Íran-Kontrahneykslið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Reagan ásamt Caspar Weinberger varnarmálaráðherra, George Shultz utanríkisráðherra, Ed Meese ríkissaksóknara og Don Regan starfsmannastjóra.

Íran-Kontrahneykslið var stjórnmálahneyksli sem kom upp á öðru kjörtímabili Ronald Reagan Bandaríkjaforseta. Í ljós kom að háttsettir embættismenn Bandaríkjastjórnar höfðu haft milligöngu um vopnasölu til Íran sem á þeim tíma var í vopnasölubanni. Tilgangurinn með sölunni var annars vegar að tryggja lausn bandarískra gísla í haldi Hezbollah-samtakanna í Líbanon og hins vegar að fjármagna Kontraskæruliða í Níkaragva. Þessum stuðningi Bandaríkjastjórnar við Kontraskæruliðana hafði verið hafnað af Bandaríkjaþingi auk þess sem hann hafði lítinn hljómgrunn meðal almennings.

Áætlunin gekk út á að Ísrael myndi senda vopn til Íran og Bandaríkin síðan senda vopn til Ísrael gegn greiðslu. Í staðinn átti Íransstjórn að gera allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja lausn bandarískra gísla í Líbanon. Íran var á þessum tíma undir vopnasölubanni sem Jimmy Carter hafði komið á vegna gíslatökunnar í Teheran árið 1979. Margir embættismenn Reagan-stjórnarinnar voru andsnúnir vopnasölubanninu þar sem þeir óttuðust að með því yrði Íran enn háðara Sovétríkjunum auk þess sem þeir töldu það gagnslaust þar sem Íranir gætu auðveldlega keypt varahluti í bandarísk vopn í sinni eigu annars staðar frá. Bæði utanríkisráðherra stjórnar Reagans, George Shultz, og varnarmálaráðherrann Caspar Weinberger, voru samt andsnúnir hugmyndinni þar sem hún fól í sér bæði sölu vopna til óvinaríkis og samninga við hryðjuverkamenn, sem hvort tveggja var ólöglegt. Engu að síður féllst Reagan á áætlunina og fyrsta vopnasalan fór fram í ágúst 1985.

Í desember 1985 kom herráðgjafi Þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna Oliver North með tillögu að breytingum á áætluninni. Breytingarnar fólu í sér að í staðinn fyrir milligöngu Ísraels kom bein sala til Íran og að tekjur af vopnasölunni yrðu látnar renna til Kontraskæruliða í Níkaragva. Allt frá því Ronald Reagan tók við forsetaembætti 1981 hafði hann reynt eftir megni að styðja andstæðinga ríkisstjórnar Sandínista í Níkaragva. Bandaríkjaþing samþykkti þrjár lagabreytingar á árunum 1982 til 1984 sem takmörkuðu aðstoð Bandaríkjanna við Kontraskæruliða og bönnuðu meðal annars sendingu hergagna til þeirra. Tillögur North gengu því út á að fara í kringum bæði yfirlýsta stefnu ríkisstjórnarinnar og lög þingsins. Ekki er enn ljóst hvort Reagan hafi sjálfur samþykkt þetta fyrirkomulag þótt vitað sé að hann vildi styðja Kontraskæruliða.

Málið komst í hámæli þegar háttsettur foringi í íranska byltingarhernum, Mehdi Hashemi, lak upplýsingum í líbanska dagblaðið Ash-Shiraa sem birti grein um það 3. nóvember 1986. Mánuði fyrr hafði bandarísk flutningavél með vopnasendingu til Kontraskæruliða verið skotin niður yfir Níkaragva. Þrátt fyrir að CIA hafi neitað því að eiga aðild að sendingunni staðfesti frétt Ash-Shiraa hvernig í pottinn var búið. Íransstjórn staðfesti einnig sögu dagblaðsins og tveimur dögum síðar, eða 13. nóvember, kom Reagan fram í sjónvarpi og viðurkenndi vopnasöluna. Nokkrum dögum síðar eyðilagði Oliver North öll skjöl sem tengdust málinu. Nokkrar rannsóknarnefndir voru settar á stofn til að rannsaka málið. Ellefu hlutu dóma í kjölfarið en sumum þeirra var snúið við áfrýjun og þeir sem eftir voru voru náðaðir á síðustu stjórnarárum George H. W. Bush sem var varaforseti þegar málið kom upp.

Vopnasala til Íran[breyta | breyta frumkóða]

Opinberir embættismenn Bandaríkjastjórnar höfðu trú á að viðskiptin myndu liðka fyrir bættum samskiptum Bandaríkjanna og Íran en þau gengu gegn opinberri stefnu sem bannaði vopnasölu þangað. Slóðin var falin með því að fara í gegnum Ísrael á þann hátt að Ísrael seldi írönskum aðilum vopnin en Bandaríkjamenn útveguðu þeim vopn í staðinn. Málin þróuðust á þann veg að bandaríkin seldu Írönum vopn í skiptum fyrir alla bandaríska gísla Hezbollah-samtakanna í Líbanon, í leynilegri aðgerð háttsettra bandarískra embættismanna. Var hún að stórum hluta skipulögð af Lautinant Oliver North sem átti sæti í Þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna.

Stuðningur við Kontraskæruliða[breyta | breyta frumkóða]

Hluti af söluandvirði vopnanna var notaður til að styrkja hægrisinnaða Kontraskæruliða í Níkaragva en þeir áttu í baráttu við stjórn sandinista sem var þyrnir í augum bandarískra stjórnvalda. Bandaríkjastjórn studdi skæruliðana leynt og ljóst, síðustu árin í trássi við vilja Bandaríkjaþings. Nikaragva höfðaði síðar mál gegn Bandaríkjunum fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag sem úrskurðaði að íhlutun Bandaríkjanna væri brot á þjóðarétti[1].

Hlutur Ronalds Reagan[breyta | breyta frumkóða]

Þótt Ronald Reagan þáverandi forseti Bandaríkjanna hafi stutt málstað Kontraskæruliðanna var ekki hægt að sanna að hann hafi komið að greiðslu fjárstuðnings til þeirra. Handskrifuð minnisblöð Caspars Weinberger þáverandi varnarmálaráðherra benda til þess að Reagan hafi verið kunnugt um gísla viðskiptin og vopnasöluna. Vitnisburður Johns Poindexter öryggismálafulltrúa Reagan- stjórnarinnar um að hann hefði aldrei tilkynnt Reagan um málið kom þó í veg fyrir að Reagan væri dreginn fyrir dóm.[2] Hinsvegar fullyrðir Oliver North í endurminningum sínum að Reagan hafi bæði lagt blessun sína yfir viðskiptin við Íran sem og stuðning við Kontraskæruliðanna og hafi hann verið upplýstur reglulega um gang mála.[3] Ekki hafa verið færðar sönnur á þessi ummæli North en hann var dæmdur fyrir að fara gegn þinginu og eyðingu opinberra gagna. North var síðar náðaður af George W. Bush með þeim rökum að gjörðir hans hefðu verið byggðar á tryggð við föðurlandið.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Nikaragva“. Afrit af upprunalegu geymt þann 4. júlí 2008. Sótt 12. nóvember 2010.
  2. „The National Security Archive“. Sótt 12. nóvember 2010.
  3. „North Says Reagan Knew of Iran Deal“. Sótt 12. nóvember 2010.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  Þessi sögugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.