Fara í innihald

Mani pulite

Þessi grein er gæðagrein að mati notenda Wikipediu.
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Mótmælendur fleygja myntum í fyrrum forsætisráðherrann Bettino Craxi.

Mani pulite (ítalska: hreinar hendur) er heiti á röð réttarhalda sem komu í kjölfarið á rannsókn dómsvaldsins á Ítalíu á spillingu í ítölskum stjórnmálum á árunum 1992 og 1993. Það kerfi mútugreiðslna og spillingar hjá stjórnmálamönnum og aðilum í atvinnulífinu sem rannsóknin leiddi í ljós var kallað Tangentopoli[1] (Mútuborgin) af fjölmiðlum.[2] Réttarhöldin leiddu til endaloka stjórnarflokkanna tveggja, kristilegra demókrata (sem hafði setið í öllum ríkisstjórnum Ítalíu frá stríðslokum) og Ítalska sósíalistaflokksins. Nær heil kynslóð ítalskra stjórmálamanna hvarf af vettvangi í kjölfarið, sem meðal annars ruddi brautina fyrir fyrsta kosningasigur Silvios Berlusconis árið 1994.

Ríkir munkar í fátæku klaustri

[breyta | breyta frumkóða]

Tangentopoli gekk út á það að stjórnmálaflokkar skiptu með sér embættum og stöðum hjá hinu opinbera eftir ákveðnu kerfi sem átti að tryggja þeim stöðuveitingar sem væru nokkurn veginn í samræmi við fylgi. Þetta olli því að oft völdust óhæfir einstaklingar til að gegna stöðum hjá ítalska ríkinu og í ríkisfyrirtækjum. Þessir einstaklingar lentu auk þess í aðstöðu sem gerði þeim kleift að hagnast persónulega á „greiðum“ við einstaklinga og fyrirtæki. Einn meðlimur Ítalska sósíalistaflokksins orðaði það svo að „munkarnir eru ríkir, en klaustrið fátækt“ (sem er umsnúningur á því sem sagt var um reglu heilags Frans á miðöldum).

Evran var tekin upp sem gjaldmiðill í bankakerfinu á Ítalíu árið 1999.

Stjórnmálaástandið á Ítalíu frá stríðslokum einkenndist af því sem fréttaskýrendur kölluðu „stöðugan óstöðugleika“. Ríkisstjórnir sátu að meðaltali einungis ellefu mánuði, en sami stjórnmálaflokkurinn, Kristilegi demókrataflokkurinn, var samt alltaf stærsti flokkurinn og stýrði öllum ríkisstjórnum, þar sem það þótti óhugsandi að stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, Ítalski kommúnistaflokkurinn, kæmist til valda í NATO-landi. Stjórnin var að nafninu til vinstri-miðjustjórn, en eina raunverulega stjórnarandstaðan var vinstra megin við hana. Á hægri vængnum voru litlir öfgaflokkar eins og Þjóðfélagshreyfing Ítalíu (Movimento sociale italiano - MSI) sem kenndu sig við nýfasisma.

Ýmsar blikur voru þó á lofti í upphafi tíunda áratugarins sem gáfu von um breytingar. Ríkisstjórnin hafði hafið það verk að einkavæða ríkisfyrirtæki og koma fastari böndum á efnahagslífið í tengslum við Efnahags- og myntbandalag Evrópu sem taka átti gildi með Maastricht-sáttmálanum 1. nóvember 1993. Árið 1993 var kosningakerfinu á Ítalíu auk þess breytt úr hlutfallskosningu í meirihlutakosningu til að reyna að auðvelda myndun stöðugra ríkisstjórna.

Upphaf málsins

[breyta | breyta frumkóða]

Mani pulite hófust með því að rannsóknardómarinn Antonio Di Pietro lét handtaka Mario Chiesa fyrir mútuþægni þann 17. febrúar 1992. Chiesa var þá forstjóri elliheimilis í Mílanó og meðlimur í ítalska sósíalistaflokknum. Aðrir meðlimir flokksins, eins og Bettino Craxi formaður og fyrrverandi forsætisráðherra, höfnuðu því við þetta tækifæri að spilling væri útbreidd í ítölskum stjórnmálum og héldu því fram að mál Chiesa væri einangrað tilvik. Eftir nokkra mánuði í fangelsi og eftir að lögreglan hafði gert upptækar allar eignir Chiesa (sem voru umtalsverðar), hóf hann að gefa út yfirlýsingar sem tengdu marga þekkta stjórnmálamenn við spillingu og mútugreiðslur sem Chiesa hafði sjálfur átt þátt í, meðal annars með fjármunum frá ítölsku mafíunni. Þetta gerði dómurunum kleift að víkka rannsóknina út.[3]

