Humboldt-straumurinn
Útlit
Humboldt-straumurinn eða Perústraumurinn er kaldur saltlítill hafstraumur sem streymir í norður eftir vesturströnd Suður-Ameríku frá suðurenda Chile að norðurhluta Perú. Hann nær allt að þúsund kílómetra frá ströndinni. Hann skapar mikið uppstreymi næringarefna frá botninum og er þannig undirstaða lífríkis í hafinu á stóru svæði. Straumurinn dregur nafn sitt af prússneska náttúrufræðingnum Alexander von Humboldt.
Humboldt-straumurinn kælir strendur Chile, Perú og Ekvador. Hann ber líka ábyrgð á þurrkum í Atacama-eyðimörkinni í Norður-Chile, í Suður-Ekvador og strandhéruðum Perú þar sem kæling loftsins dregur úr úrkomu.