Fara í innihald

Giorgia Meloni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Giorgia Meloni
Giorgia Meloni árið 2023.
Forsætisráðherra Ítalíu
Núverandi
Tók við embætti
22. október 2022
ForsetiSergio Mattarella
ForveriMario Draghi
Persónulegar upplýsingar
Fædd15. janúar 1977 (1977-01-15) (47 ára)
Róm, Ítalíu
StjórnmálaflokkurBræður Ítalíu
MakiAndrea Giambruno
Börn1
BústaðurPalazzo Chigi, Róm
Undirskrift

Giorgia Meloni (f. 15. janúar 1977) er ítölsk blaða- og stjórnmálakona sem er núverandi forsætisráðherra Ítalíu og leiðtogi stjórnmálaflokksins Bræðra Ítalíu. Flokkurinn er hægrisinnaður þjóðernisflokkur sem var myndaður upp úr Ítölsku samfélagshreyfingunni, nýfasistaflokki sem var upphaflega stofnaður af gömlum meðlimum Fasistaflokksins.

Meloni var ráðherra ungmennamálefna í fjórðu ríkisstjórn Silvio Berlusconi frá 2008 til 2011. Hún hefur verið leiðtogi Bræðra Ítalíu frá árinu 2014 og hefur jafnframt verið formaður Evrópuflokksins Evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna frá árinu 2020.

Flokkur Meloni varð stærsti flokkurinn á ítalska þinginu í þingkosningum Ítalíu árið 2022. Meloni tók við embætti forsætisráðherra þann 22. október sama ár, fyrst kvenna.

Fjölskylduhagir og menntun

[breyta | breyta frumkóða]

Giorgia Meloni er komin úr tiltölulega efnaðri fjölskyldu. Þegar hún fæddist í Róm þann 15. janúar árið 1977 vann faðir hennar, Francesco Meloni, sem er af sardínískum uppruna, sem endurskoðandi og var meðlimur í ítalska kommúnistaflokknum. Móðir hennar Anna Paratore, sem er af sikileyskum uppruna, var hægrisinnuð og var heimavinnandi húsmóðir.[1]

Þegar Meloni var þriggja ára kveikti hún óvart eld í fjölskylduíbúðinni á meðan hún lék sér með eldspýtur ásamt systur sinni.[1] Fjölskyldan flutti í kjölfarið í Garbatella-hverfið sunnan við höfuðborgina. Foreldrar Giorgiu skildu stuttu síðar og faðir hennar flutti til Kanaríeyja til að reka þar fyrirtæki. Giorgia Meloni sleit í kjölfarið sambandi við föður sinn og hefur ekki talað við hann síðan.

Faðir hennar var síðar dæmdur í 9 ára fangelsi á Spáni fyrir eiturlyfjasmygl. Stjórnmálamaðurinn Maurizio Gasparri sagði um Meloni:

Gæsalappir

Hún talar aldrei um þetta. Ég held að hún hafi verið illa særð og að hún hafi dregið sig inn í skel áður en hún fann nýja köllun í stjórnmálum.[1]

— .

Meloni er menntuð í tungumálafræði og hefur unnið sem blaðamaður.[2] Hún á eina dóttur með sambýlismanni sínum, Andrea Giambruno.[3]

Stjórnmálaferill

[breyta | breyta frumkóða]

Meloni hóf feril í ítölskum stjórnmálum árið 1992 þegar hún gekk í ungliðahreyfingu Ítölsku samfélagshreyfingarinnar (MSI), nýfasistaflokks sem hafði verið stofnaður eftir seinna stríð af fyrrum meðlimum Fasistaflokksins. Hún varð síðar for­maður stúdenta­hreyfingar Þjóðar­banda­lagsins, sem tók við af Samfélagshreyfingunni.[4]

Meloni var kjörin á þing fyrir Þjóðarbandalagið árið 2006. Tveimur árum síðar skipaði Silvio Berlusconi hana ráðherra ungmennamálefna í ríkisstjórn sinni.[4] Var Meloni þá yngsti ráðherra í sögu Ítalíu. Hún gegndi ráðherraembættinu til ársins 2011.[5]