Útvíkkun rannsóknarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

5. apríl 1992 voru haldnar þingkosningar á Ítalíu. Kristilegir demókratar og sósíalistaflokkurinn misstu töluvert fylgi en stjórnin hélt naumlega velli. Atkvæði kjósenda dreifðust mikið, t.d. á hið nýstofnaða Norðursamband, og erfitt reyndist að mynda starfhæfa stjórn. 22. apríl voru átta stjórnendur stórfyrirtækja handteknir í tengslum við rannsóknina, grunaðir um að hafa beitt mútum til að fá verkefni frá ríkisfyrirtækjum eins og orkufyrirtækinu ENI. Í byrjun maí sama ár var svo farið að óska leyfis ítalska þingsins til að handtaka þingmenn grunaða um spillingu. Einkum sneri þetta að þingmönnum stjórnarflokkanna, en stjórnarandstöðuþingmenn voru líka teknir. Leiðtogar flokkanna reyndu hvað þeir gátu til að hafna allri ábyrgð og skella skuldinni á þá handteknu. Þetta varð síðan til þess að þeir grunuðu voru meira en viljugir til að koma fram með yfirlýsingar gegn eigin flokksleiðtogum og segja þá meðseka. Ástandið á Ítalíu allri var vægast sagt undarlegt. Yfir fimm þúsund af öllum stigum þjóðfélagsins voru tekin til rannsóknar og hver handtakan rak aðra. Smátt og smátt vatt lögreglan ofanaf víðtæku kerfi spillingar og neti mútugreiðslna meðal stórfyrirtækja, ríkisforstjóra, ráðherra og þingmanna.[4]

Dómaramorðin í Palermó

[breyta | breyta frumkóða]

23. maí 1992 var Giovanni Falcone, rannsóknardómari sem fékkst við baráttuna gegn mafíunni, myrtur í Palermó ásamt konu sinni, með bílasprengju. Strax fóru af stað samsæriskenningar um að morðið hefði verið fyrirskipað af spilltum stjórnmálamönnum, en síðari rannsóknir leiddu í ljós að ekkert var til í því. Skömmu síðar, 19. júlí, var samstarfsmaður Falcones, Paolo Borsellino, drepinn með sama hætti. Þessi mafíumorð virkuðu eins og olía á eld hvað almenningsálitið á Ítalíu varðaði.

Áhrif á stjórnmálin

[breyta | breyta frumkóða]

Í sveitarstjórnarkosningunum 14. desember 1992 biðu demókratar og sósíalistar afhroð og fengu helmingi færri atkvæði en í fyrri kosningum. Daginn eftir fékk Craxi afhenta sína fyrstu dómskvaðningu og tveimur dögum síðar samþykkti þingið fjárlög og einkavæðingaráform stjórnarinnar. Í lok janúar, árið eftir, óskaði Craxi eftir að hafin yrði þingrannsókn á fjárreiðum allra stjórnmálaflokka, en innan við mánuði síðar neyddist hann til að segja af sér formennsku í flokknum vegna málsins.

5. mars 1993 reyndi ríkisstjórnin, undir forystu demókratans Giuliano Amato, að koma í gegn nýjum lögum um fjárreiður stjórnmálaflokka sem hefðu haft í för með sér nokkurs konar sakaruppgjöf fyrir meirihluta þeirra sem nú lágu undir ásökunum um spillingu. Þáverandi forseti Ítalíu, Oscar Luigi Scalfaro, neitaði að skrifa undir lögin vegna þess að hann taldi þau stríða gegn stjórnarskránni. Aðeins viku síðar komst upp um ólöglega sjóði upp á milljónir bandaríkjadala í eigu ENI. Fleiri handtökur fylgdu í kjölfarið.

Í apríl hafnaði þingið fjórum sinnum umsókn um niðurfellingu þinghelgi Bettinos Craxis. Þrír ráðherrar sósíaldemókrata sögðu í kjölfarið af sér ráðherraembætti í mótmælaskyni. Í annarri umferð sveitarstjórnarkosninganna 6. júní hrundi fylgið af stjórnarflokkunum, sósíalistar hurfu nær algerlega og Norðursambandið breyttist úr litlum andspyrnuflokki í sterkt stjórnmálaafl á mörgum stöðum á Norður-Ítalíu.

