Fara í innihald

Francesco Crispi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Francesco Crispi (4. október 181912. ágúst 1901) var ítalskur stjórnmálamaður sem átti þátt í sameiningu Ítalíu og varð tvisvar forsætisráðherra Ítalíu. Crispi fæddist á Sikiley og tók þar virkan þátt í Sikileyjarbyltingunni gegn Ferdinand 2. sem leiddi til þess að hann fór í útlegð til Fjallalands. Hann var bendlaður við Mazzini-samsærið 1853 og flýði þá til Möltu og síðan til Parísar. 1859 sneri hann aftur til Ítalíu og ferðaðist með leynd um Sikiley til að undirbúa uppreisn árið eftir. Í Genúa tók hann þátt í undirbúningi þúsundmannaleiðangursins sem lenti á Sikiley maí 1860. Crispi var þá lýstur „einvaldur Sikileyjar“. Eftir fall Palermó var Crispi útnefndur innanríkis- og fjármálaráðherra í bráðabirgðastjórn eyjarinnar en sagði brátt af sér vegna deilna milli fylgismanna Garibaldis og Cavour um innlimun eyjarinnar í ítalska ríkið.

Eftir sameininguna bauð Crispi sig fram til þingsetu og náði kjöri. Hann var í hópi „vinstrimanna“, þ.e. þeim hópi sem stutt hafði stofnun lýðveldis og voru andsnúnir konungsvaldinu en 1864 skipti hann um lit og gerðist konungssinni. 1867 reyndi hann að koma í veg fyrir innrás Garíbaldína í Róm sem leiddi til ósigurs þeirra í orrustunni við Mentana. Þegar fransk-prússneska stríðið hófst 1870 var hann andstæðingur hugsanlegs bandalags við Frakka.

Þegar Viktor Emmanúel 2. lést 1878 átti Crispi þátt í því sem innanríkisráðherra í þriðju ríkisstjórn Depretis að skapa konungsvaldinu traustari grundvöll, sjá til þess að konungurinn yrði grafinn í sérstöku grafhýsi í Róm, en ekki fluttur til Savoja og að eftirmaður hans tæki upp nafnið Úmbertó 1. konungur Ítalíu, en ekki Úmbertó 4. af Savoja. Hann átti einnig þátt í því, þegar Píus 9. lést, að sannfæra ráðsnefnd páfa um að halda fund sinn í Róm og samþykkja þannig í reynd lögmæti yfirtöku höfuðborgarinnar.

1887, þegar hann var orðinn forsætisráðherra fyrir vinstrimenn á þingi, stofnaði hann til persónulegra tengsla við Otto von Bismarck og mótaði utanríkisstefnu sína út frá Þríveldabandalaginu: varnarbandalagi Ítalíu, Austurríkis-Ungverjalands og Þýskalands 1882.

Róttækir stuðningsmenn Crispis studdu hann nú ekki lengur en hægrimenn studdu stjórnina til 1891. Crispi beitti hörku gegn uppþotum og mótmælum og féll þannig í kramið hjá borgarastéttinni. Þegar fyrsta ríkisstjórn Giolittis virtist óhæf til að berjast gegn uppþotum var Crispi beðinn um að taka aftur við stjórninni. Í kosningunum 1895 fékk Crispi mikinn meirihluta en ósigurinn við Adúa í Austur-Afríkuherförinni ári síðar varð til þess að hann sagði af sér.

Eftir þetta hélt Crispi áfram stjórnmálastarfi í þinginu.


Fyrirrennari:
Agostino Depretis
Forsætisráðherra Ítalíu
(1887 – 1891)
Eftirmaður:
Antonio Starabba
Fyrirrennari:
Giovanni Giolitti
Forsætisráðherra Ítalíu
(1893 – 1894)
Eftirmaður:
Antonio Starabba