Fara í innihald

Íslenska útrásin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Íslenska útrásin var tímabil í fjármálasögu Íslands sem má segja að hafi hafist nálægt aldamótunum 2000 og kann að hafa lokið í lok september eða byrjun október 2008. Forsendur útrásarinnar voru einkavæðing bankanna, lagasetning sem var hagstæð fyrir fjárfestingar, mikið framboð af ódýru lánsfjármagni á alþjóðamörkuðum og ákvæði í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið sem kveða á um frjálst flæði fjármagns. Loks ber að geta efnahagsþenslu vegna stóriðjuuppbyggingar, ekki síst á Kárahnjúkum. Þegar íslenskir fjárfestar höfðu eignast stæðileg fjármálafyrirtæki fóru þeir að fjárfesta í miklum mæli erlendis.

Meðal áberandi fjárfestinga voru erlend flugfélög, eins og Sterling, lyfjafyrirtæki og símafyrirtæki í Austur-Evrópu, og ýmsar verslanir, verslanakeðjur og önnur fyrirtæki, einkum í Bretlandi (t.d. Debenhams, Woolworths, Hamleys o.fl.) og Danmörku (Magasin de Nord, Royal Unibrew o.fl.)

Fjárfestarnir -- þar á meðal Jón Ásgeir Jóhannesson, Hannes Smárason og Björgólfur Thor Björgólfsson -- efnuðust hratt á fjárfestingum, lifðu hátt og voru oft kallaðir „útrásarvíkingarnir“, „þotulið“ (eftir einkaþotum þeirra) og fleira slíkt.

Á meðan allt virtist leika í lyndi þóttust sumir sjá að ekki væri allt sem sýndist. Þannig tjáðu ýmsir innlendir og erlendir hagfræðingar sig um hagkerfið og að það væri ekki stöðugt, m.a. vegna þess að það væri svo smátt, Seðlabankinn þar með talinn, að það gæti ekki staðið á bak við alla bankastarfsemina sem íslenskir bankar voru með erlendis.

Fyrsta bakslagið var sennilega stórt gengisfall krónunnar upp úr miðjum marsmánuði 2008. Sumir kenndu erlendum vogunarsjóðum um að hafa tekið stöðu gegn gengi krónunnar til að hagnast á falli þess. Aðrir kenndu bönkunum um og bentu á að vegna mikillar gjaldeyriseignar hefðu þeir grætt á fallinu. Loks voru þeir sem kenndu stefnu stjórnvalda um, að þenslan (aðallega vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar) hefði einfaldlega gert krónuna veika fyrir og þannig boðið hættunni heim.

Eftir nokkurra mánaða erfiðleika í efnahagsmálum, kom stærsti skellurinn þegar kreppa skall á haustið 2008. Fjármálafyrirtækin reyndust þá ekki öll vera eins vel undir hana búin. Íslensk yfirvöld yfirtóku þannig Glitni þann 29. september og Landsbankann og Kaupþing fáum dögum seinna.

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.