Bettino Craxi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bettino Craxi
Forsætisráðherra Ítalíu
Í embætti
4. ágúst 1983 – 17. apríl 1987
ForsetiSandro Pertini
Francesco Cossiga
ForveriAmintore Fanfani
EftirmaðurAmintore Fanfani
Persónulegar upplýsingar
Fæddur24. febrúar 1934
Mílanó, Ítalíu
Látinn19. janúar 2000 (65 ára) Hammamet, Túnis
ÞjóðerniÍtalskur
StjórnmálaflokkurÍtalski sósíalistaflokkurinn
MakiAnna Maria Moncini (g. 1959)
Börn2
Undirskrift

Bettino Craxi (24. febrúar 193419. janúar 2000) var ítalskur stjórnmálamaður og forsætisráðherra Ítalíu frá 1983 til 1987. Hann var formaður ítalska sósíalistaflokksins frá 1976 til 1993.

Stjórnmálaferill[breyta | breyta frumkóða]

Craxi er sá forsætisráðherra sem næstlengst hefur setið samfellt (sá sem hefur setið lengst er Silvio Berlusconi) og hafði mikil áhrif á stjórnmál á Ítalíu á níunda áratugnum. Hann myndaði nokkurs konar bandalag með tveimur leiðtogum kristilegra demókrata, Giulio Andreotti og Arnaldo Forlani. Hann reyndi að færa sósíalistaflokkinn nær miðju og fjær ítalska kommúnistaflokknum.[1] Undir hans stjórn vann flokkurinn mikilvæga kosningasigra,[2] en varð þó aldrei jafnstór og kommúnistaflokkurinn.

Á valdatíma Craxis náði Ítalía að verða fimmta stærsta iðnríki heims, en mikil verðbólga hrjáði efnahagslífið á sama tíma og erlendar skuldir margfölduðust, og urðu hærri en landsframleiðslan.

Ránið á Achille Lauro[breyta | breyta frumkóða]

Craxi þótti ákveðinn leiðtogi og vakti meðal annars athygli þegar hann neitaði Ronald Reagan Bandaríkjaforseta um að fá í hendur hryðjuverkamennina sem rændu skipinu Achille Lauro og myrtu einn bandarísku gíslanna um borð. Eftir samningaviðræður fengu mennirnir að fljúga frá Egyptalandi til Túnis, en bandarískar herþotur neyddu flugvélina til að lenda á Sigonella-herstöðinni á Sikiley. Craxi lét þá ítalska herinn umkringja bandarísku hermennina sem vörðu vélina og tók hryðjuverkamennina höndum á þeirri forsendu að Ítalía ætti lögsögu á herstöðinni, þótt hún væri bandarísk. Mennirnir voru síðan dæmdir í tiltölulega stutt fangelsi en náðu að flýja land.

Einn hryðjuverkamannanna, Palestínumaðurinn Abu Abbas, var síðar handtekinn í kjölfar innrásar Bandaríkjamanna í Írak 2003 og lést skömmu síðar, af náttúrulegum orsökum að talið er.

Fyrir þessar aðgerðir hlaut Craxi standandi lófatak í ítölsku öldungadeildinni, meðal annars frá andstæðingum sínum í kommúnistaflokknum.

Mani pulite og flóttinn til Túnis[breyta | breyta frumkóða]

Snemma á tíunda áratugnum hóf dómsvaldið á Ítalíu rannsókn á spillingu í ítölskum stjórnmálum sem var kölluð Mani pulite. Allir stjórnmálaflokkar lentu undir smásjá og reyndust hafa tekið við ólöglegum fjármunum, en kristilegir demókratar og sósíalistar urðu langverst úti. Sósíalistaflokkurinn missti nær allt sitt fylgi (sem var um 15%) og Craxi neyddist til að segja af sér formennsku í flokknum. Craxi reyndi meðan á rannsókninni stóð að lýsa því yfir að allir flokkar væru jafnsekir, fremur en að sósíalistar væru saklausir, en þessi málsvörn hlaut lítinn hljómgrunn meðal almennings.

Líferni Craxis þótti líka yfirgengilegt, þar sem hann bjó á dýru hóteli í Róm og átti að auki glæsihýsi í Hammamet í Túnis. Hann hélt um sig hirð vina og fylgismanna, sem taldi meðal annars skólafélaga hans, Silvio Berlusconi, og sem einn gagnrýnandi lýsti sem hirð dverga og dansmeyja. Fyrir þetta varð hann að táknmynd spillingarinnar sem Mani pulite-rannsóknin hafði leitt í ljós að væri útbreidd meðal ítalskra stjórnmálamanna. Eitt sinn árið 1994 þegar hann kom út af hóteli sínu í Róm, tók á móti honum mannfjöldi sem henti í hann smápeningum og söng „Taktu þessa líka, Bettino“ („Bettino, prendi anche queste“) við lagið Guantanamera.

Skömmu síðar flúði hann land til Túnis vegna ótta við að lenda í fangelsi fyrir spillingu. Hann hélt lengi fram sakleysi sínu og að hann væri fórnarlamb pólitískra ofsókna. Fjölskylda hans og vinir reyndu einnig að fá því framgengt að hann fengi að snúa aftur með friðhelgi, síðast vegna veikinda hans, en hann þjáðist af sykursýki. Hann lést að lokum vegna þessara veikinda í Túnis árið 2000.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Erfitt fyrir kristilega demókrata að losna við Bettino Craxi“. Tíminn. 13. júlí 1986. Sótt 29. nóvember 2019.
  2. Anna Bjarnadóttir (24. júní 1984). „Maðurinn sem vill breyta Ítalíu“. Morgunblaðið. Sótt 29. nóvember 2019.


Fyrirrennari:
Amintore Fanfani
Forsætisráðherra Ítalíu
(1983 – 1987)
Eftirmaður:
Amintore Fanfani