Pietro Badoglio

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Pietro Badoglio

Pietro Badoglio, 1. hertogi af Addis Abeba (28. september 18711. nóvember 1956) var ítalskur hershöfðingi og stjórnmálamaður. Hann hóf feril sinn í ítalska hernum og barðist í Erítreu og Líbýu. Hann varð herforingi eftir að hafa tekið Monte Sabotino í maí 1916. Eftir stríð var hann útnefndur öldungadeildarþingmaður en hélt áfram störfum fyrir herinn. Í fyrstu var hann á móti Benito Mussolini og 1922 var honum ýtt til hliðar og hann gerður að sendiherra í Brasilíu. Afstaða hans breyttist þó fljótt og 1924 varð hann yfirmaður í hernum og landstjóri í Líbýu 1929 til 1933. 1936 tók hann við af Emilio de Bono sem yfirmaður innrásarinnar í Eþíópíu og heimilaði meðal annars notkun eiturgass. Hann náði Addis Abeba á sitt vald 5. maí og batt þannig enda á átökin. Fyrir þetta var Badoglio gerður að varakonungi í Eþíópíu og fékk titilinn „hertogi af Addis Abeba“.

1939 gerðist Ítalía aðili að Stálbandalaginu. Badoglio var meðal þeirra sem voru andsnúnir samkomulaginu og höfðu áhyggjur af stöðu Ítalíu ef til styrjaldar kæmi. Eftir hrakfarir hersins í Grikklandi 1940 sagði hann af sér.

Þegar bandamenn réðust inn á Sikiley kom miðstjórn ítalska fasistaflokksins saman og framkvæmdi stjórnarbyltingu. Viktor Emmanúel 3. setti þá Mussolini af og fékk Badoglio umboð til stjórnarmyndunar. Lýst var yfir að herlög væru í gildi, Mussolini tekinn höndum og viðræður teknar upp við fulltrúa bandamanna. Þýski herinn brást þá við, réðist inn í Ítalíu og frelsaði Mussolini en stjórnin hörfaði til Pescara og Brindisi. 3. september skrifaði Badoglio undir vopnahlé gagnvart bandamönnum og 13. október lýsti hann formlega yfir stríði á hendur Þjóðverjum sem þá höfðu náð Róm á sitt vald. 10. júlí 1944 sagði hann af sér embætti og konungur veitti Ivanoe Bonomi, fulltrúa andstæðinga fasista, umboð til stjórnarmyndunar. Badoglio dró sig þá í hlé og bjó í fæðingarbæ sínum, Grazzano, til dauðadags.


Fyrirrennari:
Benito Mussolini
Forsætisráðherra Ítalíu
(1943 – 1944)
Eftirmaður:
Ivanoe Bonomi