Cusani-réttarhöldin

[breyta | breyta frumkóða]

20. júlí þetta sama ár framdi fyrrum forstjóri ENI, Gabriele Cagliari, sjálfsmorð í fangelsi. Stuttu síðar skilaði eiginkona hans 6 milljörðum líra af ólöglegu fé. Í millitíðinni hófust réttarhöld yfir Sergio Cusani sem var millistjórnandi hjá, Montedison, fjárfestingafyrirtæki á sviði orkumála, fyrir röð af mútugreiðslum til ENI. Leyfi fékkst til að sjónvarpa beint frá réttarhöldunum, og þeir stjórnmálamenn sem ásakaðir höfðu verið um spillingu, kallaðir inn sem vitni. Sérlega eftirminnileg var yfirheyrslan 17. desember þegar fyrrum forsætisráðherra, Arnaldo Forlani, sem verið hafði fjármálastjóri demókrataflokksins, birtist greinilega taugaveiklaður á sjónvarpsskjánum og kvaðst ekki muna eftir því hvort hann hefði tekið við ólöglegum fjármunum. Bettino Craxi var hins vegar rólegur og viðurkenndi að flokkur hans hefði tekið við 93 milljónum dala af ólöglegu fé. „Það gerðu það allir“, var réttlæting hans, og reyndar kom í ljós að svo til allir þeir flokkar sem þá voru á þingi höfðu tekið við slíku fé vísvitandi. Sumir þeirra komu þó mun verr út úr réttarhöldunum en aðrir. Einkum voru það stjórnarflokkarnir sem komu illa út. Kristilegir demókratar höfðu verið við völd á Ítalíu óslitið frá stríðslokum og voru almennt taldir bera mesta ábyrgð á því hvernig komið var á meðan ungir flokkar, eins og Norðursambandið, vörðu sig með því að þetta hefðu verið einu framlögin sem þeim hefðu staðið til boða.

Cusani var dæmdur til átta ára fangelsisvistar. Nokkru áður samþykkti þingið lög sem drógu mjög úr möguleikum dómsvaldsins til að óska eftir niðurfellingu þinghelgi.

Nýjar vígstöðvar

[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknin tók síðan enn nýja stefnu í apríl 1994 þegar 80 meðlimir efnahagsbrotalögreglunnar og 300 aðilar úr atvinnulífinu voru handteknir fyrir mútugreiðslur og mútuþægni. Nokkrum dögum síðar viðurkenndi ritari bílaframleiðandans Fiat, Cesare Romiti, spillingu innan fyrirtækisins með bréfi til dagblaðsins Corriere della sera.

Í kosningunum í mars 1994 fór Silvio Berlusconi, þekktur athafnamaður frá Mílanó, „fram á völlinn“ (eins og hann orðaði það sjálfur), að sumir telja til þess að firra sig og fyrirtæki sín frekari rannsókn af hálfu saksóknara. Grunsemdir höfðu fallið á hann meðal annars þegar bróðir hans viðurkenndi að hafa greitt nokkrum sveitarstjórnarmönnum mútur.

Kosningabandalagið sem Berlusconi fór fyrir (Polo della libertà) vann kosningarnar og 13. júlí kom stjórn hans í gegn reglugerð sem kom í veg fyrir fangelsisdóma fyrir öll nema alvarlegustu spillingarbrot. Sjónvarpið sýndi myndir af ríkisforstjórum sem höfðu orðið uppvísir að spillingu, labba út úr fangelsi. Þetta olli almennri reiði. Við það bættist að dómararnir sem höfðu staðið fyrir rannsókninni óskuðu eftir lausn frá störfum á þeirri forsendu að þeir yrðu að virða lög ríkisins, en gætu ekki dæmt eftir lögum sem stríddu gegn samvisku þeirra með þessum hætti. Almenningsálitið olli því að reglugerðin var snarlega dregin til baka.

Craxi flýr land

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir því sem rannsókninni miðaði jukust líkurnar stöðugt á því að Bettino Craxi yrði handtekinn. Bettino Craxi var í huga almennings nokkurs konar táknmynd spillingarinnar í ítölskum stjórnmálum. Um alla Róm mátti lesa veggjakrot á við „Dentro Bettino, fuori il bottino“ („Inn með Bettino, út með þýfið“). Álit almennings á Craxi lýsti sér vel í mótmælum þegar hann kom eitt sinn út af hótelinu þar sem hann bjó í Róm og mannfjöldinn fyrir utan henti í hann smápeningum og söng „Bettino, prendi anche queste“ („Bettino, taktu þessa líka“) við lagið Guantanamera. Í maí flýði hann land og flutti í glæsihýsi sitt í Hammamet í Túnis.

