterkbyggð og kraftmikil til að geta plægt í gegn um ísbreiðu og þannig rutt leiðina fyrir önnur skip.

Sem óvígur floti með öfug segl
er ömurlegt hafjakaþing,
og ísnálaþoka með haglskýjahregl
er hervörður allt í kring.
— úr kvæðinu: Í hafísnum, eftir Hannes Hafstein


Nokkur orð tengd hafís

[breyta | breyta frumkóða]
  • blindjaki er ísjaki sem marar í kafi.
  • borðís er ísjaki sem brotnar af íshellu og er jafnan flatur að ofan.
  • borgarís er þykkur rekís (rís oft hátt úr sjó), brot af skriðjökli.
  • fjalljaki er borgarís.
  • hafgirðingar ófæra á hafi, einkum ísalög.
  • hafþök eru víðáttumiklar hafísbreiður.
  • ísjaki ísstykki, á sjó eða vötnum, mismunandi að stærð og lögun.
  • íslumma lítill, stakur ísjaki með uppbrettar brúnir sökum núnings við aðra jaka.
  • lagís er lagnaðarís.
  • lagnaðarís er ís á vatni eða sjó.
  • landsins forni fjandi eru orð höfð um hafís. Hafísinn er svo nefndur eftir upphafi á kvæði eftir Matthías Jochumsson. Kvæðið nefnist Hafís, og Matthias samdi það laugardaginn fyrir páska 1880 eftir miklar vetrarhörkur. Hafís hefst þannig: Ertu kominn, landsins forni fjandi?
  • pækilrás stutt lóðrétt holrúm í hafísjaka, lokað í báða enda, fullt af sjó, myndast þegar saltvatn sígur niður í ísinn og jafnóðum frýs í rásina eftir það.
  • Sá græni er hafís.
  • sullgarður eru íshrannir þær nefndar sem verða eftir í flæðarmálinu þegar hafís hopar frá landi, en einnig haft um frosinn snjóskafl við fjöruborð.
  • sæfreri er hafís.
  Þessi náttúruvísindagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.