Fara í innihald

Arthur Balfour

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Arthur James Balfour)
Arthur Balfour
Forsætisráðherra Bretlands
Í embætti
11. júlí 1902 – 5. desember 1905
ÞjóðhöfðingiJátvarður 7.
ForveriMarkgreifinn af Salisbury
EftirmaðurHenry Campbell-Bannerman
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. júlí 1848
Whittingehame House, East Lothian, Skotlandi
Látinn19. mars 1930 (81 árs) Fishers Hill House, Woking, Surrey, Englandi
StjórnmálaflokkurÍhaldsflokkurinn
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Arthur James Balfour, 1. jarlinn af Balfour (25. júlí 1848 – 19. mars 1930) var breskur stjórnmálamaður úr Íhaldsflokknum sem var forsætisráðherra Bretlands frá 1902 til 1905. Sem utanríkisráðherra frá 1916 til 1919 gaf hann út Balfour-yfirlýsinguna í nóvember 1917.

Balfour gekk á breska þingið árið 1874 og reis til metorða sem Írlandsmálaráðherra. Í því embætti kvað hann niður bændaóeirðir og beitti sér gegn fjarstöddum jarðleigendum. Hann var andstæðingur þess að Írland hlyti heimastjórn og taldi ekki að það ætti að miðla málum milli þess að Írland yrði áfram hluti af Bretlandi eða yrði sjálfstætt. Frá árinu 1891 var hann þingleiðtogi Íhaldsmanna á neðri deild þingsins á meðan frændi hans, Salisbury lávarður, var flokksformaður og forsætisráðherra. Balfour þótti frábær rökfærslumaður en honum leiddist daglegt amstur flokksstjórnarinnar.

Í júlí 1902 tók Balfour við af frænda sínum sem forsætisráðherra. Hann kom á umbótum í varnarmálum Bretlands, m.a. með því að koma á Samúðarsambandinu við Frakka. Ríkisstjórn hans kom á verndartollum til að hæla sérstaklega verslun innan breska heimsveldisins en þetta olli klofningi innan Íhaldsflokksins og margir ráðherrar sögðu sig úr ríkisstjórn Balfours. Balfour vakti einnig reiði almennings í lok seinna Búastríðsins vegna „villimannslegra“ aðferða breska hersins, og með því að flytja inn kínverska verkamenn til Suður-Afríku sem almenningi fannst jaðra við þrælahald. Balfour sagði af sér í desember árið 1905 og Íhaldsmenn hlutu afhroð í þingkosningum næsta ár, þar sem Balfour sjálfur datt út af þingi. Hann komst aftur inn á þing í aukakosningum og var leiðtogi stjórnarandstöðunnar til ársins 1911, en þá sagði hann af sér sem flokksformaður.

Balfour gerðist flotamálaráðherra í samsteypustjórn H. H. Asquith (1915–16). Í desember árið 1916 varð hann utanríkisráðherra í ríkisstjórn David Lloyd George. Honum var oft haldið utan við mikilvægar ákvarðanir í breskri utanríkisstefnu en Balfour-yfirlýsingin um stuðning Breta við Zíonista bar þó nafn hans. Balfour gegndi áfram ýmsum mikilvægum embættum á þriðja áratugnum og lést þann 19. mars 1930 eftir að hafa sólundað miklum auð sem hann hlaut í arf. Balfour giftist aldrei. Balfour var menntaður sem heimspekingur og sem slíkur færði hann rök fyrir því að mannleg rökvísi gæti aldrei komist á snoðir um neinn sannleika. Hann þótti gjarnan fjarrænn í lífsskoðunum sínum og á að hafa sagt: „Ekkert skiptir miklu máli og fátt skiptir neinu máli.“


Fyrirrennari:
Markgreifinn af Salisbury
Forsætisráðherra Bretlands
(1902 – 1905)
Eftirmaður:
Henry Campbell-Bannerman