Stríðið milli Berlusconis og Di Pietro

[breyta | breyta frumkóða]
Silvio Berlusconi

Nú hófst hálfgert stríð milli framkvæmdavaldsins og dómsvaldsins. Öðrum megin voru dómararnir að rannsaka fjárreiður Fininvest, fyrirtækjasamsteypu forsætisráðherrans, og á móti sendi ríkisstjórnin skoðunarmenn sína inn á skrifstofur dómaranna til að leita að merkjum um óreiðu og spillingu. Brátt komu fram ásakanir á hendur Di Pietro sem urðu til þess að hann sagði af sér embætti dómara. Árið eftir leiddi opinber rannsókn til þess að hann var hreinsaður af áburðinum. Hann hóf þátttöku í stjórnmálum, fyrst sem óflokksbundinn í stjórn Romanos Prodis (1996-1998) og síðan með sína eigin stjórnmálahreyfingu: Italia dei Valori.

22. desember 1994 sagði ríkisstjórn Berlusconis af sér, þar sem hún stóð frammi fyrir vantrauststillögu. Í kjölfarið fylgdu dómskvaðningar og kærur á hendur Berlusconi og samstarfsmönnum hans vegna tengsla við mál ENI og Montedison, en Berlusconi stóð hríðina af sér, meðal annars vegna fyrninga.

Eftir árið 1994 jókst stöðugt hættan á því að glæpirnir sem voru til rannsóknar fyrndust og dómsvaldið óskaði eftir auknum fjárveitingum til rannsóknarinnar. Ekki var orðið við þessum óskum, hvorki af kosningabandalagi Berlusconis, né kosningabandalagi vinstri- og miðflokka (Ólífubandalagið) sem tók við. Að lokum runnu frekari rannsóknir út í sandinn og meintir glæpir fyrndust.

Mani pulite hófst vegna þess sem að mörgu leyti eru sérstakar aðstæður á Ítalíu þar sem dómsvaldið getur hafið rannsókn fyrir eigið frumkvæði. Ríkissaksóknaraembættið er hluti dómsvaldsins undir eftirliti framkvæmdavaldsins og saksóknarar njóta sömu réttinda og dómarar. Aðgreining valds er mjög djúpstæð í kerfinu og það eina sem tengir á milli þriggja greina ríkisvaldsins (að minnsta kosti samkvæmt kenningunni) eru stjórnarskráin og forseti lýðveldisins, sem er „fulltrúi einingar þjóðarinnar“ og „vörður stjórnarskrárinnar“. Dómarar eru kjörnir af öðrum dómurum og nefndum á vegum dómsvaldsins á grundvelli formlegra hæfniskrafna. Þetta hefur gefið tilefni til ásakana um að dómsvaldið reki (vinstrisinnaða) stjórnmálastefnu í andstöðu við framkvæmdavaldið (kenningin um „rauðu hempurnar“). Þessar ásakanir hafa verið uppistaðan í gagnrýni á réttarhöldin og rannsóknina. Craxi varði sig með þessu allt þar til hann lést í útlegð árið 2000 og Berlusconi hefur haldið þessu sjónarmiði á loft í hvert sinn sem hann hefur staðið frammi fyrir grun um spillingu.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Moliterno, Gino (2000). Encyclopedia of contemporary Italian culture. Routledge. ISBN 0-415-14584-8.
  2. Stephen P. Koff (2002). Italy: From the 1st to the 2nd Republic. Routledge. bls. 2. ISBN 978-0-203-00536-1.
  3. Daniel del Pino para Público.es. „Tangentopoli, una transición incompleta“. Sótt 14. janúar 2014.
  4. New York Times:Web of Scandal: A special report.; Broad Bribery Investigation Is Ensnaring the Elite of Italy, 3. March 1993

Viðbótarlesning

[breyta | breyta frumkóða]
  • Burnett, Stanton H./Mantovani, Luca: The Italian Guillotine: Operation Clean Hands and the Overthrow of Italy's First Republic, Rowman & Littlefield, Lanham 1998, ISBN 0-8476-8877-1
  • Mammarella, Giuseppe. Historia de Europa Contemporánea desde 1945 hasta hoy. Ariel, Barcelona, 1996. ISBN 84-344-6582-5
  • Stille, Alexander: Die Richter: Der Tod, die Mafia und die italienische Republik, C.H. Beck, München 1997, ISBN 3-406-42303-5
  • Stille, Alexander: Citizen Berlusconi, C.H. Beck, München 2006, ISBN 3-406-52955-0