Meloni tók þátt í stofnun flokksins Bræðra Ítalíu árið 2012 og varð leiðtogi flokksins tveimur árum síðar. Hún bauð sig fram á Evrópuþingið í Evrópuþingskosningunum árið 2014 en náði ekki kjöri. Árið 2016 bauð Meloni sig fram til borgarstjóra Rómar en tapaði fyrir Virginiu Raggi.[4]

Þegar helstu stjórnmálaflokkar Ítalíu mynduðu þverpólitíska þjóðstjórn með Mario Draghi sem forsætisráðherra árið 2021 hélt Meloni Bræðrum Ítalíu í stjórnarandstöðu. Þar sem Bræður Ítalíu urðu eini stóri þingflokkurinn sem ekki átti aðild að stjórn Draghi varð Meloni því sýnilegasti leiðtogi stjórnarandstöðunnar á ráðherratíð hans, sem jók mjög við vinsældir hennar.[5]

Bræður Ítalíu unnu um 26 prósent atkvæða í þingkosningum Ítalíu í september 2022 og urðu stærsti flokkurinn á þinginu.[6] Meloni tók því við embætti forsætisráðherra Ítalíu þann 22. október 2022 í stjórnarsamstarfi Bræðra Ítalíu við Norðurbandalagið og Áfram Ítalíu, flokk Berlusconi.[7]

Stjórnmálaskoðanir

[breyta | breyta frumkóða]

Á yngri árum var Meloni yfirlýstur aðdáandi fasíska einræðisherrans Benito Mussolini, sem hún sagði hafa gert allt í þágu Ítalíu. Meloni er þjóðernissinni og hefur lýst sig andvíga þungunarrofi, dánaraðstoð, hin­segin fólki og inn­flytj­endum.[8]

Meloni styður Úkraínu á móti Rússum í yfirstandandi innrás Rússa í Úkraínu og hefur stutt áframhaldandi hernaðaraðstoð við Úkraínu og efnahagsþvinganir gegn Rússlandi. Um þetta greinir Meloni á við leiðtoga hinna tveggja flokkanna í kosningabandalagi hægriflokkanna, Silvio Berlusconi og Matteo Salvini, sem báðir eru taldir hallir undir Vladímír Pútín Rússlandsforseta og hafa gagnrýnt refsiaðgerðir Vesturlanda gegn Rússum.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Ariel F. Dumont (7. febrúar 2020). „Italie : Giorgia Meloni, l'espoir du populisme qui rattrape Matteo Salvini sur sa droite“. marianne.net (franska). Sótt 31. ágúst 2022.
  2. „Giorgia Meloni“ (ítalska). Fulltrúadeild ítalska þingsins. Sótt 31. ágúst 2022.
  3. „Ginevra, "sorellina d'Italia": è nata la bambina di Giorgia Meloni“. corriere.it (ítalska). Corriere della Sera. 16. september 2016. Sótt 31. ágúst 2022.
  4. 4,0 4,1 4,2 4,3 Þorvarður Pálsson (24. september 2022). „Allt stefnir í öfga­hægri­stjórn á Ítalíu“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. september 2022. Sótt 26. september 2022.
  5. 5,0 5,1 Fanndís Birna Logadóttir (24. september 2022). „Hægri­flokkarnir stefna á stór­sigur með öfga­hægri­konu í farar­broddi“. Vísir. Sótt 27. september 2022.
  6. Fanndís Birna Logadóttir (26. september 2022). „„Ítalía valdi okkur". Vísir. Sótt 27. september 2022.
  7. Ásrún Brynja Ingvarsdóttir (22. október 2022). „Meloni sver embættiseið“. RÚV. Sótt 23. október 2022.
  8. Björk Eiðsdóttir (2. október 2022). „Konan sem leiðir Bræðralagið“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. desember 2022. Sótt 2. október 2022.


Fyrirrennari:
Mario Draghi
Forsætisráðherra Ítalíu
(22. október 2022 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.