Alec Douglas-Home
Sir Alec Douglas-Home | |
---|---|
Forsætisráðherra Bretlands | |
Í embætti 19. október 1963 – 16. október 1964 | |
Þjóðhöfðingi | Elísabet 2. |
Forveri | Harold Macmillan |
Eftirmaður | Harold Wilson |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 2. júlí 1903 Mayfair, London, Englandi |
Látinn | 9. október 1995 (92 ára) Coldstream, Skotlandi |
Stjórnmálaflokkur | Íhaldsflokkurinn |
Maki | Elizabeth Alington (g. 1936; d. 1990) |
Börn | Caroline, Meriel, Diana, David |
Háskóli | Christ Church, Oxford |
Starf | Aðalsmaður, stjórnmálamaður |
Alexander Frederick Douglas-Home, Home barón af Hirsel (2. júlí 1903 – 9. október 1995) var breskur stjórnmálamaður í Íhaldsflokknum sem var forsætisráðherra Bretlands frá október 1963 til október 1964. Hann er síðasti forsætisráðherra Breta sem gegndi embættinu á meðan hann sat á lávarðadeild breska þingsins. Hann sagði sig úr lávarðadeildinni og gekk í neðri deild þingsins á meðan hann var forsætisráðherra. Hann var jafnframt utanríkisráðherra í tveimur ríkisstjórnum áður en hann tók við forsætisráðuneytinu.
Innan sex vikna eftir að Douglas-Home gekk á neðri deild þingsins árið 1931 var hann orðinn aðstoðarmaður Neville Chamberlain og var vitni að undanlátsstefnu hans í tvö ár í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar. Árið 1940 var hann greindur með berkla og var óstarfhæfur í tvö ár. Á seinni hluta stríðsins hafði honum batnað nógu vel til að geta haldið áfram stjórnmálaferli sínum en hann tapaði þingsæti sínu í þingkosningunum árið 1945. Hann komst aftur á þing árið 1950 en steig úr neðri deild þingsins þegar hann erfði jarlsnafnbót föður síns og með henni sæti á lávarðadeild breska þingsins sem 14. jarlinn af Home. Í ríkisstjórnum Winstons Churchill, Anthony Eden og Harolds Macmillan var Douglas-Home útnefndur í æ valdameiri stöður, þar á meðal í stöðu þingleiðtoga lávarðadeildarinnar og utanríkisráðherra. Sem utanríkisráðherra frá 1960 til 1963 studdi hann Bandaríkin í Kúbudeilunni og skrifaði undir sáttmála um takmörkun á kjarnorkutilraunum fyrir hönd Breta árið 1963.
Í október 1963 sagði Macmillan af sér sem forsætisráðherra vegna veikinda. Douglas-Home leysti hann af hólmi. Á sjöunda áratugnum var ekki lengur ásættanlegt að forsætisráðherrann sæti í lávarðadeild þingsins og því lét Douglas-Home af hendi jarlsnafnbót sína og náði kjöri í neðri deild þingsins sem Sir Alec Douglas-Home. Umdeilt var hvernig Douglas-Home var útnefndur í ráðherraembættið og nokkrir af ráðherrunum úr ríkisstjórn Macmillan neituðu að sitja áfram í stjórn Douglas-Home. Þingmenn Verkamannaflokksins gagnrýndu Douglas-Home og litu á hann sem aðalsmann sem vissi ekkert um vandamál venjulegra fjölskyldna. Auk þess þótti hann sérstaklega þurr á manninn í sjónvarpsviðtölum í samanburði við leiðtoga Verkamanna, Harold Wilson. Sem forsætisráðherra þótti Douglas-Home ætíð gamaldags: Hann hafði lítinn skilning á efnahagsmálum og lét fjármálaráðherra sinn, Reginald Maulding, aðallega um þau. Douglas-Home naut sín best í utanríkismálefnum en á forsætisráðherratíð hans komu ekki upp neinar meiriháttar utanríkisdeilur.
Íhaldsflokkurinn, sem hafði setið í ríkisstjórn frá árinu 1951, hafði beðið nokkurn orðstírshnekki vegna kynlífshneykslis árið 1963 og þegar Douglas-Home var útnefndur virtist það blasa við að flokkurinn ætti mikinn kosningaósigur í vændum. Forsætisráðherratíð Douglas-Home var hin næststysta á tuttugustu öldini og entist aðeins í tæpt ár. Eftir að Íhaldsflokkurinn tapaði naumlega í kosningum árið 1964 sagði Douglas-Home af sér sem formaður flokksins. Hann varð síðar utanríkisráðherra á ný í ríkisstjórn Edward Heath frá 1970 til 1974. Þegar Heath-stjórnin tapaði kosningum sneri Douglas-Home aftur á lávarðadeildina og hætti afskiptum af stjórnmálum.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Alec Douglas-Home“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 6. janúar 2018.
Fyrirrennari: Harold Macmillan |
|
Eftirmaður: Harold Wilson |